Fara í efni
Íþróttir

Frábær aðstaða fjallahjólara í Hlíðarfjalli

Hjól og flug! Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Það var mikið um að vera í Hlíðarfjalli um liðna helgi, dagana 14.-16. júlí þegar Hjólreiðafélag Akureyrar stóð fyrir fjallahjólahelgi í samstarfi við Greifann. Á föstudag var krakkafjör og svo Ungdúró í framhaldi af því. Á laugardag var keppt í Endúró og svo fjallabruni á sunnudag. 

Um tvær vikur eru síðan Hjólagarðurinn í Hlíðarfjalli var opnaður en svæðið er rekið af Akureyrarbæ í samstarfi við Hlíðarfjall og Hjólreiðafélag Akureyrar. Akureyrarbær er með mann í vinnu, sem reyndar er svo líka hluti af Hjólreiðafélagi Akureyrar, og hann er með þrjá krakka úr vinnuskólanum með sér. Þessi hópur sér um að viðhalda brautunum og eru í þessari vinnu í allt sumar. Auk hjólreiðabrautanna í Hlíðarfjalli eru svo einnig brautir í Kjarnaskógi, en hluti þeirra er í allt í senn hjólreiða-, hlaupa- og göngustígar.

Frábær aðstaða fyrir fjallahjólara

Sigrún Kristín Jónsdóttir er formaður Hjólreiðafélags Akureyrar. Hún segir almenna ánægju með hjólreiðagarðinn. „Fyrir fjallahjólara er þetta frábær aðstaða til að æfa,“ segir Sigrún Kristín. Hún nefnir í leiðinni að þetta sé eina hjólreiðasvæðið á landinu með lyftu, en hjólreiðafólk notar Fjarkann, skíðalyftuna í Hlíðarfjalli, og jafnvel möguleiki á að nota Fjallkonuna í nokkur skipti í sumar. „Við erum í góðu samstarfi við bæinn og Hlíðarfjall um uppbygginguna á svæðinu,“ segir Sigrún Kristín. „Við höfum verið að reyna að efla ungliðastarfið, erum með hjólanámskeið, bæði fyrir götuhjól og fjallahjól.“

Mótsstjórarnir. Sigrún Kristín Jónsdóttir, formaður Hjólreiðafélags Akureyrar, var mótsstjóri í Ungdúró og Endúró-mótunum, en Sunna Axelsdóttir (til vinstri) í Fjallabruninu.

HFA telur um 100 félaga sem greiða félagsgjöld, en eitthvað færri eru virkir í hjólreiðakeppnum. Félagið býður upp á æfingar og hjólahitting, en stóru verkefnin eru tvær helgar yfir sumarið þegar haldin eru mót. Fyrri helgin var í maí og svo Fjallahjólahelgi Greifans um liðna helgi. Keppendur komu víða að enda voru mótin þrjú bikarmót og hluti af mótaröð Hjólreiðasambands Íslands.

Hjólreiðar eru ekki hættulausar, en Sigrún Kristín segir vel hugað að öryggismálum í kringum svona mót, í samstarfi við viðbragðsaðila og með þaulvant fólk í störfum öryggisstjóra og í eftirliti og gæslu á keppnissvæðinu.

Úrslit og myndaalbúm

Úrslit í öllum keppnunum og öllum flokkum er að finna á vefnum timataka.net. Hér að neðan eru þrír efstu í hverri keppni í kvenna- og karlaflokki, og rafhjólaflokkur með á þeim listum, en úrslit í einstökum flokkum má skoða með því að smella á þessar myndir sem eru skjáskot af timataka.is.

Ármann Hinrik Kolbeinsson var í fjallinu um helgina með myndavélina og myndaði keppendur. Myndir af verðlaunahöfum er að finna í albúmum Ármanns, en tenglar á hvert albúm eru við hverja keppni fyrir sig.

Ungdúró - 46 keppendur - öll úrslit á timataka.is

Tómas Rafn Harðarson náði bestum árangri heimamanna í Ungdúró-keppninni, en hann sigraði í karlaflokki. Keppendur frá HFR röðuðu sér í efstu sætin á heildarlistanum, en Sylvía Mörk Kristinsdóttir var efst heimakvenna úr HFA, endaði í 5. sætinu.

Myndaalbúm - Ármann Hinrik Kolbeinsson


Tómas Rafn Harðarson úr Hjólreiðafélagi Akureyrar sigraði í karlaflokki í Ungdúró-keppninni. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Endúró - 60 keppendur - öll úrslit á timataka.is

Jónas Stefánsson vann A-flokk karla og með annan besta tímann í heildina, en sá sem er fyrir ofan hann á heildarlistanum keppti í rafhjólaflokki. Svala Björnsdóttir keppti í rafhjólaflokki, en efst heimakvenna úr HFA í kvennaflokki varð Elín Auður Ólafsdóttir.

Myndaalbúm - Ármann Hinrik Kolbeinsson.


Sigur? Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.


Jónas Stefánsson var efstur heimamanna úr HFA í Endúró-keppninni, með næstbesta tímann í heildina og vann A-flokk karla. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.


Keppendur í Endúró eða öðrum greinum fjallahjólreiða koma líklega sjaldnast hreinir í mark, en ekki er annað að sjá en að allir séu glaðir. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Fjallabrun - 63 keppendur - öll úrslit á timataka.is

Í fjallabruninu var það Sylvía Mörk Kristinsdóttir sem stóð sig best heimakvenna og náði 2. sætinu, og þeir Elvar Máni Stefánsson og Hlynur Snær Elmarsson úr HFA náðu 2. og 3. sæti í karlaflokknum.

Myndaalbúm Ármanns Hinriks.


Margt býr í þokunni, þar á meðal fljúgandi fjallahjól. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.