Fara í efni
Íþróttir

Hjóluðu frá Siglufirði í Hlíðarfjall – MYNDIR

Síðasti hluti leiðarinnar hjólaður í kvöld, upp Hlíðarfjallsveg að skíðasvæði Akureyringa sem einnig…
Síðasti hluti leiðarinnar hjólaður í kvöld, upp Hlíðarfjallsveg að skíðasvæði Akureyringa sem einnig er orðið þekkt sem útivistarsvæði að sumri, ekki síst fyrir hjólafólk. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Gangamót Greifans fór fram í kvöld, en það er hluti árlegrar Hjólreiðahátíðar Greifans, sem staðið hefur alla vikuna. Hjólað var frá Siglufirði, í gegnum Héðinsfjarðargöng til Ólafsfjarðar og síðan í gegnum Múlagöng áleiðis til Dalvíkur og áfram til Akureyrar. Fæstir keppendur linntu látum fyrr en þeir höfðu hjólað alla leið upp í Hlíðarfjall ofan Akureyrar, en endamark sumra var við svæði Bílaklúbbs Akureyrar, rétt áður en lagt er í hann upp Hlíðarfjallsveg. 

Keppt var í nokkrum flokkum. Bestu konurnar hjóluðu 81,9 kílómetra en bestu karlarnir 102,8 kílómetra. Þeir hjóluðu auka hring í Svarfaðardal á leiðinni frá Dalvík. 

Áhugi á hjólreiðum hefur aukist gífurlega á síðustu árum og mikill fjöldi fólks tók þátt í Gangamótinu. Ingvar Ómarsson, Breiðabliki, besti hjólreiðamaður landsins, sigraði örugglega í A-flokki karla á rúmlega tveimur og hálfri klukkustund; 2:39,17 klst en í keppni bestu kvennanna varð Anna Guðrún Gunnlaugsdóttir úr Tindi hlutskörpust á 2:38,15 klst. Önnur varð Akureyringurinn Hafdís Sigurðardóttur, HFA, 46 sekúndum á eftir Önnu Guðrúnu. 

Einn af hápunktum Hjólreiðahátíðarinnar er á dagskrá á morgun, föstudag; Bikarmót í fjallabruni í Hlíðarfjalli. Keppni hefst klukkan 16.00. 

Hér má sjá nokkrar myndir frá keppni kvöldsins.