Fara í efni
Íþróttir

Ha, vinnið þið allar úti og eigið börn?!

Íslensku konurnar á HM í Imola. Frá vinstri: Bríet Kristý Gunnarsdóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir og…
Íslensku konurnar á HM í Imola. Frá vinstri: Bríet Kristý Gunnarsdóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir. Ljósmynd: Hörður Ragnarsson.

Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðakempa, keppti í fyrsta skipti erlendis í lok september og réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur: tók þátt í heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum í Imola á Ítalíu. Hún segir þátttöku á HM mikla reynslu og magnaða upplifun.

Áhugi á hjólreiðum hefur aukist gríðarlega hérlendis á síðustu árum, ekki síður á Akureyri en annars staðar. Hafdís byrjaði að hjóla fyrir alvöru árið 2013 þegar hún var búsett í Reykjavík. „Ég byrjaði í þríþraut; hjólreiðum, hlaupi og sundi, og keppti lítillega. Þegar ég flutti norður var ég komin með tvö börn og hafði ekki eins mikinn tíma en hélt áfram að hjóla og langaði að keppa; þegar ég byrja á einhverju vil ég vera á fullu en ekki með hálfklák.“

HM í sumar er toppurinn á ferlinum, segir Hafdís en skammt var stórra högga milli. Hún og Haraldur Örn Hansen gengu nefnilega í hjónaband í lok ágúst og Hafdís keppti á HM mánuði síðar.

Vissi ekki hvert hún ætlaði!

„Fyrirvarinn var í raun mjög stuttur. Það hafði verið vitað síðan í janúar að Ísland ætti pláss á HM, en mótinu, sem átti að vera í Sviss í ágúst, var frestað vegna Covid og við vorum ekkert að hugsa um það. En þegar keppnistímabilinu var nærri lokið hér heima, aðeins eitt bikarmót eftir, var tilkynnt að HM færi fram. Þá hélt maður bara áfram í stað þess að draga úr æfingum en það breytti litlu. Við hefðum ekki undirbúið okkur öðruvísi þótt fyrirvarinn hefði verið lengri.“

Í Imola var bæði keppt í svokallaðri tímatöku, þar sem einn er ræstur í einu og keppir við klukkuna, og í hefðbundinni keppni þar sem allir eru ræstir í einu. Hafdís tók þátt í síðarnefndu keppninni ásamt Ágústu Eddu Björnsdóttur og Bríet Kristý Gunnarsdóttur.

Bestu götuhjólreiðamenn heims voru saman komnir í Imola, flestir atvinnumenn í greininni og hafa keppt frá unga aldri. Tvö lið deildu húsi og Íslendingarnir voru svo heppnir, segir Hafdís, að búa með Hollendingum, sem eru frábærir hjólreiðamenn. „Hinar búa við allt aðrar aðstæður en við. Hafa æft frá barnsaldri og fá allt upp í hendurnar. Ein hollensku stelpnanna sem við æfðum með var svo undrandi þegar hún komst að því að við værum allar útivinnandi og með börn, að ég vissi ekki hvert hún ætlaði!“

Hafdís Sigurðardóttir: Ég vakna yfirleitt rétt fyrir klukkan fimm og æfi á meðan friður er til að hjóla á götum bæjarins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

 

Ófeimnar við að gefa þeirri næstu olnbogaskot

Hjólað var af stað á kappakstursbautinni frægu í Imola. „Við vorum 140 og allar ræstar í einu. Þær útlendu hafa æft við þannig aðstæður síðan þær voru smástelpur, eru vanar að hjóla í stórum hópum og eru mjög aggressívar; troðast áfram með öllum ráðum og eru ófeimnar að gefa næsta manni olnbogaskot! Þetta er eitthvað sem við þekkjum ekki hér heima, en vissum af og höfðum reynt að búa okkur undir. En svo þegar komið er af stað er þetta miklu meira brútal en ég átti von á.

Fyrst er hjólaður einn hringur, bíll keyrir á undan til að halda hraðanum niðri en eftir einn hring má fara á fullt. Rétt á eftir þrengist brautin mjög og þá verður allt brjálað. Allir reyna að troðast og ég lenti strax í árekstri! Ég var sem sagt ekki komin út af formúlubrautinni þegar ég hafði dottið! Þurfti þá að koma keðjunni aftur á hjólið var fljótlega komin af stað, þurfti að hafa mig alla við til að ná hópnum en það tókst.“

Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið fremsta hjólreiðakona landsins um nokkurra ára skeið. „Hún er okkur frábær fyrirmynd, hefur verið best en aðrar eiga alltaf góða möguleika á að raða sér í næstu sæti,“ segir Hafdís, sem er ánægð með árangur sumarsins. Haldin eru fjögur bikarmót og stig úr þremur bestu talin. Þá er haldið Íslandsmót og Hafdís lenti í þriðja sæti í hvoru tveggja.

HM er einstaklingskeppni en hópar vinna saman líkt og í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France. Ákveðið er hver í viðkomandi liði skuli verða fyrstur og liðið vinnur saman að því að það markmið náist. „Hollensku stelpurnar gerðu þetta til dæmis mjög vel; sú besta í þeirri hópi náði fljótlega forystu í keppninni, liðsfélagar hennar voru aðallega í því að halda hraðanum niðri, svo enginn næði henni, og hún varð heimsmeistari.“

Fyrirkomulag keppninnar var þannig að eftir að hjólaðir höfðu verið nokkrir kílómetrar kom að 28 km hring sem hjólaður var fimm sinnum af þeim sem fengu, en þegar keppandi var hringaður var honum gert að hætta. „Á þeirri leið voru nokkrir mjög erfiðir kaflar, bæði upp brekkur en ekki síður niður. Markmið okkar var að komast þrjá hringi áður en þær bestu næðu að hringa okkur, en það tókst ekki því okkur var gert að hætta á þriðja hring. Hátt í 80 konur náðu svo að komast alla leið.“

Nýfarin að æfa reglulega með þjálfara

Þegar Hafdís flutti norður á ný fyrir nokkrum árum komst hún fljótlega inn í hjólahóp. „Tveimur dögum fyrir WOW Cyclothone fékk ég hringingu og var beðin um að taka þátt, vegna þess að einn úr hópnum hafði forfallast.“

Hópurinn hjólar reglulega saman en það var ekki fyrr en síðasta vetur að Hafdís fór að æfa reglulega með þjálfara, Ingvari Ómarssyni. Yfir veturinn hjólar hún bæði heima á svokölluðum trainer, statífi sem hjólið er fest á, og á Bjargi, þar sem hún stjórnar einnig hjólatímum.

Hafdís er kennari við Oddeyrarskóla en hefur gjarnan lokið löngum hjóltúr áður en vinnudagur hefst. „Ég vakna yfirleitt rétt fyrir klukkan fimm og æfi á meðan friður er til að hjóla á götum bæjarins. Það er misjafnt eftir vikum hve mikið ég æfi, ég er á hjólinu 8 til 14 klukkutíma í viku hverri, auk þess sem tími fer í styrktaræfingar og teygjur.“ Auk þess að hjóla um götur Akureyrar fer hún um Eyjafjörð þveran og endilangan: Ég fer upp í Hlíðarfjall, inn í Eyjafjarðarsveit, yfir Víkurskarð, út á Grenivík, til Dalvíkur og Ólafsfjarðar.“

Hafdís hjólar mikið með móður sinni, Þórdísi Sigurðardóttur sem á árum áður gerði garðinn frægan sem fótboltamarkmaður. „Við æfðum oft saman í vaxtarræktinni, ég hafði lengi hvatt hana til að hjóla og eftir að við systkinin og pabbi gáfum henni götuhjól í afmælisgjöf lét hún til leiðast. Og nú er hún orðin eins og – algjörlega forfallin!“

Mæðgurnar Hafdís og Þórdís Sigurðardóttir hjóla mikið saman. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.