Verslunarmannahelgi: Hvernig verður veðrið?

Lífsins gæðum er misskipt og veðrinu þar á meðal. Norður- og austurhluti landsins njóta velvildar veðurguðanna næstu daga umfram aðra landshluta. Norðvesturland að hluta, Austurland að hluta og Norðausturland svo til óskipt fram yfir helgi. Vætan gerir þó eitthvað vart við sig hér á Akureyri eins og annars staðar á landinu, að minnsta kosti hluta úr degi á laugardag og sunnudag.
Hér verður byrjað á textaspá Veðurstofu Íslands.
Spá frá því kl. 10:09 í morgun gerir ráð fyrir suðvestanátt, 5-10 metrum á sekúndu og skúrum, en yfirleitt bjartviðri fyrir austan. Vestlæg átt verður á morgun, 3-8 m/sek. og dregur úr skúrum. Hiti verður 10-20 stig, hlýjast austanlands.
Veðurhorfur næstu daga
- Föstudagur: Sunnan 3-8 m/s og skýjað með köflum. Gengur í suðaustan 8-15 og fer að rigna síðdegis, en hægari og úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 11 til 19 stig, hlýjast norðaustantil.
- Laugardagur: Suðaustan og sunnan 8-15 og rigning, hvassast vestantil. Talsverð úrkoma um tíma sunnan- og suðaustanlands. Dregur úr vindi og úrkomu seinnipartinn. Hiti 11 til 17 stig.
- Sunnudagur og mánudagur: Suðlæg átt 5-10 og skúrir, en að mestu bjart austast. Hiti breytist lítið.
- Þriðjudagur: Útlit fyrir suðvestlæga átt og skúrir, en rigning sunnan- og vestanlands síðdegis. Hiti 9 til 15 stig.
Með spá Veðurstofu Íslands fylgja einnig hugleiðingar veðurfræðings:
„Í dag verður suðvestan 5-10 m/s og skúrir, en bjart að mestu austanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast austanlands. Áfram skúrir á morgun, en lægir og styttir upp á vestanverðu landinu síðdegis. Hiti breytist lítið. Á föstudag verður suðlæg átt 5-10 m/s og dálítil væta framan af degi, en eftir hádegi snýst í vaxandi suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, 8-15 m/s undir kvöld. Hægari og lengst af þurrt á Norðausturlandi. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast norðaustantil. Aðfaranótt laugardags er spáð suðaustan 13-20 m/s og talsverðri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Á laugardag dregur hægt úr vindi og úrkomu, suðlæg átt 8-13 með skúrum síðdegis. Á sunnudag og mánudag er útlit fyrir suðvestlæga átt með skúrum. Hiti 10 til 15 stig.“
Myndræn spá á vefnum gottvedur.is, sem Veðurstofa Íslands heldur úti. Spáin gildir fyrir helstu staði kl. 12 á hádegi í dag og næstu daga.
Blika áfram bjartsýn
Krossanesbrautin verður á bilinu 11-15 stiga hita næstu daga að því er myndræn spá á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, blika.is, gefur til kynna. Rigningin á laugardag er þó enn til staðar. Annars hægviðri og hlýtt.
Best fyrir austan í dag
Á vefnum bestavedrid.is má sjá á myndrænan hátt hvar besta veðrið á landinu er hverju sinni. Myndin hér að neðan sýnir stöðuna miðað við tímabilið kl. 12-17 í dag. Héraðsbúar, Norðfirðingar og gestir þeirra geta hrósað happi, að minnsta kosti í dag.
Áfram höldum við að fylgjast með myndrænni spá Veðurstofu Íslands og setjum hér fram stöðuna kl. 15 yfir allt landið í dag og næstu daga, alveg fram á hinn hefðbundna heimferðadag flestra sem eru á ferðinni um helgina.
Miðvikudagur 30. júlí kl. 15
Fimmtudagur 31. júlí kl. 15
Föstudagur 1. ágúst kl. 15
Laugardagur 2. ágúst 15
Sunnudagur 3. ágúst kl. 15
Mánudagur 4. ágúst kl. 15