Fara í efni
Fréttir

Þessi eina sanna Akureyri með öllu!

Elísa Kristinsdóttir nýkomin í mark eftir að hafa bætt brautarmetið í 100 km hlaupi Súlur vertical um 90 mínútur á laugardag – og síminn var aftur á lofti á Akureyrarvelli í gærkvöldi, m.a. til að fanga stórglæsilega flugeldasýningu að loknum Sparitónleikum. Myndir: Axel Darri Þórhallsson og Skapti Hallgrímsson

Fjölskylduhátíðinni Einni með öllu lauk á miðnætti með glæsilegri flugeldasýningu í kjölfar geysilega fjölsóttra Sparitónleika á Akureyrarvelli. Gott veður einkenndi hátíðina að þessu sinni.

Hugsanlega hafa aldrei jafn margir komið saman á gamla, góða íþróttavellinum við Hólabraut og í gærkvöldi; þeir talnaglöðustu sem Akureyri.net ræddi við slógu á að um eða yfir 20.000 manns hefðu sótt tónleikana en það gisk sel ég ekki dýrara en ég keypti. En hafi einhver efast um að þessi sælureitur henti vel undir samkomur af því tagi sem boðið var upp á í gær, eða hvers kyns meiriháttar mannamót ef út í það er farið, skiptir sá vonandi um skoðun á mettíma; framtíðin knúði dyra í gærkvöldi.

Fyrr í gær hélt Skógræktarfélag Eyfirðinga árlegan Skógardag í Kjarnaskógi og ólíklegt er að fleiri hafi sótt þann fallega viðburð fram að þessu.

Einn af hápunktum helgarinnar var á laugardaginn, ótengdur Einni með öllu en setti ekki síður svip á miðbæinn; fjallahlaupið Súlur vertical,  þar sem hver og einn keppir við sjálfan sig og fagnar að hlaupi loknu, en stjarna Elísu Kristinsdóttur skein skærast allra. Eins og Akureyri.net greindi frá á laugardag bætti Elísa brautarmetið í 100 kílómetra hlaupi kvenna um hvorki meira né minna en 90 mínútur! 

MYNDASYRPA FRÁ FÖSTUDEGI

MYNDASYRPA FRÁ LAUGARDEGI

Meira síðar í dag