Dýrmæt orð og tónar í Davíðsmessu

Þriðja árið í röð var boðið til Davíðsmessu á sunnudegi um verslunarmannahelgi á Akureyri. Séra Hildur Eir Bolladóttir byrjaði þessa hefð með hjálp góðs fólks, og eftir messuna í dag kvaðst hún það ánægð með útkomuna og mætinguna þessi þrjú ár sem þetta hefur verið haldið, að messan hljóti að vera komin til að vera.
Davíðsmessa heitir ekki í höfuðið á Davíð úr Biblíunni, heldur okkar eigin Davíð Stefánssyni, skáldsins frá Fagraskógi. Messan hefur því farið fram í Davíðshúsi, og í ár var fullt hús líkt og í fyrra og árið á undan. Ljóð skáldsins eru uppistaðan í dagskránni, en í þeim er mikil trú, mennska og fegurð - sem hæfir vel til messuhalds. Séra Hildur Eir sagði nokkur orð, en hún er ljóðskáld sjálf og þekkir það vel, hve dýrmæt orðin geta verið.
Hildur hefur fengið til liðs við sig tónlistarfólk og ljóðaunnendur hverju sinni, en í ár voru það hjónin Elvý G Hreinsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson sem fluttu tónlist við ljóð Davíðs. Eyrún Huld Haraldsdóttir, íslenskukennari í Menntaskólanum á Akureyri og ljóðaunnandi valdi og flutti ljóð eftir skáldið. Óvæntur leynigestur var svo ungur söngvari, Ísak Bolli, 6 ára. Hann söng Kvæðið um fuglana, og Eyþór spilaði undir, í upphafi messunnar.
Eftir stendur góð og hugljúf stund, og blaðamaður smellti af nokkrum myndum:
Hjónin Elvý og Eyþór fluttu nokkur lög við ljóð Davíðs. Þau slógu botninn í stundina með hressri og dillandi útgáfu af 'Litla kvæðinu um litlu hjónin'. Mynd: RH
Séra Hildur Eir. Mynd: RH
Eyrún Huld, íslenskukennari og ljóðaunnandi las valin ljóð eftir Davíð og bauð upp á fróðleik um skáldið. Mynd: RH
Eyrún notaði fótboltaspjöld sona sinna fyrir bókamerki. Mynd: RH
Það var húsfyllir í Davíðshúsi. Mynd: RH