Fara í efni
Fréttir

Forstjóri SAk: Fyllist lotningu og þakklæti

„Það er ekki hægt annað en að fyllast lotningu og þakklæti þegar maður horfir yfir þann ótrúlega kraft og hlýju sem Mömmur og möffins hefur fært fæðingardeildinni ár eftir ár,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), í tilefni þess að fæðingardeild stofnunarinnar voru færðar tæplega 1,7 milljónir króna í gær. Féð safnaðist á árlegum viðburði, Mömmur og möffins, um verslunarmannahelgina.

 „Þessi viðburður er ekki bara fallegt dæmi um þrautseigju og elju þeirra sem vilja láta gott af sér leiða,“ segir Hildigunnur á vef SAk, „heldur líka ómetanlegur stuðningur við mikilvæga þjónustu við nýbura og mæður á SAk. Fyrir hönd sjúkrahússins vil ég færa öllum sem koma að þessu framtaki, bæði bakstursfólki og styrktaraðilum, okkar innilegustu þakkir.“

Á fæðingardeildinni í gær. Mæðurnar eru Bryndís Björk, Sigríður Ásta, Linda Skarphéðinsdóttir og Guðrún Ólöf. Og börn þeirra heita Irmelín Aþena, Þrymir Dreki, Hafþór Friðrik, Ísabella og Haftýr Björn.

„Erum óendanlega þakklát“

Ingibjörg Jónsdóttir, deildarstjóri fæðingardeildar SAk, tekur undir orð Hildigunnar forstjóra. „Við erum óendanlega þakklát fyrir þeirra mikla vinnuframlag, þakklát öllum stuðningsaðilum, þakklát öllum sem versluðu gómsæt möffins og studdu við þessa söfnun. Ekki er ákveðið hvernig við verjum þessum peningum en við munum upplýsa um það síðar. Þúsund þakkir allir.“

Verkefnið Mömmur og möffins hófst árið 2010 og síðan hafa verið bakaðar þúsundir hinna litlu, fallegu og girnilegu kaka, og seldar gestum hátíðarinnar Einnar með öllu. Í ár voru bakaðar 2.784 möffins og seldar um 2.500; íbúar og starfsfólk Hlíðar fengu að njóta þeirra sem eftir voru.

Mömmur og möffins hafa á þessum 15 árum safnað umtalsverðum fjárhæðum fyrir fæðingardeild SAk. Ágóðinn hefur meðal annars nýst til tækjakaupa og annarra úrbóta sem styrkja þjónustu við mæður og nýbura á Norðurlandi.

Ingibjörg Jónsdóttir, deildarstjóri fæðingardeildar SAk, á milli skipuleggjenda viðburðarins Mömmur og möffins í ár. Þær eru, Bryndís Björk Hauksdóttir, lengst til vinstri, og Sigríður Ásta Pedersen. Mynd af Facebook síðu SAk.