Fara í efni
Fréttir

Söfnuðu 4,3 milljónum á Dekurdögum

Vilborg Jóhannsdóttir, Inga Vestmann og Selma Dögg Sigurjónsdóttir.

Kaupmennirnir Inga Vestmann í Pedromyndum og Vilborg Jóhannsdóttir í Centro, sem stóðu að Dekurdögum í 13. skipti fyrir skemmstu, afhentu í gær Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON) styrk að upphæð 4,3 milljónir króna. Þetta er hæsta upphæð sem safnast hefur í þessu frábæra framtaki þeirra Ingu og Vilborgar. Í fyrra afhentu þær KAON 4,2 milljónir.

„Kærar þakkir til allra þeirra fjölmörgu fyrirtækja og einstaklinga sem lögðu verkefninu lið með ýmsum hætti. Þetta er 13. árið sem Dekurdagar eru haldnir á Akureyri og er styrkurinn mikilvægur þáttur í rekstri Krabbameinsfélagsins,“ skrifaði Inga Vestmann á Facebook síður verkefnisins í gær.

„Einnig viljum við þakka alla aðstoðina við sölu á bleiku slaufunum sem velunnarar okkar í Lionsklúbbnum Sif í Eyjafjaðarsveit, Lionsklúbbnum Ylfu á Akureyri og Lionsklúbbnum Sunnu á Dalvík lögðu til söfnunarinnar.

Hjörtun okkar eru stútfull af þakklæti.

Kærar bleikar kveðjur til ykkar allra.“

Frá vinstri: Jón Gunnlaugur Stefánsson varaformaður KAON, Lísbet Snorradóttir Lionsklúbbnum Ylfu, Vilborg Jóhannsdóttir, Selma Dögg Sigurjónsdóttir í stjórn KAON, Inga Vestmann, Snædís Birna Jósepsdóttir starfsmaður KAON, Jenný Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá KAON og Hrönn Arnheiður Björnsdóttir, Lionsklúbbnum Sif.