Fara í efni
Fréttir

Krabbameinsfélagið fékk fimm milljónir!

Fimm milljónir! Frá vinstri: Vilborg Jóhannsdóttir, Inga Vestmann, Selma Dögg Sigurjónsdóttir, forma…
Fimm milljónir! Frá vinstri: Vilborg Jóhannsdóttir, Inga Vestmann, Selma Dögg Sigurjónsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og Marta Kristín Jónsdóttir, starfsmaður félagsins. Ljósmyndir: Þórhallur Jónsson

Kaupmennirnir Inga Vestmann í Pedromyndum og Vilborg Jóhannsdóttir í Centro, sem stóðu að Dekurdögum á Akureyri í 14. skipti á dögunum, afhentu í dag Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON) 5 milljónir króna. Þetta er hæsta upphæð sem safnast hefur í þessu frábæra framtaki þeirra Ingu og Vilborgar. 

Féð var afhent á samkomu Krabbameinsfélagsins í menningarhúsinu Hofi þar sem 70 ára afmæli félagsins var fagnað. 

Selma Dögg Sigurjónsdóttir, formaður KAON, sagði í ræðu á samkomunni að samfélagið á svæðinu hefði skipt sköpum fyrir félagið, sem nyti gríðarlegs stuðnings. „Undanfarin 10 ár hafa Dekurdagar verið einn stærsti einstaki bakhjarl félagsins en þá taka fyrirtæki hér í bæ höndum saman fyrir tilstuðlan Ingu í Pedrómyndum og Vilborgar í Centró og standa fyrir Dekurdögum þar sem finna má ýmis tilboð þar sem allur eða hluti ágóðar rennur til félagsins. Verkefni þar sem margt smátt gerir svo sannarlega eitt stórt en stuðningur þeirra á árinu 2021 nam 4,3 milljónum króna og samtals frá árinu 2012 hefur stuðningur þeirra verið ríflega 20 milljónir króna,“ sagði Selma Dögg í dag.

Hún þakkaði Ingu og Vilborgu sérstaklega „fyrir ómælda vinnu, stuðning og kraft í þágu félagsins – það munar svo sannarlega um minna – svo ekki sé nú talað um hversu dásamlegur yndisarður skapast um allt samfélag þar sem bleikar slaufur gleðja og gleðin skín á fjölmörgum viðburðum tengdum Dekurdögum.“