Fara í efni
Fréttir

Krabbameinsfélagið 70 ára – MYNDIR

Nick Cariglia, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, Marta Kristín Jónsdóttir, starfsmaður Krabbameinsf…
Nick Cariglia, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, Marta Kristín Jónsdóttir, starfsmaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, og séra Hildur Eir Bolladóttir. Nick flutti í dag fróðlegt erindi sem hann kallaði „Þögull morðingi“ og Hildur Eir ræddi um eigin reynslu af því að fá krabbamein. Ljósmyndir: Þórhallur Jónsson.

Það er sem af árinu eru rúmlega 330 viðtöl skráð hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON). Það er um það bil eitt á dag. Þetta kom fram í máli Selmu Daggar Sigurjónsdóttur, formanns félagsins, á fjölmennum 70 ára afmælisfagnaði þess í Hofi í dag.

Helstu verkefni Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis (KAON) eru að styðja við og fræða fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra ásamt því að standa fyrir námskeiðum og viðburðum.

Selma Dögg nefndi að ef spár rættust muni fleiri leita til KAON og Krabbameinsfélags Íslands á næstu árum og vinna þurfi markvisst að því að horfa fram á veginn og búa félagið undir aukna starfsemi.

Fjölgun krabbameina er spáð en „ljósið í myrkrinu er hins vegar sú að miklar framfarir eru á sviði vísinda og meðferðarúrræða sem í boði eru og sem betur fer er líka búist við því að vegna þessara framfara muni þeir sem hafa einhvern tímann fengið krabbamein fjölga um 50% og fyrir það ber að þakka,“ sagði Selma Dögg.

Annað ljós í myrkrinu

„Þá er það einnig ljós í myrkrinu að nýverið bárust fréttir af heimild fyrir hönnun og áætlanagerð vegna byggingar nýrra legudeildarbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri og er þá um leið gert ráð fyrir verulegri endurnýjun á eldra húsnæði sem nýta á í auka dag- og göngudeildarþjónustu sem sinnir m.a. lyfjameðferðum við blóð- og krabbameinum. Án þess að þekkja það sjálf á eigin skinni, hvernig það er að þurfa í krabbameinsmeðferð, þá get ég vel ímyndað mér mikilvægi þess að geta sótt meðferðarúrræði sem næst heimabyggð og þann stuðning sem þar er að finna í stað þess að sækja meðferðir til Reykjavíkur.“

Akureyri.net birti í kvöld ávarp Selmu Daggar í heild. Smellið hér til að lesa það.

Fimm milljónir! Frá vinstri: Vilborg Jóhannsdóttir, Inga Vestmann, sem afhentu Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis 5 milljónir króna sem söfnuðust á Dekurdögum í október, Selma Dögg Sigurjónsdóttir, formaður félagsins og nágrennis og Marta Kristín Jónsdóttir, starfsmaður félagsins.

  • Nánar hér um frábært framtak Vilborgar og Ingu.

Jenný Valdimarsdóttir, til vinstri, afhenti Selmu Dögg Sigurjónsdóttur formanni KAON blómvönd frá Krabbameinsfélagi Íslands í tilefni dagsins.

Vilborg Jóhannsdóttir og Inga Vestmann sem stóðu nú fyrir Dekurdögum í 14. skipti.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri var einn margra gesta í afmælishófinu.