Fara í efni
Fréttir

Söfnuðu 4,2 milljónum króna á Dekurdögum

Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, í miðjunni. Styrkinn afhentu Vilborg Jóhannsdóttir, til vinstri, og Inga Vestmann.

Metupphæð safnaðist á árlegum Dekurdögum, sem fram fóru á Akureyri í október, og afhentu aðstandendur viðburðarins Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis 4,2 milljóna króna styrk í gær.

Seldir voru handþrykktir klútar og bleikar slaufar í staura ásamt því að fyrirtæki greiddu fyrir þátttöku í viðburðinum.

Þetta var í 12. skipti sem Vilborg Jóhannsdóttir í Centro og Inga Vestmann í Pedromyndum standa fyrir Dekurdögum. Þær eru yfir sig ánægðar með hve vel tókst til að þessu sinni. „Við erum mjög þakklátar öllum sem hjálpuðu við undirbúninginn, miðbæjarskvísunum sem skreyttu miðbæinn með bleikum slaufum, dugnaðarforkunum sem þrykktu og straujuðu klútana á mettíma og grafísku hönnuðunum í Vorhús sem hönnuðu fallega munstrið á klútana í ár,“ segir Vilborg og Inga bætir við: „Við viljum líka þakka aðstoðina við söluna á klútum og slaufum frá velunnurum okkar sem seldu á Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Svalbarðseyri og víðar. Sömuleiðis fær Lionsklúbburinn Sif í Eyjarfjarðarsveit miklar þakkir fyrir að virkja íbúa sveitarinnar til að styrkja verkefnið með því að selja þeim slaufur á póstkassana sína en klúbburinn sá um að binda slaufurnar upp.“