Fara í efni
Fréttir

Rukka fyrir bílastæði á Akureyrarflugvelli

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Innan skamms þarf að greiða bílastæðagjald fyrir öll stæði við Akureyrarflugvöll. Þar hefur alltaf verið ókeypis að leggja.

Fyrstu 15 mínúturnar verða ókeypis en eftir það kostar hver klukkustund 350 krónur.

  • Verð fyrstu sjö dagana verður 1.750 kr fyrir hvern byrjaðan sólarhring og næstu sjö daga 1.350 kr.
  • Eftir 14 daga lækkar gjaldið niður í 1.200 kr á sólarhring.

Þetta kemur fram í auglýsingu frá Isavia innanlandsflugvöllum sem birtist í Dagskránni í gær.

Fólk hefur gjarnan skilið bílinn eftir þegar skroppið er burt. Verði sú raunin áfram eru hér dæmi um verð:

  • Ein vika – 12.250 krónur
  • Tvær vikur – 21.700 krónur

Sjálfvirkar myndavélar munu lesa bílnúmerin og auðkenna þannig bifreiðar þegar ekið er inn á bílastæðin og út af þeim.

„Fyrir reglulega notendur bílastæðanna er hentugast að útbúa aðgang að Autopay appinu (Autopay - Park & Charge), en einnig verður hægt að greiða með Parka og á vef Autopay: autopay.io,“ segir í auglýsingunni. Þar segir ennfremur: „Ef engin þessara greiðsluleiða er notuð innan 48 klst. frá útakstri kemur reikningur samkvæmt gjaldskrá í heimabanka bíleiganda. Innheimtukrafan er skráð á kennitölu eiganda ökutækis og kemur fram í heimabanka og viðbótarkostnaður leggst á kröfuna.“

Fljótlega verður gjald einnig tekið fyrir notkun bílastæða við Egilsstaðaflugvöll en ekki á Reykjavíkurflugvelli að svo stöddu. Lengi hefur þurft að greiða fyrir bílastæði á Keflavíkurflugvelli.