Fara í efni
Fréttir

Kennarar skora á ráðherra að víkja skólanefnd MA frá

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri hefur skorað á menntamálaráðherra að setja skólanefnd MA af og hefja ráðningarferli nýs skólameistara upp á nýtt. Hefur áskorun þessa efnis verið send til ráðherra. Þetta kemur fram á vef DV.

„Samkvæmt heimildum DV saka kennarar formann skólanefndar um að hafa hringt í fólk og hvatt það til að sækja um stöðuna með vilyrðum um ráðningu. Ríkir gífurleg óánægja meðal kennara við skólann með vinnubrögð skólanefndar,“ segir í fréttinni. 

Jón Már Héðinsson, skólameistari, lætur af störfum í sumar fyrir aldurs sakir eins og Akureyri.net hefur greint frá. 

Í  frétt DV segir að kennarar hafi ekki upplýsingar um með hverjum skólanefnd mælti í starfið í umsögn sinni til ráðherra. „Óánægja þeirra mun því ekkert hafa með persónur að gera heldur eingöngu vinnubrögð nefndarinnar sem þeim þykja vera mjög ófagleg,“ segir þar og er í samræmi við það sem áður hefur komið fram á Akureyri.net. „Setur kennarafélagið því fram þá kröfu að ferlið byrji alveg upp á nýtt með nýjum meðlimum í skólanefnd. Vinnubrögð í þessu ferli verði að vera hafin yfir allan vafa og svo hafi ekki verið í þessu tilviki,“ segir DV.

Smellið hér til að lesa frétt DV.