Fara í efni
Fréttir

Þröngt í Lundarskóla – þurfa lausar stofur

Nokkrar lausar kennslustofur voru á skólalóð Lundarskóla fyrir hálfum öðrum áratug þegar þessi mynd var tekin – gulu smáhýsin vinstra megin á myndinni. Skólinn hefur þörf á 2-3 slíkum stofum nú vegna fjölgunar nemenda. Mynd: Hörður Geirsson

Lundarskóli hefur óskað eftir því við fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar að fá 2-3 lausar kennslustofur á skólalóðina vegna fjölgunar nemenda. Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla, segir óvænta fjölgun í hverfinu sem líklega sé að yngjast upp, og sér ekki fram á fækkun að neinu ráði á næstu árum.

Í erindi Maríönnu til fræðslu- og lýðheilsuráðs kemur fram að ástæða þessarar beiðni sé að nemendum hafi fjölgað ört. Þá hafi starfsfólki einnig fjölgað í samræmi við fjölgun nemenda og vegna breytinga sem urðu þegar forvarna- og frístundamál voru færð inn í skólana með tilheyrandi ráðningum starfsfólks.

Stöðug fjölgun síðustu misseri

Maríanna segir í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net að orðið hafi óvænt fjölgun í skólanum, barnafólk sé að flytja í hverfið og fjölgun í flestum árgöngum sem stafi bæði af því að fólk sé að flytja til Akureyrar og á milli hverfa, mögulega sé hverfið að yngjast upp. 

„Skólinn er vel staðsettur, stutt í íþróttastarf, leikskóla, verslun, þjónustu og fleira sem barnafólk sækist í. Einnig er orðspor skólans ágætt og mikið af góðu fagfólki starfandi í skólanum,“ segir Maríanna. Stöðug fjölgun hefur átt sér stað síðustu misseri og frá því í vor hafa komið inn nýir nemendur nánast vikulega, einn eða fleiri. 

Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla. 

Í Lundarskóla eru nú skráðir 489 nemendur, þar af tveir í heimakennslu. Gert er ráð fyrir tveimur hefðbundnum kennslustofum, eða svokallaðri tvennd, fyrir hvern árgang. Einnig eru í skólanum list- og verkgreinarými ásamt fjórum litlum sérkennslurýmum. Í bréfi Maríönnu kemur einnig fram að tveimur salernum sem ætluð eru fyrir fatlaða hafi verið breytt í sérkennslurými.

Þröngt á mið- og unglingastigi

Maríanna bendir á í erindi sínu til bæjarins að á mið- og unglingastigi sé þröngt í kennslurýmum, stórir námshópar, lítið andrými og tækifæri til að vinna að skapandi starfi, nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir og bjóða upp á nám við hæfi hvers og eins nemanda. Þetta eigi sérstaklega við þegar horft sé til vinnuaðstöðu fyrir nemendur, kennara og starfsfólk.

Þá sé aðstaða fyrir frístund fremur lítil og takmörkuð þar sem frístundastarf í 1.-4. bekk fari fram í opnu rými á gangi framan við kennslurými sem sé lítið fyrir allt að 100 börn sem eru í frístund á hverjum tíma þegar mest er fyrri hluta dags. Með þessum fjölda barna sé hljóðvist ekki góð og árekstrar verði á milli barna. Frístundastarf á mið- og unglingastigi fari einnig fram á opnu svæði, en myndi henta vel að hafa lausa kennslustofu til afnota fyrir klúbbastarf á miðstigi, fyrir nemendur með sérsniðna stundaskrá og til að hægt sé að starfrækja klúbbastarf/félagsstarf sem uppbrot á skólatíma.

„Með lausum kennslustofum væri hægt að bæta aðstöðu til náms, kennslu og frístundastarfs til muna og gera okkur kleift að mæta þörfum ólíkra nemenda með fjölbreyttari hætti,“ segir Maríanna í erindinu til fræðslu- og lýðheilsuráðs.

Þörfin ekki minnkandi á næstu árum

Aðspurð um hve lengi hún sér fyrir sér þörfina á þessum aukastofum kveðst Maríanna ekki sjá fyrir sér fækkun nemenda að neinu ráði næstu skólaár. Hún segir árganga fjölmenna alveg niður í 3. bekk og það hafi ekki teljandi áhrif á þessa þörf þó svo það slæðist einn og einn árgangur inn á milli með í kringum 40-45 nemendur. „Spá varðandi nemendur í verðandi 1. bekk næstu tvö árin er rétt undir 50 nemendur í árgangi. Það þýðir að við sjáum ekki fyrir að það verði fækkun á nemendum næstu árin,“ segir Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla.

Fjöldi íbúa á Akureyri eftir árgöngum samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands er á bilinu 210-310, en fjölmennustu árgangarnir eru 2011 með 310 íbúa og 2013 með 307 íbúa.

Sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs og formanni ráðsins hefur verið falið að ræða við skólastjóra Lundarskóla um framhald málsins.