Fara í efni
Fréttir

Vill vitundarvakningu um jákvæð áhrif lesturs

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri vill að sett verði af stað átaksverkefni með það að markmiði að skapa vitundarvakningu meðal foreldra um jákvæð áhrif lesturs fyrir málþroska barna og læsi. Einnig til að vekja foreldra til umhugsunar um mikilvægi þess að við þeir gefi sér góða stund á hverjum degi til að tala við börnin.

„Þannig byggjum við upp góðan orðaforða, leggjum grunninn að læsi og aukum líkur á farsælu námi,“ segir í tillögu Gunnars Más sem tekin verður fyrir á fundi bæjarstjórnar í dag.

Hvenær verður vandi að krísu?

Gunnar Már er MA í íslenskum fræðum. Akureyri.net birti í gær eftirtektarverða grein hans um stöðu íslenskunnar og lestrarmenningu, þar sem hann segir meðal annars: 

Hvenær verður vandi að krísu? Að íslensk leikskólabörn séu æ oftar farin að spjalla sín á milli á ensku, telja á ensku, þekkja litina á ensku: Vandi eða krísa? Að nærri helmingur drengja geti ekki lesið sér til gagns: Vandi eða krísa? Að Ísland sé neðst Norðurlanda þegar kemur að lesskilningi nemenda, og að staðan sé sú að fá þátttökuríki PISA hafi lækkað jafnmikið frá síðustu aldamótum: Vandi eða krísa?

Tillaga Gunnars Más sem tekin verður fyrir á fundi bæjarstjórnar í dag er svohljóðandi:

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkir að sett verði af stað átaksverkefni um hlutverk heimilanna þegar kemur að málþroska og læsi barna. Markmið átaksins er að skapa vitundarvakningu meðal foreldra um jákvæð áhrif lesturs fyrir málþroska barna og læsi. Einnig að vekja foreldra til umhugsunar um mikilvægi þess að við gefum okkur góða stund á hverjum degi og tölum við börnin okkar. Þannig byggjum við upp góðan orðaforða, leggjum grunninn að læsi og aukum líkur á farsælu námi.

Markmiðum verkefnisins er hægt að ná með fjölbreyttum leiðum, s.s með skemmtilegum og áhugaverðum viðburðum fyrir alla fjölskylduna, með því að bæta bókakost í skólum, eða með því að miðla hugleiðingum og annarri fræðslu til foreldra. Til þess að tryggja árangur verður óskað eftir tilnefningum í ráðgjafahóp, sem fær það hlutverk að útbúa tillögur að dagskrá, kynningarstarfi og/eða öðrum leiðum og leggja fyrir bæjarráð til samþykktar.

Nálgast ætti eftirfarandi aðila til mögulegs samstarfs: Amtsbókasafnið á Akureyri, Fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar, Menningarfélag Akureyrar, Miðstöð skólaþróunar við HA, Samtaka - foreldrafélög grunnskóla Akureyrar, Netvís, og Rithöfundasamband Íslands. Ráðgjahópurinn verður einnig hvattur til að virkja fyrirtæki, félög, samtök og stofnanir til þátttöku og stuðnings, t.d. með fjárframlögum eða annarri aðstoð.

Þjónustu- og menningarsviði verður falið að styðja við vinnu ráðgjafahópsins og fylgja eftir framkvæmd og stefnu verkefnsins. Lagt er til að veitt verði heimild sem nemur 6,5 m.kr. og er það framlag Akureyrarbæjar til verkefnisins.