Fara í efni
Fréttir

Háskólinn: Veruleg röskun vegna myglu

Það er allt á tjá og tundri á Borgum vegna framkvæmda. Þessi mynd er tekin á 6. hæð hússins.

Framkvæmdir vegna myglu- og rakavandamála á Borgum hafa sett mark sitt á skólastarf Háskólans á Akureyri í haust. Starfsfólk er orðið þreytt á ástandinu að sögn rektors, en lagt hefur verið kapp á að ástandið bitni ekki á nemendum.

Frá því í vor hefur mygluvandi á Borgum valdið verulegum röskunum á starfsemi háskólans. Hluti starfsfólks hefur þurft að færa sig um set eða vinna heima og margir hafa unnið við ótryggar aðstæður. „Við erum búin að vera á flandri frá því í maí, nýtt þá aðstöðu sem við eigum og leigt skrifstofur annars staðar í bænum,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA, í samtali við Akureyri.net.

 

Skrifstofa rektors stendur tóm á Borgum. Rektor hefur eins og aðrir starfsmenn háskólans sem hafa aðstöðu á Borgum þurft að fara úr húsnæðinu vegna framkvæmda. Framkvæmdum átti að vera lokið í september en dragast fram í nóvember. 

Starfsfólk orðið þreytt á ástandinu

Eins og Akureyri.net sagði frá í gær kom í ljós í vor að ráðast þyrfti í meiri framkvæmdir á Borgum en upphaflega var gert ráð fyrir þegar mygluvandamál kom fyrst upp í húsinu vorið 2024. „Þetta hefur sett svip sinn á allt starf skólans. Starfsfólk er orðið mjög þreytt og það er eðlilegt. Fólk veit ekki hvar það verður næst eða hvenær það kemst aftur í eðlilegt vinnurými,“ segir Áslaug. Sjálf hefur hún unnið á mismunandi skrifstofum hingað og þangað á háskólasvæðinu þar sem laust er hverju sinni, eftir að gangurinn, sem venjulega hýsir skrifstofu rektors,  var tæmdur. Segir hún það hafa verið „geggjaðan lúxus“ að vera í sömu skrifstofu þrjár vikur í röð í sumar, sem undirstrikar hversu óstöðugt ástandið hefur verið.

Að sögn Áslaugar hafa Auðlindadeildin og Viðskiptadeildin, sem eru með aðstöðu á annarri hæð Borga, orðið fyrir hvað mestum áhrifum vegna framkvæmdanna. Þá hefur þurft að flytja starfsemi tilraunastofa á fjórðu hæð tímabundið annað. Áslaug segir að við flutning á tilraunastofunum hafi verið lögð áhersla á að tryggja að fjarnemendur hafi aðgang að því sem þeir þurfa þegar þeir koma í lotur og að staðarnemar geti sinnt sínu námi og tilraunum án truflana, en HA hefur lagt sig fram við að finna lausnir svo nemendur finni sem minnst fyrir ástandinu. Það hefur að hennar sögn verið töluverð áskorun.

Við ætlum ekki að neyða neinn til baka ef hann treystir húsnæðinu ekki. Traust starfsfólks er lykilatriði eftir að þetta kom upp aftur í mars, þrátt fyrir að hafa áður verið talið úr sögunni


Húsgögn, dót og drasl er um alla ganga byggingarinnar. Skrifstofur eru tómar og varla fólk á ferli þar. 

Full húsaleiga þrátt fyrir framkvæmdir

Háskólinn leigir húsnæðið á Borgum af FSRE, Fasteignasýslu ríkisins, sem aftur leigir af fasteignafélaginu Reitum. Að sögn Áslaugar hafa boðleiðir á milli þessara aðila reynst erfiðar og oft erfitt að fá skýrar upplýsingar um framkvæmdaferlið. „En það hefur þó batnað að einhverju leyti,“ segir hún.

Þrátt fyrir að stór hluti húsnæðisins hafi verið ónothæfur á framkvæmdatímanum heldur háskólinn þó áfram að greiða fulla leigu. Áslaug segir að það sé ósanngjarnt þar sem skólinn sé að greiða fyrir þjónustu sem hann fái ekki. Hún segir starfsfólk háskólans hafa sýnt mikla þolinmæði vegna ástandsins en nú sé þreytan orðin áberandi. „Við eigum rétt á heilbrigðu og huggulegu húsnæði eins og aðrir skólar. Þetta er ekki skemmtilegt ástand og það hefur staðið of lengi.“


Svona er umhorfs í innganginum á Borgum. Þar er vont loft, ryk og allskonar dót.  

Neyðum engan til baka

Samkvæmt upplýsingum frá Reitum á framkvæmdum á Borgum að ljúka í nóvember en Áslaug segir starfsfólk vera efins eftir endurtekin vonbrigði. Einhverjir starfsmenn skólans treysti sér hreinlega ekki til að flytja aftur inn á skrifstofur sínar þegar framkvæmdum ljúki af ótta við myglu. „Við ætlum ekki að neyða neinn til baka ef hann treystir húsnæðinu ekki. Traust starfsfólks er lykilatriði eftir að þetta kom upp aftur í mars, þrátt fyrir að hafa áður verið talið úr sögunni,“ segir Áslaug. Hún bætir við að einhverjar stofnanir sem leigja aðstöðu í Borgum hafi þegar ákveðið að hverfa á brott þegar leigusamningi lýkur. Háskólinn sjálfur sé hins vegar með óuppsegjanlegan leigusamning og sé í annarri stöðu. „Við höfum lengi barist fyrir því að starfsemi skólans sé á einum stað. Það er ekki raunhæft að flytja hana víðar um bæinn,“ segir hún að lokum.

 

Háskólinn á Akureyri er stærsti leigutakinn á Borgum. Áslaug, rektor skólans, segir að skólinn greiði fulla leigu fyrir húsnæðið þrátt fyrir framkvæmdirnar sem nú eru í gangi á Borgum og húsnæðið ónothæft á meðan.