Af hverju getum við ekki lifað án húmors?
Hvað er húmor? Hvaða hlutverki gegnir hann? Af hverju getum við ekki lifað án hans? Af hverju hlær fólk að röngum hlutum brandara minna?
Þannig spyr Giorgio Baruchello, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, sem hefur í mörg ár rannsakað hvernig húmor hefur áhrif á líf fólks og hvaða hlutverki hann gegnir. Í tilefni útgáfu nýrrar bókaseríu eftir Giorgio hjá Northwest Passage Books í Kanada býður hann til viðburðar á Amtsbókasafninu á Akureyri í dag þar sem alþjóðlegur hópur fræðimanna, listamanna og grínista kemur saman.
- Húmor og menning – Amtsbókasafnið á Akureyri í dag kl. 16.00 - 18.00. Viðburðurinn er öllum opinn.
Meðal þátttakenda og flytjenda verða Andrew Loman (Memorial University of Newfoundland), Brendan Myers (CEGEP Heritage College), Ívar Helgason, Mikael M. Karlsson (Háskóli Íslands), Nanna Ýr Árnadóttir (Háskólinn á Akureyri), Nikola Tutek (University of Rijeka) og Villi Vandræðaskáld.
„Erindi, uppistand og opin umræða fyrir almenning munu fara fram í afslöppuðu og vel veittu andrúmslofti: Höfum gaman saman!“ segir í tilkynningunni.
Húmorinn er víða
Giorgio hefur gefið út fjölda bóka, tekið þátt í ráðstefnum og er einnig virkur þátttakandi í fræðasamfélaginu, bæði innanlands og utan, að því er fram kemur á vef Háskólans á Akureyri. „Þessi störf leiddu hann alla leið til Sikileyjar í ágúst. Þar var Giorgio ásamt Rachael Lorna Johnstone, prófessor við Lagadeild og Magnúsi Smára Smárasyni, verkefnastjóra gervigreindar og var tilgangurinn að sækja ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Kort framtíðarinnar“. Þar fjölluðu þau um meðal annars um húmor og gervigreind ásamt því að taka þátt í umræðum.“

Giorgio, Magnús Smári og Rachael í grísku kirkjunni Palazzo Adriano. Rachael flytur sitt erindi á ráðstefnunni.
„Það er mikilvægt að við hjá háskólanum tökum virkan þátt í fræðasamfélagi erlendis og eru svona ráðstefnur mikilvægur þáttur í því. Þátttaka okkar í þeim viðburði varð til þess að rætt var við mig um mín störf við háskólann og ráðstefnuna á aðal sjónvarpsstöð míns heimahéraðs á Ítalíu, Lígúría, og þar eru íbúar um 1,5 milljón talsins,“ segir Giorgio aðspurður um mikilvægi þátttöku sem þessarar.
Giorgio hlakkar til viðburðarins á Amtsbókasafninu í dag, hann segir bókaröðina sameina Ísland og Kanada og hluti þátttakenda komi einmitt alla leið vestan frá Kanada.
„Þá verður gaman og gagnlegt að bjóða samfélaginu hér á opna viðburðinn sem í þetta skiptið er haldinn í samstarfi við Amtsbóksafnið. Það verður vonandi gott veður eins og er náttúrulega alltaf á Akureyri og þá er upplagt fyrir fólk að rölta niður í bæ, heimsækja okkur, fá sér kaffi og taka þátt í spjallinu,“ segir Giorgio sem mun meðal annars velta því upp af hverju fólk hlær að röngum hlutum brandara hans!