Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu

ORRABLÓT - XXXIX
„Humm, þetta er ekki eins og það á að vera,“ sagði læknirinn, grafalvarlegur í bragði og fjarlægði hlustunarpípuna af brjóstinu á mér. Því næst veiddi hann miða upp úr vasanum, hripaði eitthvað á hann og rétti mér. „Þú skalt fara með þetta til heimilislæknisins þíns strax á mánudagsmorguninn. Það þolir enga bið.“
Ég stóð sem lamaður þarna á gólfinu. „Þolir enga bið!“ ómaði í höfðinu á mér. Ekki batnaði líðan mín við að lesa það sem stóð á miðanum: „Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu.“
Hvað þýðir það eiginlega? Ég hafði hvorki heyrt né séð þetta orð áður. Og raunar ekki síðan. Fletti því upp í orðabókinni hans Árna Bö, sem Sighvatur frændi hafði gefið mér í fermingargjöf, en greip í tómt. En þetta gat ekki verið gott! Hjartað að gefa sig. Er þetta þá bara að verða búið hjá mér?
Það var ákveðinn skellur, ekki síst í ljósi þess að ég var ekki nema 14 ára.
Ég klæddi mig aftur og gekk í leiðslu inn í kennslustundina í Glerárskóla sem ég hafði verið kallaður út úr til að gangast undir rútínulæknisskoðun í afdrepi skólahjúkkunnar. Læknirinn kom utan úr bæ. Man ekki hver hann var enda er þetta allt meira og minna í móðu. Allt sem sagt var í skólanum eftir þetta þennan dag fór út um annað og inn um hitt. Ég meina, inn um annað og út um hitt. Þið afsakið, ég var alveg utangátta.
Eftir að ég kom heim sat ég bara drykklanga stund og starði út í loftið. Hugsaði um allt sem ég átti eftir ógert í þessu lífi. Ekkert yrði af því.
Er leið á daginn náði ég aðeins vopnum mínum. Úr því þetta væri að verða búið þá myndi ég alla vega nýta þann litla tíma sem ég ætti eftir vel. Og hvað gera menn þá? Jú, skella sér á dansiball í Dynheimum. Það var jú föstudagur.
Ég hringdi í vin minn og nágranna í Smárahlíðinni, Hjalta S. Hjaltason, og hann var klár í bátana. Hann var alltaf til í að fara í Dynheima, sem er merkilegt í ljósi þess að hann var með öllu ófáanlegur til að dansa. En það mátti svo sem gera sitthvað annað þarna, hlusta á músíkina, fylgjast með fólkinu eða bara sitja í sófunum við hliðina á dansgólfinu og spjalla. Það var aldrei dauð stund í Dynheimum.
Í minningunni röltum við alltaf í bæinn á föstudagskvöldum, gekk strætó nokkuð eftir kvöldmat? Eins og að var stefnt hresstist ég aðeins við komuna í Dynheima enda dúndrandi stuð á staðnum. Og gleymdi örlögum mínum um stund. Ég lét þó dansinn alveg eiga sig enda kunni ég ekki við að hrökkva upp af þarna á miðju gólfinu. Ég lagði smæstu atriði á minnið enda afar ólíklegt að ég ætti eftir að koma aftur í Dynheima. Á heimleiðinni andaði ég djúpt að mér haustfrostinu, meðan ég ennþá gat.
Helgin var löng og erfið. Ég átti vont með að einbeita mér að ensku knattspyrnunni og Húsinu á sléttunni. Það var ekkert til sem hét áfallahjálp á þessum tíma, þannig að maður varð bara að bíta á jaxlinn. Mamma og pabbi reyndu að stappa í mig stálinu, þetta þyrfti nú alls ekki að vera svo alvarlegt. Ég starði á þau í forundran og veifaði miðanum frá doksa. „Hér stendur þetta, svart á hvítu!“
Við pabbi vorum mættir við fyrsta hanagal á mánudeginum á heilsugæslustöðina í Hafnarstrætinu, þar sem heimilislæknirinn okkar, Reynir Valdimarsson, tók á móti okkur. Afskaplega ljúfur maður og traustvekjandi. Ég rétti honum miðann.
„Látum okkur sjá,“ sagði Reynir með hægð og las upphátt það sem stóð á blaðinu. „Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu. Hvur þremillinn. Þetta hljómar hræðilega!“
Hafi ég enn alið einhverja agnarlitla von í brjósti um að ég kæmi til með að lifa þennan skell af fauk hún á augabragði út um gluggann þarna.
Reynir byrjaði á því að hlusta mig og jú, jú, auðvitað var helvítis óhljóðið þarna ennþá. Bassadrunurnar í Dynheimum höfðu ekki hrakið það á brott. Mig minnir að Reynir hafi dregið úr mér blóð áður en hann leiddi mig yfir ganginn í aðra stofu. Þar var ég lagður á bekk og stungið í samband við hjartalínuritstæki sem taka átti rit af hjartslætti mínum. Ég var allur í leiðslum. Þetta var þó sársaukalaust og tók ekki langa stund.
Að því búnu vísaði Reynir mér fram í biðstofu, þangað til niðurstöður úr rannsókninni lægju fyrir. Hann var grunsamlega rólegur yfir þessu öllu saman. Ég man ekki hvað biðin var löng en í minningunni var það heil eilífð. Ég sat þarna eins og dæmdur maður á stól og beið eftir því að Reynir gæfi út dánarvottorðið.
Loks birtist hann í gættinni og gaf mér merki um að koma. Ég staulaðist inn á stofuna til hans. „Jæja, þetta kom allt vel út,“ sagði Reynir, stutt og laggott.
„Vel út,“ stamaði ég. „Hvað áttu við?“
Þýddi það að ég myndi kveðja með hraði og án sársauka en ekki hljóta hægt og kvalafullt andlát?
„Það sem ég á við er að það er amar ekkert alvarlegt að þér. Blóðið er fínt og hjartalínuritið eins og það á að vera. Þú ert við hestaheilsu. Svona aukahljóð eru mjög algeng, ekki síst hjá ungu fólki eins og þér. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það kemur bara til með að hverfa.“
Ég starði bara á Reyni og kom ekki upp orði.
Hann brosti góðlátlega á móti. „Ekki hafðirðu áhyggjur af þessu?“
Ha? Nei, nei. Ekki þannig.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.


Tók stigann í ólöglega fáum stökkum

Hvað ertu með um hálsinn, drengur?

Kobbi er greinilega kona!

Féll af kústhestbaki
