Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Skautun

Fræðsla til forvarna - XXX

Árnastofnun skilgreinir skautun (e. Social polarization) sem skiptingu samfélagsins (eða hóps) í tvær fylkingar sem aðhyllast algjörlega andstæð sjónarmið eða gildi.

Skautun myndast eða er mest áberandi þar sem skoðanaskipti fara fram sem hafa áhrif á lífsgæði og hagsmuni fólks. Þetta gerist í umræðu um stjórnmál eða víðtæka hagsmuni eins og nýtingu auðlinda eða hugsjónamál líkt og umhverfisvernd eða flókin tilfinningamál svo sem flóttamannahjálp.
 
Í skautun verður ekki bara grasið grænna hinum megin heldur víkur uppbyggileg gagnrýni fyrir ásökunum. Samræður fyrir deilum. Samkennd fyrir sundurlyndi. Samvinna fyrir stríði. Við slíkar aðstæður fara falsfréttir á kreik og lýðskrumarar blómstra. Ofurskautun í samfélaginu hefur slæm áhrif á lýðræðisleg vinnubrögð og veldur klofningi og stríðandi fylkingum.
 
Skoðanir hóps geta þá magnast svo mikið að þær verði sterkari en skoðun einstaklinganna í hópnum. Ákvörðun eða umræða hópsins gengur þá lengra en ákvörðun einstaklingsins.
 
Kenningar um orsakir félagslegrar skautunnar fjalla um misskiptingu lífsgæða, áróður og ofursterka stefnu í stjórnmálum eða þeim þjóðfélagsmálum sem skipta okkur mestu máli.
 
Komin er aukin fjarlægð í samskipti og orðræða og hegðun á netinu er ýktari og oft grófari en í samskiptum augliti til auglitis. Dulstýring (e. Algorythmi) alnetsins er talin hafa áhrif á hvernig fólk með svipaðar, oft sterkar skoðanir, skipar sér í sveit saman.
 
Auðvitað veldur skautun andlegri vanlíðan, neikvæðum tilfinningum og einmanaleika og hefur þannig umtalsverð áhrif á geðheilsu. Skautun ýtir líka undir hörku í samskiptum, jafnvel ofbeldi.
 
Félagsleg skautun er andstæða samvinnu og samstöðu og því er það hagur okkar allra að varast hana með öllum tiltækum ráðum. Verum vakandi, beitum heilbrigðri skynsemi, lærum betur að setja mörk, virða skoðanir hvers annars og að meta gildi og réttmæti upplýsinga.
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Þannig týnist tíminn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. desember 2025 | kl. 10:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00

Einmanaleiki

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. nóvember 2025 | kl. 06:00

Frystiklefafælni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. nóvember 2025 | kl. 06:00

Tár

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
28. október 2025 | kl. 11:00

Illkynja geðsjúkdómar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. október 2025 | kl. 13:30