Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Heilbrigt vantraust

Stjórnstöðvar djúpheilans, kjarnar og tilfinningabrautir og minnissvæðin í heilaberkinum vinna saman til að búa til viðbrögð gegn hugsanlegri ógn. Þessi starfssemi er á mörkum þess meðvitaða og ómeðvitaða og við upplifum hana sem tilfinningar, allt frá ótta til öryggiskenndar. Þetta er flókið og orkufrekt ferli, fínstillt og mótað frá fyrstu dögum okkar á jörðinni, grundvöllur samskipta og lífs. Við komumst ekki af ef við treystum öllum og að sama skapi er erfitt að finna hamingjuna, já eða stunda viðskipti ef við vantreystum öllum alltaf.
 
Strax við móðurbarminn og í vöggunni fáum við fyrstu kennslustundir um traust og svo í systkinahópnum, skólanum og síðar gengjunum sem við komum til með að ganga í, klúbbar eða klíkur. Og hjónabandið. Samfélagsgerðin og aðstæðurnar sem við ölumst upp í hafa mikil mótandi áhrif, stjórnmálastefnur, stríð og friður. Ógnin getur verið í samskiptum og í næsta nágrenni eða í fjarlægu landi. Ótti kaldra stríða, hungurs og misígrundaðra stjórnmála, græðgi, yfirgangs og valdabrölts.
 
Traust er ein megin tilfinning og lífsnauðsynlegur ofurkraftur mannskepnunnar sem við verðum að læra að nota rétt en er oft erfitt. Margt getur farið úrskeiðis sem veldur því að matsferlið virkar ekki rétt eða viðbrögðin verða of sterk og við lifum í ótta, erum of fljót í stríð. Þeir sem fæðast og lifa í flóttamannabúðum búa við slíka fötlun. Þeir sem alast upp án þess að fá reynslu af heilbrigðu trausti, læra aldrei að treysta sem oftast leiðir til þess að þeir koðna niður í vanmáttarkennd á sjálfan sig og ótta eða geta ekki treyst öðrum, eru sífellt á varðbergi, vita allt best sjálfir. Við þekkjum flestöll hvað gerist ef traustið fer í nánu samskiptunum, hve óvænt og sársaukafullt það alltaf er og hve erfitt getur verið að vinna úr þeim aðstæðum og þeirri nýju mynd eða jafnvel sýn á lífið sem birtist.
 
Ég ætla að vera svo djarfur að biðja þig að hugleiða í nokkra daga hvernig þú vinnur með traust. Hvort þú sért traust manneskja. Hvernig þér gangi að byggja upp traust í samskiptum og hvernig þú takist á við aðstæður þar sem er skortur á trausti eða hreinlega er ekki hægt að treysta.
 
Gangi þér vel.
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Heilbrigðishagfræði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. apríl 2025 | kl. 08:45

Tengslaröskun geðlæknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:45

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Endalok Janus endurhæfingar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. mars 2025 | kl. 06:00

Vanrækt og gleymt horn geðheilbrigðisþjónustunnar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
18. mars 2025 | kl. 12:00

Afbrot og geðheilsa

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. febrúar 2025 | kl. 15:30