Fara í efni
Kristín Aðalsteinsdóttir

Krísuvík

„Kristín, viltu vera svo væn að skrifa fyrir mig pistil aðra hverja viku, hugleiðingar um nánast hvað sem er,“ spurði Skapti. Ég sagði að það væri alveg sjálfsagt, en áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki bara einfalt mál. Átti ég að skrifa um fólk, um stjórnmál, bæjarmál eða einfaldlega um ýmsa upplifun í mínu eigin lífi, í lífi konu sem er nærri áttræðu. Ég hef valið seinasta kostinn.

Ég var nýlega orðin 15 ára þegar Yuri Gagarin átti leið um Keflavíkurflugvöll í júlí 1961. En einmitt um morguninn þennan sama dag var ég stödd hjá frændfólki mínu á Hagamel í Reykjavík. Ég hafði verið að passa börn norskra hjóna kvöldið áður og hafði gist hjá frændfólkinu mínu. Mín eina tekjulind á þessum árum að passa börn starfsmanna norska sendiráðsins annað slagið, sem ég gerði.

Þegar ég var svo að leggja af stað frá Hagamelnum, heim í Kópavog vatt sér að mér nágranni frændfólks míns á Hagamelnum, vel metinn maður í Reykjavík á þessum árum. Ég var honum málkunnug. Þarna sagðist hann vera að fara suður á Keflavíkurflugvöll því almenningi væri boðið að taka í hendina á honum Yuri Gagarin og spurði hvort hann mætti ekki bjóða mér með sér.

Ég þurfti ekki að hugsa mig um, ég vildi ekki missa af því tækifæri að sjá Yuri Gagarin, geimfarann, sem var fyrsta mannveran til að fara út í geiminn, í geimferð sem tók 108 mínútur og gerði hann heimsfrægan og að mikilli hetju innan Sovétríkjanna. Mjög spennandi tilhugsun.

Ég man auðvitað ekki eftir ferðinni suður til Keflavíkur en handtak Yuri Gagarin man ég. Ég man líka að hann var minni en ég, jú hann var bara 1.57 cm., sem sé pínulítill karl. En margur er knár þótt hann sé smár. Það var tvímælalaust áhrifaríkt að sjá Gagarin. Þarna var líka stödd fegurðardrottning Íslands 1961, María Guðmundsdóttir sem færði Gagarin blómvönd. Þá var þetta gert og við lögðum af stað til Reykjavíkur aftur.

Við vorum ekki komin langt þegar maðurinn sem bauð mér í þessa Keflavíkurferð, sagðist ætla að fara Krísuvíkurleiðina heim til Reykjavíkur. Það sagði mér ekki neitt, sú leið var í mínum huga bara einhver önnur leið til Reykjavíkur en vanalega var farinn. En við höfðum ekki keyrt lengi þegar maðurinn stoppaði bílinn þarna í eyðimörkinni, færir sig nær mér og fálmar. Tilfinningunni gleymi ég aldrei, ég var varnarlaus, ofboðslega undrandi en líka fjúkandi reið. Og ég sagði strax, „ef þú snertir mig, þá læt ég segja frá því á forsíðu Morgunblaðsins.“ (ég hafði um tíma borið út Moggann í miðbæ Reykjavíkur og þekkti mig þar). Viðbrögð mannsins voru þau að hann sagði, „Kanntu ekki að kyssa greyið.“ Meira man ég ekki af þessari ferð.

En þegar ég kom heim til mín í Kópavogi var ég áreiðanlega ekki eins og ég átti að mér að vera. Pabbi spurði hvar ég hefði verið. Ég sagði honum að ég hefði farið suður á Keflavíkurflugvöll með nágranna ættingja minna til að sjá Gagarin. Pabbi sagði ekki eitt orð, klæddi sig í frakka, fór vestur í bæ og hélt víst vel valin orð yfir þessum manni.

Miðað við þær árásir og óþægindi og jafnvel ýmiskonar fálm og fum, sem konur verða fyrir, svo ég tali ekki um nauðganir, var þessi reynsla mín áreiðanlega smámunir en nóg til þess að ég get sagt að reynslan var sannarlega verulega óþægileg og gleymist ekki.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Að baka brauð

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
04. júlí 2025 | kl. 06:00

Svipmynd úr bernsku

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. júní 2025 | kl. 06:00

Noregur 1974-1976

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
06. júní 2025 | kl. 06:00

Útvarpið okkar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
23. maí 2025 | kl. 06:00

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Amma Kristín

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
25. apríl 2025 | kl. 06:00