Fara í efni
Jóhann Árelíuz

Uss í görðum

EYRARPÚKINN - 34

Maðurinn með hattinnborgar ekki skattinn

sungum við og splundruðum ljósaperunni á horni Ægisgötu og Eyrarvegs.

Stendur upp við staurinnog á engan aurinn

og líktist Eyrin kolaborg á Bretlandseyjum undir loftárásum Hitlers.

Flengdumst áfram Eyrarpúkar með vírskot í steinaboga og guðsmildi að ekki hlutust stórslys af. Einn fékk ör í auga og missti og fátt sárara í rass og læri en vírskot af stuttu færi. Drullusokkar læddu steinum og vírskotum í snjókúlur og var illa þokkað.

Svo kom Svarta María dólandi og voru málin rædd í bróðerni við hettumáfa. Skítt með ljósleysið, örugglega þorparar á ferð. Hjalað við Palla Rist og Gunna Randvers sem vissu sem var en gátu ekki sannað það og reyndu að koma okkur að óvörum en djúpgrænn Doddsinn seinn til og velþekkt vélarhljóðið. Kannski hafði Hreiðar hringt.

Fórum Eyrina púkar með hnífa og axir í belti og baunarör á haustin en vopnuðumst sverðum og spjótum á fjölmennari samkomum. Einhverjir áttu startbyssur og loftriffli brá fyrir.

Var ég lúnkinn að bauna lúsaberjum á stóru strákana undir verndarvæng Þormóðs og þegar Jón Dan og félagar höfðu í hótunum við Nonna og Júnna við girðinguna Ægisgötumegin kastaði ég mér niður og skaut í andlit Jóns Dans að hætti Ragnars Jónssonar og kom Jóni Dani í opna skjöldu og féllust honum hendur enda spéhræddur á kynþroskastigi.

Septemberkvöldin fylltu hróp og sköll Eyrina en skuggar stukku ussandi um garða í leit að æti og hasar.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Uss í görðum er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Fram á rauðan morgun

Jóhann Árelíuz skrifar
26. október 2025 | kl. 06:00

Rámur kálfur í túnjaðri

Jóhann Árelíuz skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Frumbyggjar Vopnafjarðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. október 2025 | kl. 11:30

Gulrótnastuldurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
28. september 2025 | kl. 06:00

Blómabíllinn, Pissubíllinn

Jóhann Árelíuz skrifar
21. september 2025 | kl. 06:00