Fara í efni
Jóhann Árelíuz

Móðir mín í kví kví

EYRARPÚKINN - 75

Á svörtum ýli þegar söng í snúrum og staurum í Eyrarvegi en rúður Gróðurhússins brugðu tungli á skara sá ég fyrir mér útburðina og höfðu lík áhrif á mig og mynd Ásgríms af tröllskessunni sem guðaði á glugga í Heklugosi að hremma óþæga krakka og var myndin undir gleri stofuskápsins sem geymdi grænu þykku vínstaupin, mintlita mistraða könnu og glösin undir jólaölið.
 
Mér hraus hugur við sögum af hvítvoðungum sem frusu í hel á hjarni því fáir útburðir voru eins heppnir og sveinbarn Oddnýjar í Krossavík sem borið var til skógar í dúk með flikkissneið í munni en bjargað til lífs af Krumm bónda í Krummsholti og óx þar úr grasi Þorsteinn Uxafótur.
 
Mamma viknaði þegar hún sagði mér frá vinnukonunni sem húsbóndinn þungaði og var barnið borið út en stúlkunni síðar boðið til Vikivaka en átti ekki föt fyrir slíka skemmtan og fáraðist yfir því við mjólkun ánna við hina mjaltakonuna en heyrir þá vísu undan kvíaveggnum
 
Móðir mín í kví, kví,
kvíddú ekki því, því;
ég skal ljá þér duluna mína
að dansa í
að dansa í.
 
Ef ég var lengi einn í myrkinu birtist mér hvítvoðungur á eldhúsrýju blánandi upp í sárum ekka, varð svo dumbrauður og blýlitur og bárust veinin langan veg um ísinn en í bænum nístu dauðakvein sakleysingjans hlustir og hjarta hugstola móður og andaði köldu útburðarvælið.
 

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

    • Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Móðir mín í kví kví er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.

Vökustaurar

Jóhann Árelíuz skrifar
18. janúar 2026 | kl. 06:00

Aufúsugestir í Eyrarvegi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. janúar 2026 | kl. 06:00

Þá riðu hetjur um héruð

Jóhann Árelíuz skrifar
04. janúar 2026 | kl. 06:00

Heimsókn Ingólfs frænda 1961

Jóhann Árelíuz skrifar
28. desember 2025 | kl. 06:00

Þúsund ær á fæti

Jóhann Árelíuz skrifar
21. desember 2025 | kl. 06:00

Orustan um Waterloo

Jóhann Árelíuz skrifar
14. desember 2025 | kl. 06:00