Fara í efni
Jóhann Árelíuz

Öskudagurinn

EYRARPÚKINN - 15

Það voru mér gífurleg vonbrigði að verða af fyrsta öskudeginum mínum. Eins og ég hafði æft stíft með Gulla og stelpunum en mamma gat ekki vakið mig af værum blundi og fékk ég brjóstsykur og buff í miskabætur þegar Geibbi og Gulli gerðu upp fenginn undir stjórn Simma.

Þrem árum síðar stöndum við Jói Hreiðars fremstir og minnstir með yfirvaraskegg niðrá Odda og kringum okkur stelpurnar snurfusaðar með skuplur og sjöl en Gulli skoðar tunnukóngsverðlaunin íbygginn og Geibbi er kóngur og kattarkóngur. Simmi stendur álengdar með grímu fyrir andliti og hendur á peningapungi.

Simmi var sjálfskipaður gjaldkeri liðsins og söng ekki enda ólagviss en hreyfði varirnar þegar vel gekk og atti okkur í pústra í miðbænum þegar mörg lið vildu inní sömu búðina.

Við byrjuðum að slá köttinn úr tunnunni klukkan sex og brýndum svo raustina á verkstæðum og fiskihúsum uns búðir opnuðu. Höfðum æft í þaula og stelpurnar sungu eins og englar sumar.

Aðalnúmerið þó þegar Gulli tók Bona Sera Senjorita (may I kiss you tonight) og hermdi aldrei betur eftir Louie Prima en á Litlabar græna hússins í Hafnarstræti og líktist Roy Rogers og Níels á Felli. Náðu engir þeim óði sem Gulli þó ýmsir spreyttu sig á ítölskunni og gildnaði pokinn að sama skapi.

Einsi kaldi úr Eyjunum var uppáhaldslagið mitt og söng ég það sóló með epli í kinnum og sóthýjung af korktappa, klæddur grænni úlpu með kórónu úr bronsgylltum pappa og kylfu í hendi.

Ég heiti Einsi kaldi úr Eyjunumég er inn undir hjá meyjunumþví allar vildu þær eignast mannog maðurinn ég var hann

Eftir hádegi var skylmast niðrí hjöllum og um borð í Gulltoppi.

Svo fóru stóru krakkarnir á öskudagsball en ég hreiðraði um mig á rauða beddanum með höfðalaginu háa með brenndan brjóstsykur og klesst Lindubuff.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Öskudagurinn í er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Fram á rauðan morgun

Jóhann Árelíuz skrifar
26. október 2025 | kl. 06:00

Rámur kálfur í túnjaðri

Jóhann Árelíuz skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Frumbyggjar Vopnafjarðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. október 2025 | kl. 11:30

Gulrótnastuldurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
28. september 2025 | kl. 06:00

Blómabíllinn, Pissubíllinn

Jóhann Árelíuz skrifar
21. september 2025 | kl. 06:00