Fara í efni
Flugsafn Íslands

Kvennaverkfall og fundur á Ráðhústorgi

Frá fundi á Ráðhústorgi á Kvennafrídaginn 2023. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Baráttu- og samstöðufundur verður á Ráðhústorginu á Akureyri í dag, á kvennafrídegi. Fundurinn hefst kl. 11.15 og stendur til 12.00. Í dag eru 50 ár frá þeim sögulega degi þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að undirstrika mikilvægi vinnuframlags kvenna og krefjast raunverulegs jafnréttis. Kvennaverkfallið og útifundurinn í miðbæ Reykjavíkur 24. október 1975 vöktu heimsathygli.

Konur og kvár eru hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

„Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur“

„Jafnrétti ekki í augsýn. Tilkynningum um kynbundið ofbeldi fjölgar, launamunur kynjanna eykst og það er misrétti í verkaskiptingu á heimilum,“ segir í tilkynningunni. „Því blásum við, á sjötta tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og hreyfinga launafólks til Kvennaverkfalls á ný.

Við tökum því höndum saman 24. október til að heiðra og fá innblástur frá baráttukonunum sem á undan okkur komu og til að krefjast raunverulegra breytinga til að uppræta kynbundið ofbeldi, launamun kynjanna og misrétti. Við ætlum að breyta samfélaginu saman. Fyrir okkur, fyrir konur og kvár, fyrir framtíðina.

Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur.“

Fundurinn á Facebook

Tilkynning aðstandenda Kvennaárs 2025 er svohljóðandi í heild:


Föstudaginn 24. október 2025, eru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.

Kvennaverkfall 2023 gerði kröfur um breytingar sem framkvæmdastjórn Kvennaárs setti fram í formi aðgerða sem grípa þarf til, afhenti stjórnvöldum og gaf þeim eitt ár, til 24. október 2025 til að hrinda í framkvæmd. Í kröfugerðinni er farið fram á lagabreytingar, aðgerðir gegn ofbeldi, launamuni kynjanna, til að bæta stöðu mæðra og að útrýma mismunun á vinnumarkaði. Nú er komið að skuldadögum en mælaborð framkvæmdastjórnar sýnir að að lítið hefur gerst í þeim málum.

Jafnrétti ekki í augsýn. Tilkynningum um kynbundið ofbeldi fjölgar, launamunur kynjanna eykst og það er misrétti í verkaskiptingu á heimilum. Því blásum við, á sjötta tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og hreyfinga launafólks til Kvennaverkfalls á ný.

Við tökum því höndum saman 24. október til að heiðra og fá innblástur frá baráttukonunum sem á undan okkur komu og til að krefjast raunverulegra breytinga til að uppræta kynbundið ofbeldi, launamun kynjanna og misrétti. Við ætlum að breyta samfélaginu saman. Fyrir okkur, fyrir konur og kvár, fyrir framtíðina.

Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur.

Konur og kvár sem geta, leggja niður launuð sem ólaunuð störf, mæta ekki til vinnu, annast ekki börnin eða fjölskyldumeðlimi heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlim til að standa vaktina. Sleppa öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu

Við segjum konum og kvárum í kringum okkur frá því hvað stendur til og hvetjum þau til að taka þátt – sérstaklega þau sem eru af erlendum uppruna. Við tryggjum að pabbar, afar, bræður og frændur standi barna- og heimilisvaktina og sýni þannig stuðning í verki með konum og kvárum. Við hvetjum atvinnurekendur til að sýna starfsfólki þann stuðning í verki að gera konum og kvárum kleift að taka þátt í Kvennaverkfalli.

Konur og kvár í Kvennaverkfall þann 24. október á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni safnast saman í baráttuhug við Sóleyjargötu 1 þar sem söguganga hefst kl. 13:30 og þá hefst útifundur um kl. 15. Boðað hefur verið til og í smíðum eru fjöldi viðburða á deginum sjálfum og í aðdraganda hans um allt land. Frekari upplýsingar birtast jafnóðum á kvennaar.is. Þau sem ekki geta tekið þátt þar sem þau sinna ómissandi störfum eru hvött til að deila myndum af sér og samstarfsfólki á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #kvennaverkfall og #ómissandi.

Baráttukveðjur,

aðstandendur Kvennaárs 2025