50 ár frá sögulegum fundi bæjarstjórnar
Í dag eru 50 ár frá því sögulegur Kvennafrídagur var haldinn hér á landi, eins og akureyri.net fjallar um annars staðar. Þann dag lögðu um 90% íslenskra kvenna niður vinnu og haldinn var útifundur á Lækjartorgi í Reykjavík þar sem talið var að 20-25 þúsund manns væru saman komin, og vakti heimsathygli. Vert er að rifja upp að sögulegur fundur var haldinn í bæjarstjórn Akureyrar í sama mánuði. Þá settist kona í fyrsta skipti í stól forseta bæjarstjórnar í höfuðstað Norðurlands.
Það var þriðjudaginn 7. október 1975 sem Soffía Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins og 2. varaforseti bæjarstjórnar, settist í forsetastólinn fyrst kvenna.
Tímamótin vöktu ekki sérlega mikla athygli en þó var þeirra getið í tveimur Akureyrarblöðum; Dagur, sem kom út einu sinni í viku, sagði frá rúmri viku eftir fundinn, miðvikudaginn 15. október, í þættinum Smátt & Stórt á baksíðu og frétt um Soffíu birtist síðan á forsíðu Alþýðumannsins 22. október og með fylgdi mynd sem Páll A. Pálsson ljósmyndari tók á fundinum.
... OG VARÐ EKKI AÐ FUNDIÐ
Klausan í Smáu & Stóru í Degi er svohljóðandi: „Á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar var forseti hennar, Valur Arnþórsson, og fyrsti varaforseti, Ingólfur Árnason, fjarverandi. Kom því í hlut annars varaforseta, Soffíu Guðmundsdóttur, að stjórna fundinum. Mun það í fyrsta sinn hér á Akureyri, að kona stjórnar heilum bæjarstjórnarfundi - og varð ekki að fundið. Fer vel á þessu á kvennaári og í þeim sama mánuði, sem konur vekja athygli á margvíslegum störfum sínum með sérstökum hætti hinn 24.“

- Soffía Guðmundsdóttir sat í bæjarstjórn Akureyrar fyrir Alþýðubandalagið frá 1970 til 1982 og var varaþingmaður í Norðurlandskjördæmi eystra fyrir sama flokk frá 1974 til 1982.
- Soffía er eftirminnileg kona. Hún starfaði sem píanókennari, fyrst í liðlega þrjá áratugi við Tónlistarskólann á Akureyri, frá 1954 til 1986.
- Soffía og eiginmaður hennar fluttu til Reykjavíkur 1986. Eftir það kenndi hún við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Söngskólann í Reykjavík, Tónlistarskóla íslenska Suzukisambandsins og Tónmenntaskóla Reykjavíkur.
- Eiginmaður Soffíu var Jón Hafsteinn Jónsson sem margir muna einnig eftir. Hann var stærðfræðikennari við Menntaskólann á Akureyri í áratugi, frá 1953 til 1986, og kenndi síðan við Verzlunarskóla Íslands eftir að þau hjón fluttu suður.
- Neyðarbíllinn tekinn í notkun, er fyrirsögn á baksíðu Dags að ofan og til gamans má geta þess að Soffía kom við sögu þegar bíllinn, sem Blaðamannafélag Íslands og Rauðakrossdeild Akureyrar höfðu safnað fyrir, var formlega afhentur Akureyrarbæ. Soffía var um þær mundir formaður Félagsmálaráðs Akureyrar og hélt ávarp við þetta tækifæri.
„... HYLLTU FRÚ SOFFÍU MEÐ LÓFAKLAPPI“
Eftirfarandi frétt um bæjarstjórnarfundinn sögulega birtist í Akureyrarblaðinu Alþýðumanninum 22. október 1975:
„Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 7. október sl. skeði það, að kona sat í forsetastóli í fyrsta skipti. Var það Soffía Guðmundsdóttir 2. varaforseti bæjarstjórnar, sem stjórnaði fundinum í fjarveru forseta. Bæjarfulltrúum fannst fara vel á þessu á kvenréttindaári og risu úr sætum og hylltu frú Soffíu með lófaklappi.“

Soffía Guðmundsdóttir stýrir fundi bæjarstjórnar Akureyrar þriðjudaginn 7. október 1975. Til hægri er Bjarni Einarsson bæjarstjóri. Úrklippa úr Akureyrarblaðinu Alþýðumanninum. Mynd: Páll A. Pálsson.
FORSÍÐA ALÞÝÐUMANNSINS 22. OKTÓBER 1975
