Börðust fyrir jafnrétti og ómenguðum Eyjafirði

Markaður sem kvennaframboðið stóð fyrir á götum bæjarins '83 eða '84. Valgerður, Kristín Aðalsteinsdóttir, Karólína Stefánsdóttir og Hrefna Ólafsdóttir sjást hér fyrir miðri mynd.
„Þessar uppákomur okkar Kvennaframboðskvenna á götum bæjarins voru í kosningabaráttunni 1982 og svo héldum við áfram á sumrin. því þótt við værum komnar í bæjarstjórn þá hélt baráttan gegn álverinu og fyrir kvenfrelsi, áfram,“ segir Valgerður, en hún og Sigfríður Þorsteinsdóttir hlutu sæti í bæjarstjórninni eftir kosningarnar. Þær voru ekki einu konurnar í bæjarstjórn það kjörtímabilið, en Úlfhildur Rögnvaldsdóttir komst inn fyrir Framsókn. „Næstu árin duttu út þrír karlar og þrjár konur komust inn í staðinn, svo að í lok kjörtímabils var meirihluti bæjarstjórnar kvenkyns,“ rifjar Valgerður upp.
Kvenfrelsi og náttúruvernd samofin
„Kvennaframboðið á Akureyri þróaðist út frá þeirri kvenfrelsisbylgju sem byrjaði sirka 10 árum áður, en hafði skollið á ströndum Íslands með krafti 24. október 1975,“ segir Valgerður. „Í kjölfarið komu ótal bylgjur, m.a. með konum sem fóru í nám til útlanda og komu heim með nýjar hugmyndir. Ein slík var að sjá bein tengsl milli kvenfrelsis og náttúruverndar.“
„Kvennaframboðið á Akureyri var ekki síst náttúruverndarframboð og eitt aðalmál okkar var að berjast gegn álveri við Eyjafjörð. Þar vannst sigur, en það koma alltaf ný verkefni og nú þurfum við að koma í veg fyrir fiskeldi í Eyjafirði,“ segir Valgerður að lokum.
Myndirnar, sem Valgerður setti á Facebook síðu sína, eru birtar hér með góðfúslegu leyfi hennar.

Valgerður er óviss um konuna lengst til vinstri í bláa jakkanum. Lesendur mega endilega koma með ábendingu ef einhver þekkir hana. Næst á myndinni er Helga Eiðsdóttir (látin), Valgerður, Elín Stephensen og Kristín Aðalsteinsdóttir.

Seldar voru rækjur úr ómenguðum firði. Kristín Aðalsteins lengst til vinstri, Karólína Stefánsdóttir og Hrefna Ólafsdóttir.

Sigurreifar konur á kosninganótt í Dynheimum 1982. Þorgerður Hauksdóttir (látin), Rósa Júl, Svava Aradóttir, Sigfríður Þorsteinsdóttir, Valgerður og Hólmfríður Jónsdóttir (látin).

Frá kosningafundi á Ráðhústorgi árið 1982. Valgerður, Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karólína Stefánsdóttir.