Fara í efni
Umræðan

Vetrarfuglatalningar á Akureyri

Nú um liðna helgi fór fram vetrarfuglatalning á Akureyri.

Vetrarfuglatalningar oft kallaðar „jólatalningar fugla“ eru ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda. - Frá upphafi hafa áhugamenn unnið þetta verk í sjálfboðavinnu og á annað hundrað manns taka þátt víða um landið.

Talningarnar fara fram á ákveðnum dögum í kringum áramót. Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um tegundir, fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi á Íslandi. Talningar eru staðlaðar og nýtast til vöktunar einstakra stofna.

Reynt er að hafa það fyrirkomulag að sömu menn telji ávallt á sömu svæðum enda þá líklegra að eins sé talið og með sömu aðferðum ár eftir ár.

Um síðustu helgi hafa líklegast einhverjir Akureyringar séð dularfullt fólk á ferðinni með sjónauka sína, vasabók og skriffæri, kíkjandi inn í garða, horfa upp í tré eða til himins og góna jafnvel íbyggin út á sjóinn eins og þeir hefðu séð eitthvað merkilegt.

Alls sáust 3.298 fuglar á Akureyri í talningunni á þeim svæðum sem talið er á og er það nokkuð gott. Fleiri fuglar eru samt á Akureyri því að ekki er talið um allan bæinn. Næstliðin ár hafa verið taldir hér liðlega 2000 til rúmlega 4000 fuglar í þessum talningum og talningarfólk verið um 12-14 manns.

Í talningunni um helgina vantaði sárlega snjótittlingana og fundum við bara 4 slíka í bænum en í sumum talningunum hafa verið um 1300 snjótittlingar. Skýringin er sú að ef hitastig fer upp fyrir frostmark og ekki eru svokölluð jarðbönn þá hverfa snjótittlingarnir úr bænum og finna sér æti þar. Hins vegar er auðnutittlingum að fjölga verulega og voru þeir taldir núna 1.214 en hafa oft verið um 2-300 í fyrri talningum.

Aðrar breytingar á vetrarfuglalífi í bænum okkar eru þær helstar að störum heldur áfram að fjölga verulega en það hefur verið að gerast síðastliðin 15-20 ár en áður sáust kannski fjórir til sex starar ef einhver sást og eins er með svartþrestina að þeim fer fjölgandi sem eru með vetursetu hér og fundum við 51 svartþröst þessa helgi. Þá fer glókollum líka fjölgandi í barrtrjám landsmanna.

Það er gaman að geta þess að Krossnefir eru farnir að halda hér til yfir veturinn og koma upp ungum að vori og hettusöngvarar, gráþrestir og reyndar líka oft silkitoppur eru farnir að vera hér á veturna og ýmsir aðrir flækingar sjást af og til.

Talningin tókst vel að þessu sinni og leitarskilyrði nokkuð góð enda nokkuð umliðið frá þrettándafreti landans. 

Jón Magnússon er fuglaáhugamaður.

Göngugatan – af hverju er þetta svona erfitt?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. maí 2023 | kl. 20:00

Leitin að fullkomnun

Skúli Bragi Geirdal skrifar
30. maí 2023 | kl. 14:00

Ungir iðkendur íþróttafélaga mæta afgangi hjá bæjarstjórn Akureyrar

Guðmundur Oddsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 08:00

Erindi í messu á degi eldri borgara

Jóhannes Geir Sigurgeirsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 06:00

Essin stóru í uppstigningardagsviku

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 16:00

Meira um brjóst og rassa

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 14:14