Fara í efni
Umræðan

Velkominn, Aron og gleðilega hátíð, Þór!

Aron Einar Gunnarsson þegar hann skrifaði undir samning við Þór á dögunum. Hann kemur nær örugglega eitthvað við sögu í leiknum gegn Njarðvík í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og Njarðvík eigast við í dag á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og er afar mikilvægur í baráttunni um að komast í umspil um sæti í Bestu deildinni næsta sumar.

Strangt til tekið er um hefðbundinn leik að ræða, einn af mörgum í deildarkeppninni, en samt er þetta enginn venjulegur dagur í knattspyrnusögu Þórs. Eins og flestum er líklega kunnugt er Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði til fjölda ára og einn landsleikjahæsti knattspyrnukarl Íslands, snúinn heim til uppeldisfélagsins. 

Aron Einar verður í leikmannahópi Þórs í dag í fyrsta skipti síðan 29. júní árið 2006! Þá gerðu Þór og HK 1:1 á Akureyrarvelli, nokkrum dögum áður en Aron gekk til liðs við AZ Alkmaar í Hollandi. Talað hefur verið um að hann komi eitthvað við sögu í leiknum en ekki er ljóst hve lengi. 

Vert er að benda á að ókeypis er á leikinn á Þórsvellinum í dag. Á heimasíðu Þórs segir:

  • „Einn af aðal samstarfsaðilum knattspyrnudeildar, VÍS, býður á völlinn í dag og færum við þeim þakkir fyrir það um leið og við hvetjum alla Þórsara til að fjölmenna á völlinn og styðja strákana í þessum mikilvæga leik.“
  • Félagsheimilið Hamar verður opið frá kl. 13.30, þar verður að gæða sér á ljúffengum veitingum auk þess sem nágrannaslagur ensku stórliðanna Manchester United og Manchester City um um Samfélagsskjöldinn, verður sýndur beint á risaskjá.

21 stig í pottinum

Efst lið Lengjudeildarinnar að loknum 22 umferðum leikur í Bestu deildinni næsta sumar en næstu fjögur lið fara í umspil um annað laust sæti í Bestu deildinni.

Þór er nú í áttunda sæti deildarinnar með 17 stig eftir 15 leiki. Njarðvík er hins vegar i fimmta sæti – því síðasta sem veitir sæti í umspili – og hefur 25 stig úr 15 leikjum. Þórsarar eru sem sagt átta stigum frá fimmta sætinu þegar sjö umferðir eru eftir og þar af leiðandi 21 stig í pottinum.

Frábær leiðtogi

Aron Einar tók þátt í nokkrum leikjum meistaraflokks Þórs 2005 og 2006, þá 16 og 17 ára, en fór til AZ Alkmar í Hollandi sumarið 2006. Þaðan lá leiðin til Coventry í Englandi, síðan lék hann í átta ár með Cardiff í tveimur efstu deildum í Englandi en árið 2019 samdi Aron við Al-Arabi í Katar og hefur leikið þar síðan.

Hann er 35 ára og einn leikreyndasti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Hann hefur leikið sem atvinnumaður erlendis í 18 ár og verið landsliðsfyrirliði í rúman áratug. Aron Einar er fjórði landsleikjahæsti íslenski knattspyrnukarlinn með 103 landsleiki. Hann var ótvíræður leiðtogi liðsins í mörg ár og gríðarlega mikilvægur hlekkur, til dæmis á þeim tveimur stórmótum sem karlalandsliðið hefur komist á; Evrópukeppninni í Frakklandi 2016 og á heimsmeistaramótinu í Rússlandi 2018.

Þórsliðið hefur ekki staðið undir væntingum í sumar. Liðið hefur leikið prýðilega í sumum leikjum en ekki náð sér á strik í öðrum. Mikið býr í liðinu en oft hefur vantað leiðtoga til að stilla saman strengi, einhvern sem lætur vel í sér heyra og smitar út frá sér. Aron Einar er nákvæmlega þannig leikmaður og ætti að hafa góð áhrif á liðsfélagana, hvort sem hann er utan eða innan vallar.

Þórsarar eiga þessa sjö leiki eftir. Að þeim loknum kemur í ljós hvort liðið tekur þátt í umspili liðanna í 2. til 5. sæti um þátttökurétt í Bestu deildinni að ári.

Í dag:
Þór - Njarðvík

Miðvikudag 14. ágúst:
Grindavík - Þór

Sunnudag 18. ágúst:
Þór - Fjölnir

Laugardag 24. ágúst:
Leiknir R - Þór

Laugardag 31. ágúst:
Þór - ÍR

Sunnudag 8. september:
Þór - Dalvík/Reynir

Laugardag 14. september:
Grótta - Þór

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00