Fara í efni
Umræðan

Veggjald ætti ekki að nota til að greiða rekstrarkostnað

Í grein sem ég ritaði nýlega benti ég á að hófleg veggjöld í jarðgöngum gætu aukið hraðann verulega í jarðgangagerð á Íslandi. Jafnframt benti ég á að mjög varlega þyrfti samt að fara í gjaldtöku í göngum sem hefðu verið gjaldfrjáls í mörg ár. Nú ætla ég að ræða hvernig nota ætti veggjöld og hvort 25 Gkr (25 milljarða króna) framlag til jarðgangagerðar úr ríkissjóði sé hæfilegt á 15 árum.

Venjan hefur verið sú að ríkið hefur lagt vegi á Íslandi fyrir skattfé og kostað rekstur þeirra. Notkun veganna hefur síðan verið gjaldfrjáls en gjald hefur verið lagt á eldsneytið, bensín og díselolíu. Þetta gjald er nú orðinn almennur skattur sem spornar gegn mestu ógn jarðarinnar, loftslagshlýnun. Þessi skattur er ekki lengur eyrnamerktur vegagerð frekar en aðrir almennir skattar eru eyrnamerktir ákveðnum útgjöldum.

Ef tekið er veggjald í dýrum samgöngumannvirkjum svo sem jarðgöngum má spyrja hvað gjaldið eigi að greiða. Á það að greiða stofnkostnaðinn? Eða rekstrarkostnaðinn? Eða hvort tveggja?

Þar sem jarðgöng eru óhemju dýr í framkvæmd er réttlætanlegt að nota veggjald til að greiða stofnkostnaðinn. En eru rök fyrir því að veggjald eigi einnig að borga rekstrarkostnaðinn?

Eins og áður sagði er hefðin í vegagerð að hvort tveggja er greitt úr ríkissjóði, stofnkostnaðurinn og rekstrarkostnaðurinn og það er stórt skref að láta vegfarendur greiða stofnkostnaðinn þótt rekstrarkostnaðurinn væri áfram greiddur úr ríkissjóði. Stofnkostnaðurinn eru stóru peningarnir, reksturinn eru litlu peningarnir.

Rekstrarkostnaður vegganga felst fyrst og fremst í rafmagni vegna lýsingar og fl., viðhaldi á búnaði og endurmalbikun. Malbikið endist betur í jarðgöngum en á almennum vegum. Lýsing er víða á vegum, ekki bara í jarðgöngum. Veggöng leiða síðan nánast alltaf af sér lægri rekstrarkostnað á veginum sem göngin leysa af hólmi. Það þarf vetrarþjónustu á öllu vegakerfinu nema í jarðgöngum.

Því má spyrja: er sanngjarnt að vegfarendur jarðganga greiði rekstur þeirra? Af hverju ættu vegfarendur í jarðgöngum frekar að greiða lýsingu heldur en vegfarendur á öðrum upplýstum vegum, t.d. Keflavíkurveginum? Af hverju ættu vegfarendur í jarðgöngum frekar að greiða fyrir endurmalbikun en aðrir, ekki síst þar sem sá kostnaður er minni í jarðgöngum? Auðvitað er í jarðgöngum ýmiss dýr búnaður sem er ekki á öðrum vegum en svarið blasir samt við. Það er ekki sanngjarnt að veggjald sé notað í rekstrarkostnað í veggöngum. Að minnsta kosti ekki nema að hluta. Veggjald ætti einungis að nota til að greiða stofnkostnaðinn.

Að lokum verður að benda á hvað 25 Gkr framlag til jarðgangagerðar úr ríkissjóði á 15 árum er lágt.

Frá því að hafið var að grafa Múlagöng á miðju ári 1988 hafa verið grafnir 49,6 km af veggöngum á landinu með framlagi úr ríkissjóði (Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng undanskilin). Á 34 árum hafa því verið grafnir um 1,5 km/ári að meðaltali. Með 25 Gkr á 15 árum yrði þessi tala lægri en 0,7 km/ári þar sem jarðgangakostnaður var um 2,5 Gkr/km áður en Rússar réðust á Úkraínu. Hann er hærri nú.

Getum við Íslendingar, fleiri og ríkari en áður, ekki kostað úr ríkissjóði nema 0,7 km af jarðgöngum ár hvert? En gátum kostað 1,5 km/ári þegar við vorum færri og mun efnaminni? 25 Gkr á 15 árum úr ríkissjóði lýsir því áhugleysi á jarðgangagerð á Íslandi. Það er miður. Vonandi verður meiri áhugi sýndur í verki næstu ár.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við Háskólann á Akureyri

Hjúkrunarheimili á Akureyri: Óþolandi staða

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
20. júní 2024 | kl. 13:50

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 08:58

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00

Gaza - Almenningur og stjórnvöld á Íslandi verða að ná samstöðu

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
04. júní 2024 | kl. 16:40