Fara í efni
Umræðan

Útlendingar og tungumál

Nokkur umræða á sér stað í fjölmiðlum og á veraldarvefnum um íslenskukunnáttu þeirra sem kjósa að setjast að á Íslandi. Hér er mitt innlegg. Ég skrifa sem útlendingur og sem Íslendingur. Orð mín mótast af uppvexti mínum í Þorpinu á Akureyri, jafnt sem búsetu minni sem útlendingur í Þýskalandi, störfum mínum, hlutverkum og námi hérlendis og erlendis. Þetta segi ég til að minna okkur öll á, að sérhvert innlegg í umræðuna er innlegg einstaklings. Sjaldan höfum við umboð til að tala fyrir hönd ákveðins hóps, hvað þá heils bæjarfélags eða íbúa ákveðinna landshluta.

Ég finn til með hinum aðflutta einstaklingi sem stendur frammi fyrir þeim háa þröskuldi að læra framandi tungumál. Um leið skil ég vel það ákall að við öll séum fær um að tjá okkur á tungumáli sem fólkið í viðkomandi landi skilur og talar. Ég samgleðst þeim sem eiga auðvelt með að læra nýtt tungumál. Þau eru heppin. Því miður erum við ekki öll slíkum kostum búin. En eitt getum við öll gert: Tekið höndum saman um bætt samfélag. Þar sem okkur tekst að ná fram gagnkvæmum skilningi á orðum okkar og athöfnum fær slíkt samfélag að vaxa

Mín ósk væri sú að sérhver vinnuveitandi sæi það sem sjálfsagðan hlut að bjóða upp á íslenskunám á vinnutíma fyrir allt sitt starfsfólk. Til að gæta jafnræðisreglu mætti hugsa sér að þetta væri ákveðinn fjöldi kennslustunda sem stæði öllum til boða. Þau sem þegar tala íslensku eða þurfa ekki að nota allar þessar kennslustundir mættu nota kennslustundirnar í að læra eitthvað annað. Um leið dreymir mig um samfélag á vinnustöðum sem sér það ekki sem einhliða hlutverk hins aðflutta að læra tungumál þeirra sem þegar eru á staðnum, heldur væri samstarfsfólkið opið fyrir því að læra lykilorð úr tungumáli hins aðflutta einstaklings.

Sú staða er komin upp í flestum löndum hins svonefnda vestræna samfélags, að án aðflutts verka- og fagfólks, geta viðkomandi efnahagseiningar ekki sinnt verkefnum sínum. Eftir því sem ég fæ best séð á þetta við um langflestar greinar atvinnulífsins. Aðlögun hins aðflutta einstaklings er því hagur allra og bót fyrir samfélagið ef við öll tækjum þátt í slíkri aðlögun (hinn aðflutti lagar sig að aðstæðum eins og viðkomandi hefur kost á og samfélagið aðlagar sig að sérkennum menningar þess einstaklings sem nú bætist í samfélagið).

Þá finnst mér mikilvægt að það komi fram að við verðum að læra að taka tillit til aðstæðna viðkomandi einstaklinga. Ég kýs að nefna tvö afmörkuð dæmi til að rökstyðja mál mitt. Ef þjónustuver ræður einstakling í símsvörun geng ég út frá því að viðkomandi sé sítalandi allan daginn. Hér er því ekki bara þörf á að kunna tungumálið, heldur eru aðstæður viðkomandi einstaklings slíkar að daglega bjóðast þúsund tækifæri á að nýta tungumálið og læra af málnotkun annarra. Ef fatahreinsun ræður einstakling til að þvo þvott og strauja getur sú staða komið upp að í bakherberginu sem viðkomandi vinnur í, falli ekki eitt einstakt orð jafnvel tímum saman. Þar með skortir viðkomandi alla möguleika á vinnutíma til að kynnast tungumálinu sem talað er í viðkomandi landi.

Fyrir mér er tungumálið tæki til tjáningar. Ég hef verið svo heppinn að þegar ég hef gert mistök í notkun orða eða jafnvel skort orð, þá hef ég mætt velvild og oft upplifað að fólk er tilbúið að hjálpa mér að læra tungumálið og spurt út í móðurmálið mitt. Búseta utan Íslands í tugi ára hefur gert það að verkum að framburður minn og málnotkun íslenskunnar er ekki lengur af sömu gæðum og þegar ég sat á skólabekk í Glerárskóla og seinna í Menntaskólanum á Akureyri. Að sama skapi hefur þýskan mín skánað, tungumál sem ég var ekki nógu duglegur að læra í MA. Í dag er ég fær um að gera mistök á báðum tungumálum. Slíkt er ekki alltaf kostur. Ég reyni að láta bros og afsökun fylgja með. Hér hefur reynslan kennt mér að bros, velvild og áhugi á hinu framandi, eru þrjú hjálpartæki sem auðvelda tjáningu og greiða veg þess sem er að læra nýtt tungumál.

Ég hef fulla trú á því að mikill meirihluti fólks sem sest að í nýju landi, sé opið fyrir að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast til að læra tungumál heimafólks og auka eigin færni til tjáningar sem hentar því menningarrými sem þau taka nú þátt í að skapa. Lykilorð setningarinnar hér að framan eru „fulla trú á“ og „tækifæri“. Ég er semsagt ekki að segja að meirihluti fólks sem flytur til Íslands ætli sér að læra tungumálið. Því miður þekki ég engar trúverðugar rannsóknir hvað það varðar og get því ekki sett fram slíka fullyrðingu. En reynsla mín af vinnu í fjölmenningarlegu umhverfi er sú að ef fólki eru kynnt góð tækifæri þá eru þau opin fyrir að kynna sér þau. Hér er að mínu mati að sama skapi áskorun fyrir samfélagið allt að skilja og sjá að fólk þarf mismunandi námsleiðir til að verða fært í að tjá sig á framandi tungumáli. Þar sem gagnkvæmur áhugi á samskiptum ríkir, er auðveldara að læra tungumál og skilja hina framandi menningu. Tökum höndum saman. Verum bjartsýn.

Pétur Björgvin Þorsteinsson er djákni og Evrópufræðingur, Akureyringur búsettur í Þýskalandi.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45