Fara í efni
Umræðan

Úr dagbók kennara

Ég hætti að mestu að kenna fyrir tveimur árum en því er ekki að neita að mér finnst erfitt að slíta mig frá hressilegum skoðanaskiptum um skóla og menntun. Upp á síðkastið hefur tölvuvert verið talað um einkunnir og lögfræðinga sem sigað er á kennara sem standa sig ekki í einkunnagjöfinni. Á seinni hluta kennsluferilsins þóttu mér sem einkunnir væru farnar að ráða heldur miklu um stemningu í bekkjum. Ég man eftir bekkjum þar sem allt lék í lyndi þar til ráðandi nemendur fengu sér til mikillar furðu 8 en ekki 9 og í framhaldinu urðu öll samskipti frekar súr og leiðinleg.

Ég var á göngu nálægt Limmat-ánni hér í Zürich fyrir skemmstu þegar ég rakst á bókahillu með gefins bókum. Ég greip bók eftir höfund sem ég kannaðist við, opnaði hana og byrjaði að glugga í texta í bókinni miðri. Textinn ber yfirskriftina „Úr dagbók kennara“. Margt þar var ansi kunnuglegt.

Höfundurinn, Ephraim Kishon (1924-2005), var ungverskur gyðingur sem bjó lengst af í Ísrael. Á sínum tíma var hann vinsælasti gamansagnahöfundur landsins og sömuleiðis gríðarvinsæll í hinum þýskumælandi heimi. Textinn sem hér fer á eftir er úr bókinni „Wie unfair, David!“ sem kom út árið 1967. Þýðingin birtist hér örlítið stytt.

Úr dagbók kennara

13. september. Í dag hófst kennsluferill minn fyrir alvöru. Ég mun leysa af kennara sem fékk sig fullsaddan og lagðist á flótta. Fyrsta kennslustundin var afar ánægjuleg, en nokkru síðar, það liðu svona 2-3 mínútur, tók nemandi að nafni Taussig sig til og kveikti á ferðaútvarpinu sínu. Ég endurtók margoft að ég sætti mig ekki við að popptónlist væri spiluð í minni kennslustofu. Þar sem tilmæli mín féllu í grýttan jarðveg varð úr að ég vísaði honum úr tíma: „Farðu út“, sagði ég. Taussig skipti þá yfir á útvarpsstöð sem lék rokktónlist og svaraði: „Farðu sjálfur út!“

27. september. Leiðindaatvik. Það liggur ekki ljóst fyrir hver ber sökina. Þetta byrjaði þannig að ég rakst á stafsetningarvillu í verkefni hjá Taussig. Hann hafði skrifað: „Bibblían er uppáhaldsbókin okkar.“ Þegar ég benti honum á að rétt væri að skrifa „Biblían“ greip hann reglustiku og sló á fingurna á mér. Það var sárt. Þar sem ég er mótfallinn líkamlegum refsingum sem agatæki bað ég piltinn að senda foreldra sína á minn fund.

29. september. Í dag mættu foreldrar Taussigs á fund; móðir, tveir feður og skari af frændfólki. „Ertu að segja að sonur minn sé fáviti?“ öskraði annar af feðrunum og hinn tók undir: „Svo sonur minn kann ekki að skrifa, ha?!“ Nú brutust út átök og menn létu hnefana tala og mér rétt tókst að flýja inn á skrifstofu skólastjóra og læsa að mér. Foreldraskarinn lagðist nú á hurðina með höggum og spörkum. „Gefstu upp!“ öskraði skólastjórinn á mig. Fyrir tilviljun var embættismaður úr menntamálaráðuneytinu á staðnum og einhvern veginn tókst honum að koma á vopnahléi. Við tóku samningaviðræður og úr varð að foreldrar Taussigs myndu yfirgefa svæðið ef við hættum að setja út á einstaklingsbundin frávik í stafsetningu.

9. október. Mótmælin náðu nýjum hæðum í dag. Á annan tug nemenda sjöunda bekkjar hafði safnast saman handan gaddavírsgirðingarinnar sem umlykur skólabygginguna. Þau höfðu útbúið brúðu af mér í fullri stærð sem þau nú kveiktu í. Gamall og reyndur uppfræðari benti mér á að ekkert nema harka dygði á þessa kynslóð. „Þau hlusta bara á hörkutól eins og Blumenfeld.“ Blumenfeld er einn af ungu kennurunum. Þetta er hinn viðkunnanlegasti maður en mikill að vöxtum og harður í horn að taka. Það ríkir alltaf ró og friður í tímum hjá honum og foreldrar kvarta aldrei undan honum. Ég spurði hvert leyndarmál Blumenfelds væri. „Hann er uppeldisfræðingur. Hann lyftir aldrei hönd gegn nemanda. Hann sparkar í hann.“ Ég er byrjaður að æfa júdó. Allir æfingafélagar mínir eru kennarar.

21. október. Stéttarfélagið tjáði okkur að fjármálaráðuneytið væri ekki tilbúið að greiða okkur áhættuþóknun þar sem engin opin átök hefðu átt sér stað á vígvelli kennslunnar. Ég er orðinn stórskuldugur. Ég skulda kaupmanninum, tryggingafélaginu og lögfræðingnum sem gekk frá erfðaskránni minni. Ég ákvað nefnilega að fella Taussig á lokaprófi í málfræði. Ég borgaði einnig formúu fyrir pláss á endurhæfingarstofnun fyrir bugaða kennara og góða summu í sjóð til handa ekkjum og ekklum þeirra sem fórnuðu sér fyrir málstaðinn.

22. október. Taussig féll á prófinu. En ég hafði gleymt því að bróðir hans er liðþjálfi í stórskotaliðinu. Sprengjuregnið hófst án fyrirvara en sem betur fer hafði loftvarnarbyrgi verið komið fyrir í skólanum fyrir nokkrum árum þegar sonur yfirmanns í flughernum féll á stúdentsprófi.

Upp úr hádegi hætti skólastjórinn sér út með hvítan fána. Að nokkrum tíma liðnum snéri hann til baka með kröfur uppreisnarmanna: Einkunnin: „Fullnægjandi“ fyrir Taussig og afsökunarbeiðni til bekkjarins. Ég lýsti mig samþykkan þessu og tók undir afsökunarbeiðnina en henni var hafnað því hún væri „ekki frá hjartanu“ og síðan tóku þeir skólastjórann í gíslingu.

15. nóvember. Það fór eins og ég óttaðist. Taussig náði sér í kvef. Lögreglan mætti á svæðið og tók mig fastan því samkvæmt Taussig var ég sökudólgurinn. Ég sagði sem var að það hefði ekki verið ég sem opnaði gluggann, en á það var ekki hlustað. Allir foreldrar Taussigs báru vitni gegn mér. Fulltrúi Rauða krossins spurði hvort ég ætti einhverja ósk að lokum.

18. nóvember. Kraftaverk! Öll vandamál ísraelska menntakerfisins hafa verið leyst! Í blaðinu í dag (sem gæsluvarðhaldsfangi hef ég aðgang að dagblöðum) kom fram að innan tíðar muni sjónvarp hefja göngu sína í Ísrael og á stefnuskránni sé að hefja fjarkennslu af skjá. Ég er hólpinn.

Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30