Fara í efni
Umræðan

Umhyggja, kærleikur og mennska

Ein merkasta sjálfsævisaga sem rituð var á íslensku á 20. öld hefst á Oddeyrinni á Akureyri. Þegar sagan gerist var það útbreiddur veruleiki á Íslandi að heimili voru leyst upp og börn voru send til vandalausra, að verkamenn fóru á morgnana til að leita að vinnu þann daginn og barnmargir feður reru út á Pollinn til að draga björg í bú. Konur gengu út í bylinn til að freista þess að ná tali af fátækrafulltrúanum og prestinum svo börnin í kotinu heima syltu ekki, og horaður drengur var sendur nestislaus af stað gangandi tvær dagleiðir frá Gili í Öxnadal til að biðja kaupmann hér í bænum til að lána heimilinu fyrir brýnustu nauðsynjum fyrir páskana.

Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson er ævarandi minnisvarði um lífsbaráttu fólks í þessu landi og hún gæti einnig verið áminning til biskups og raunar þjóðkirkjunnar allrar að gleyma því aldrei að vera talsmaður þeirra, sem höllum fæti standa í tilverunni.

En sagan segir líka af fólki sem sýndi umhyggju, kærleika og mennsku og hvað trúin á góðan Guð var og er fólki mikilvæg í andstreymi og baráttu hversdagslífsins. Enda þótt lífsbaráttan sé ekki eins miskunnarlaus á okkar dögum og fyrir einni öld, þá er það engu að síður margt sem vekur ugg og reynir á þrautseigju og styrk. Það er flókið að vera manneskja í flóknum heimi og þá er kirkjan fólki samferða.

Nú stendur biskupskjör fyrir dyrum og því vil ég nota tækifærið til að segja þér sem þetta les, í örstuttu máli frá þeirri sýn sem ég hef á hlutverk biskups Íslands.

Verði ég kjörin biskup Íslands, mun ég:

  • Hlúa að einingu og friði í lífi þjóðkirkjunnar, milli leikra og lærðra, höfuðborgar og dreifbýlis.
  • Styrkja stöðu safnaðanna með því að ganga eftir því að sóknargjaldalögin verði fest í sessi og fjárhagur safnaðanna verði þar með treystur.
  • Efla og standa vörð um vandaða stjórnsýslu og faglega leiðsögn með sanngjarnri og ábyrgri stjórnun.
  • Auka hlut fræðslu, kennslu og boðunar á vegum kirkjunnar fyrir fólk á öllum aldri.
  • Móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur boðskap kristinnar trúar á framfæri í fjölmenningarsamfélagi dagsins.
  • Standa vörð um og efla kærleiksþjónustu kirkjunnar í söfnuðum og Hjálparstarfi kirkjunnar.
  • Styðja við nýjungar, fjölbreytni og endurnýjun í helgihaldi kirkjunnar.
  • Ganga til góðs með prestum, próföstum, djáknum og öðru trúnaðarfólki þjóðkirkjunnar um allt land.
  • Tala til þjóðarinnar á stórum stundum og vera talsmaður kristinna lífsgilda í samfélagsumræðunni.

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf og kærleiksþjónustu þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup á að uppörva vígða þjóna vítt og breitt um landið svo þeir geti boðað fagnaðarerindið og miðlað trúnni á þann hátt að samtíminn skilji. Biskup orðar stóru tilvistarspurningarnar, lætur sig varða um málefni líðandi stundar og setur þau í samhengi kristinna lífsgilda.

Biskup starfar aldrei einn og er ekki einráður. Biskup á alltaf í samtali við aðra og þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf. Örugg boðun í trú og gleði, sátt og samlyndi, með vandaðri stjórnun, verður mín nálgun.

Elínborg Sturludóttir er frá Snæfellsnesi og hefur þjónað sem prestur í Grundarfirði, Borgarfirði og nú við Dómkirkjuna í Reykjavík. Hún er í framboði til biskups Íslands, kjör fer fram 11. – 16. apríl nk. Sjá https://kirkjan.is

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15