Fara í efni
Umræðan

Til hvers er háskóli á Akureyri?

Lítið hefur heyrst undanfarna mánuði af áformum um sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans á Akureyri frá því að þau voru tilkynnt með pompi og prakt í upphafi ársins. Þessi ákvörðun var sögð tekin á grundvelli fýsileikagreiningar um aukið samstarf og mögulega sameiningu skólanna. Fljótt heyrðust hins vegar ýmsar óánægjuraddir, einkum frá akademísku starfsfólki við HA þar sem greint var frá takmörkuðu samráði í aðdraganda ákvörðunarinnar og bent á meintar rangfærslur í fýsileikagreiningunni. Til marks um þann grýtta jarðveg sem sameiningaráformin féllu í innan HA má benda á að á háskólafundi sem haldinn var þar stuttu eftir að tilkynnt var um sameiningarviðræðurnar samþykkti mikill meirihluti ályktun þess efnis að fallið yrði frá áformum um sameiningu að svo stöddu.

Sú þögn sem síðan hefur verið um málið í opinberri umræðu gæti ef til vill gefið til kynna að þessi áform hafi hlotið sömu örlög og þau sem kynnt voru nokkrum mánuðum fyrr um sameiningu MA og VMA. Svo er þó ekki og í fundargerðum háskólaráðs HA (sem birtar eru vef skólans) má sjá að því fer fjarri að fallið hafi verið frá sameiningaráformum. Raunar verður ekki betur séð af fundargerðum háskólaráðs en unnið hafi verið að málinu af fullum krafti allt frá því að tilkynnt var um sameininguna í upphafi árs.

Ef litið er til þess hversu stóran hlut samfélagið á Akureyri átti í því að komið var á fót sjálfstæðum háskóla á Akureyri árið 1987 þá hafa þessi sameiningaráform vakið furðu lítil viðbrögð í nærsamfélaginu. Til samanburðar má horfa til þess hvaða viðbrögð áform um sameiningu MA og VMA fengu á síðasta ári. Ekki þarf að hafa mörg orð um það fár sem varð þegar hinu opinbera datt í hug að það væri boðlegt að á Akureyri væri ekki val um tvo framhaldsskóla. Engu skipti þótt viðkomandi stjórnvöld reyndu að halda því fram að alls ekki yrði dregið úr námsframboði eða annarri þjónustu.

Einnig má líta á viðbrögð bæjarráðs Akureyrar sem fékk kynningu á sameiningaráformum MA og VMA á fundi sínum 14. september 2023 og samþykkti þá þegar ályktun gegn sameiningu skólanna. Þegar áform um sameiningu HA og Háskólans á Bifröst voru kynnt bæjarráði á fundi 25. janúar 2024 voru viðbrögðin þau að þakka fyrir kynninguna.

Í þeirri fýsileikagreiningu sem fyrir liggur og virðist vera grundvöllur yfirstandandi viðræðna um sameiningu HA og Háskólans á Bifröst er meðal annars tilgreint það markmið með sameiningunni að efla rannsóknir. Sé hins vegar litið á rannsóknarvirkni akademísks starfsfólks HA, eins og hún er metin í samræmdu matskerfi opinberra háskóla, þá hefur hún nær tvöfaldast frá 2008 til 2022. Það er nákvæmlega sama þróun og varð við Háskóla Íslands á sama tíma og í raun ástæða til að hrósa fræðafólki við HA fyrir þennan árangur sem hefur náðst á sama tíma og nemendafjöldi skólans hefur tæplega tvöfaldast. Vissulega er það rétt sem bent er á í fýsileikagreiningunni að litlir háskólar (sem HA og Bifröst sannarlega eru) eiga á brattann að sækja í alþjóðlegu rannsókna- og styrkjaumhverfi. Ég hef sjálfur starfað lengi á þeim vettvangi og leyfi mér að fullyrða að sameining þessara stofnana mun litlu breyta um það. Rannsóknarstarf við Háskólann á Bifröst þekki ég ekki en eftir þeim mælikvörðum sem nota má til að leggja almennt mat á rannsóknarstarf við Háskólann á Akureyri þá sýnist mér að starfsfólk þar standi sig bara ágætlega. Það er með öðrum orðum ekki ljóst að hvað varðar rannsóknir við Háskólann á Akureyri sé til staðar vandamál sem sameining við Háskólann á Bifröst myndi leysa.

Sigurður Kristinsson, prófessor við HA, fjallaði um ýmsar hliðar mögulegrar sameiningar í ágætri grein 7. febrúar (https://www.akureyri.net/is/umraedan/kapp-er-best-med-forsja). Meðal annars bendir hann á að verði af sameiningu þá skapar það fyrirsjáanlega talsvert álag á starfsfólk við endurskipulagningu náms, álag sem bitnar á annarri starfsemi, þ.e. rannsóknum og kennslu. Þetta sýnist mér vera veigamikil rök gegn sameiningu skólanna þegar ekki verður betur séð en að ávinningurinn sé lítill sem enginn fyrir Háskólann á Akureyri.

En víkjum aftur að því áhugaleysi sem virðist ríkja á Akureyri um þetta sameiningarmál og því sem tæpast er nefnt í fýsileikagreiningunni sem er kennsla og þá ekki síst námsframboð á háskólastigi á Akureyri. Því hvað sem segja má um ágætan árangur Háskólans á Akureyri í rannsóknum og stöðugan vöxt í fjölda nemendafjölda þá hefur skólinn í raun brugðist þeim vonum sem ætla má að við hann hafi verið bundnar um háskólanám á Akureyri. Því til hvers er háskóli á Akureyri? Við þeirri spurningu ekki eitt svar en frá sjónarhóli þeirra sem búa á Akureyri þá hlýtur eitt mikilvægasta hlutverk háskóla á Akureyri að vera að bjóða nám á háskólastigi á Akureyri.

Þegar Háskólinn á Akureyri hóf starfsemi haustið 1987 voru aðeins þrjú ár liðin frá því að Verkmenntaskólinn á Akureyri hóf starfsemi sína. Þar hafði vissulega verið byggt á grunni skóla sem fyrir voru í bænum en það sem blasti við sjónum bæjarbúa var nýr framhaldsskóli með fjölbreytilegt námsframboð sem svo hefur vaxið og dafnað. Þegar námsframboð í VMA og MA er svo lagt saman má með sanni segja að staða mála sé nokkuð góð og ‚við þurfum lítið sem ekkert að sækja suður‘. Fyrir íbúa á Akureyri sem um miðjan níunda áratuginn sáu hvernig staðið var að starfsemi framhaldsskóla í bænum þá hljóta það að vera ákveðin vonbrigði að vera með háskóla sem eftir að hafa starfað 37 ár býður 15 námsleiðir í grunnnámi. Til samanburðar eru yfir hundrað námsleiðir í boði við Háskóla Íslands. Án efa eru margskonar praktískar ástæður fyrir því að námsframboð við HA er ekki fjölbreyttara en raun ber vitni. Með útsjónarsemi hlýtur þó að mega bæta þar úr og í samanburði við það fjölbreytta nám sem er í boði á framhaldsskólastigi vekur fábreytni í námsframboði á háskólastigi áleitnar spurningar.

Á framhaldsskólastigi er á Akureyri til dæmis hægt að stunda hljóðfæranám sem lýkur með stúdentsprófi. Þetta er hægt að gera þrátt fyrir að á landsvísu séu (samkvæmt skrám Hagstofunnar) aðeins 46 nemendur sem stunda hljóðfæranám á framhaldsskólastigi. Með einhverju móti hefur útsjónarsömu fólki samt tekist að leysa úr því viðfangsefni að slíkt nám er í boði á Akureyri. Til að ljúka bakkalárnámi í hljóðfærakennslu þarf hins vegar að flytja á höfuðborgarsvæðið (eða til útlanda). Þetta þekki ég af eigin reynslu því þetta er sú leið sem elsta dóttir mín fór og sem nú kennir á fiðlu ,fyrir sunnan‘.

En það er ekki bara nám sem fáir stunda sem ekki er í boði við Háskólann á Akureyri. Ef litið er á námsleiðir við Háskóla Íslands þá eru margar námsgreinar þar sem laða til sín fjölda nemenda sem ekki virðist vera hægt að bjóða á Akureyri. Þar má nefna ensku, félagsráðgjöf, lífeindafræði, lífefna- og sameindalíffræði, læknisfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, sagnfræði, tómstunda- og félagsmálafræði, þroskaþjálfafræði, vélaverkfræði og sjúkraþjálfun. Allt námsgreinar sem eru með 100 nemendur eða fleiri í grunnnámi við Háskóla Íslands. Vel á minnst, sjúkraþjálfun sem kærasti fiðlu-dóttur minnar hefur numið með góðum árangri við Háskóla Íslands. Það má hafa mörg orð um gildi þess fyrir ungt fólk að hleypa heimdraganum og fara út í hinn stóra heim. En er til of mikils mælst að unga fólkið á Akureyri eigi allavega val um hvort þau fara eða vera? Og hvað með unga fólkið ,fyrir sunnan‘ sem vill hleypa heimdraganum án þess að flytja til útlanda?

Í aðdraganda að stofnun HA var meðal annars tekist á um hvort betra væri að stofna til háskólanáms á Akureyri á vegum Háskóla Íslands eða með því að koma á fót sjálfstæðum háskóla. Hið síðara varð ofaná og hefur almennt síðan verið talið mikið lán að til varð sjálfstæð stofnun fremur en útibú frá ‚þeim fyrir sunnan‘. Ég hef sjálfur eindregið þeirrar skoðunar að einmitt þetta atriði að stofna sjálfstæðan háskóla hafi verið góð ákvörðun og sé mögulega eitt af því sem skýrir góðan árangur á sviði rannsókna. Jafnframt kann þessi ráðstöfun að hafa haft sitt að segja um þróun fjarnáms við HA. Það rekstrarumhverfi sem stjórnvöld bjuggu háskólanum gaf ekki færi á vexti með því að breikka námsframboðið og eini möguleikinn til vaxtar að fá fleiri nemendur í það nám sem þegar var til staðar. Með því að þróa fjarnám og sveigjanlegt nám gat starfsfólk HA fjölgað nemendum sem jafnframt skapaði dýrmæt tækifæri til náms fyrir fólk í dreifðari byggðum og styrktri háskólann sem rannsóknastofnun. En önnur hlið á þessari þróun er fjölgun nemenda við HA sem búa ekki á Akureyri. Árið 2023 voru þannig aðeins 24% nemenda HA búsett á Norðurlandi eystra meðan 34% nemenda voru búsett á höfuðborgarsvæðinu og ekkert annað landssvæði átti stærri hlutdeild í nemendahópi skólans. Sé litið til útskrifaðra nemenda úr grunnnámi á því sama ári eru þrír fjölmennustu nemendahópar þar í viðskiptafræði, sálfræði og hjúkrunarfræði. Þegar kemur að kennslu má því kannski segja að Háskólinn á Akureyri sinni að meðaltali því hlutverki að mennta nemendur á höfuðborgarsvæðinu í viðskiptafræði, sálfræði og hjúkrunarfræði.

Þetta er ekki endilega neikvætt og vel hægt að una því Háskólinn á Akureyri hafi markað sér þessa stefnu. Fyrir venjulegan íbúa á Akureyri er þó kannski takmarkað gildi í vexti af því tagi sem verið hefur í starfsemi HA síðustu 20 ár eða svo. Nemendum hefur jú vissulega fjölgað og starfsfólki að einhverju leyti líka. Möguleikum til að stunda nám til grunn háskólagráðu á Akureyri hefur hins vegar lítið fjölgað. Fyrir okkur sem búum á Akureyri má jafnvel kalla það vonbrigði að af hálfu HA virðist ekki vera lögð sérstök áhersla á að efla námsframboð í grunnnámi, hvorki í stefnu HA 2012 – 2017 né þeirri sem tók við og gilti frá 2018 – 2023.

Það er spurning hvaða ályktun má svo draga af því að sú framtíðarsýn og stefna HA sem birt er á vef skólans þegar þetta er skrifað síðla sumars 2024, hún nær aðeins til 2023 – vonandi þýðir það ekki að skólinn sé stefnulaus. Líklegast er einhver ‚vinna í gangi‘ sem svo hefur eðli máls samkvæmt tafist vegna þess að tími og athygli fer í viðræður um sameiningu við Háskólann á Bifröst. Ég leyfi mér að hvetja nýskipaðan rektor HA til að fylgja ályktun háskólafundar og leggja sameiningaráform til hliðar um sinn. Fyrir samfélagið á Akureyri er mikilvægt að áður en lengra er haldið á þeirri vegferð sé skoðað af fullri alvöru ekki hvort, heldur hvernig Háskólinn á Akureyri ætlar að sinna því hlutverki sem hann hlýtur að hafa, umfram allt sem skrifað kann að vera í stefnu skólans eða framtíðarsýn á hverjum tíma, sem er að tryggja íbúum á Akureyri aðgang að grunn háskólanámi á öllum fagsviðum háskóla. Ef Háskólinn á Akureyri ætlar ekki að sinna þessu hlutverki þá skora ég á bæjarstjórnina á Akureyri að hún endurveki háskólanefndina sem skipuð var 1985 svo ljúka megi því verki sem þá var hafið og koma á fót alhliða háskólakennslu á Akureyri. Sá bútasaumur af námsgreinum sem býðst á háskólastigi á Akureyri í dag er bara alls ekki grand lausn og það dugar ekki að byrja með þá forsendu að aldrei verði kenndar nema fáar námsgreinar við háskóla á Akureyri. Mögulega mátti samþykkja slíkar hugmyndir árið 1987 en ekki nú tæpum 40 árum síðar. Við sem búum á stærsta þéttbýlissvæði landsins utan höfuðborgarinnar eigum betra skilið.

Kjartan Ólafsson er félagsfræðingur og sérfræðingur á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands en býr á Akureyri og starfaði við Háskólann á Akureyri frá 2000 – 2021.

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00