Fara í efni
Umræðan

Telja Brussel vera langt í burtu

„Ég held að margir Danir hafi þá upplifun að þetta sé langt í burtu, bæði Evrópusambandið og Brussel,“ sagði Metta Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 Nord skömmu áður en kosið var til þings sambandsins í júní. Fréttamaðurinn hafði spurt hana út í takmarkaðan áhuga Dana á kosningunum og sagðist hún sem forsætisráðherra hafa ákveðinn skilning á því.
 

Kjörsóknin í kosningunum til þings Evrópusambandsins í Danmörku var tæplega 58,3% sem er talsvert hærra en heildarkjörsóknin í kosningunum innan sambandsins sem var rétt rúmt 51%. Hins vegar var hún mun lakari en kjörsóknin í síðustu þingkosningum í landinu 2022 sem var 83,7%. Ummæli ráðherrans um að Evrópusambandið sé fjarlægt eru annars ekki hvað sízt áhugaverð þar sem Danmörk er hluti þess.

Telji margir Danir Evrópusambandið fjarlægt sem og Brussel, þar sem margar helztu stofnanir þess hafa aðsetur, má velta fyrir sér hver upplifun okkar Íslendinga yrði innan þess. Margfalt styttra er jú frá Brussel til Danmerkur en hingað til lands. Landfræðileg staðsetning Danmerkur er sömuleiðis fremur miðsvæðis í Evrópu og hagsmunir Dana eiga miklu meiri samleið með hagsmunum stóru ríkjanna innan sambandsins.

Kjörsóknin lengi verið vandamál

Kjörsókn í kosningum til þings Evrópusambandsins hefur lengi verið vandamál og flest verið gert í gegnum tíðina til þess að reyna að auka áhuga kjósenda á þeim. Kosið var fyrst til þingsins árið 1979 og var kjörsóknin þá tæp 62%. Eftir það dróst hún jafnt og þétt saman en kosið hefur verið til þingsins á fimm ára fresti. Lægst fór kjörsóknin í 42,6% árið 2014 en hefur verið rétt yfir 50% í síðustu tvö skiptin.

Fimmta mesta kjörsóknin í kosningunum í ár var í Danmörku þrátt fyrir að hafa ekki þótt mjög mikil. Mest var kjörsóknin í Belgíu eða rétt rúm 89% og næstmest í Lúxemborg, rúm 82,2%, en í báðum þessum ríkjum er skylda að mæta á kjörstað sem skýrir einkum góða þátttöku. Þá kom Malta með 73% og Þýzkaland með rúm 64,7%. Hins vegar var kjörsóknin til dæmis aðeins um 40% í Finnlandi og 46% í Hollandi.

Fimmtán danskir þingmenn sitja á þingi Evrópusambandsins af 720 í heildina en vægi ríkja innan þess fer sem kunnugt er fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Í tilfelli þingsins er þó enn til staðar ákveðið lágmark í þeim efnum sem þýddi að Ísland fengi sex þingmenn gengi landið í sambandið. Sex þingmenn af 720 væri þó á við það að hafa einungis hálfan þingmann á Alþingi. Möguleg áhrif yrðu nær engin.

Danir þurftu að refsa Færeyingum

Vægi Danmerkur í ráðherraráði Evrópusambandsins væri hliðstætt og á þingi þess. Þar eru ákvarðanir í langflestum tilfellum teknar með auknum meirihluta þar sem íbúafjöldi ríkjanna vegur þyngst. Einróma samþykki heyrir þar nær sögunni til. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið færi vægi landsins í ráðinu allajafna alfarið eftir íbúafjölda landsins og yrði á við það að eiga aðeins 5% hlutdeild í alþingismanni.

Mörg dæmi eru um það að ríki innan Evrópusambandsins hafi orðið undir þegar ákvarðanir hafa verið teknar í ráðherraráðinu. Ekki sízt þegar fjallað hefur verið um mikilvæg hagsmunamál þeirra. Til að mynda neyddust dönsk stjórnvöld þannig til þess hér um árið að taka þátt í refsiaðgerðum sambandsins gegn Færeyjum, hluta af danska konungdæminu, vegna síldveiða Færeyinga í þeirra eigin efnahagslögsögu.

Hvatamenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið kölluðu hér áður fyrr eftir inngöngu í sambandið til þess að hafa áhrif innan þess. Í seinni tíð hafa þeir í staðinn farið að tala um að ganga þyrfti í Evrópusambandið til þess að fá „sæti við borðið“. Skiljanlega enda ljóst að möguleikar Íslands á því að hafa áhrif innan sambandsins yrðu litlir sem engir líkt og fjallað er um hér að framan. Það yrði sæti Íslands við borðið.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00