Fara í efni
Umræðan

Svar við opnu bréfi Arnars

Ein meginstoð góðrar stjórnsýslu er að gæta jafnræðis gagnvart einstaklingum, félögum og fyrirtækjum, og gæta þess að almenningur hafi ávallt greiðan aðgang að upplýsingum um þær ákvarðanir sem eru teknar. Markmið kjörinna fulltrúa sem og embættismanna er að fara vel með almannafé og sýna ráðdeildarsemi í hvívetna.

Því ber að taka mjög alvarlega öllum aðdróttunum um að jafnræðis sé ekki gætt eða að ákvarðanir séu teknar „til skaða fyrir bæjarsjóð og bæjarbúa“ eins og Arnar Guðmundsson, löggiltur fasteigna- og skipasali og eigandi Fasteignasölu Akureyrar, heldur fram í opnu bréfi til mín og bæjarfulltrúa sveitarfélagsins. Við höfum ekkert að fela og sannleikurinn er sagna bestur.

Hér eru staðreyndir málsins:

Til að lágmarka kostnað við sölu á eignum Akureyrarbæjar var með auglýsingu leitað tilboða frá öllum fasteignasölum bæjarins með það að markmiði að söluþóknun yrði sem lægst og þannig staðinn vörður um almannafé.

Þótt Arnari megi vera fulljóst hvernig staðið var að vali á söluaðila þá spyr hann sérstaklega um það atriði með upphrópunum um öskutunnur og reykfyllt bakherbergi. Þó var Arnari, eins og öðrum fasteignasölum á Akureyri, boðið að svara verðfyrirspurn sem umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar sendi út 16. febrúar sl. og það er skjalfest að tilboð barst frá Fasteignasölu Akureyrar sem er í eigu Arnars Guðmundssonar.

Auk Fasteignasölu Akureyrar svöruðu Byggð fasteignasala, Eignaver fasteignasala, Hvammur fasteignasala og Kasa fasteignir verðfyrirspurninni. Sú fasteignasala sem skilaði inn tilboði um lægstu söluþóknun var Byggð fasteignasala og því tilboði var þar af leiðandi tekið enda er það hlutverk bæjaryfirvalda að gæta hagsmuna almennings og fara vel með almannafé.

Stjórnsýsla Akureyrarbæjar er og skal vera opin og gagnsæ. Við leggjum höfuðáherslu á að gæta jafnræðis og fylgjum að sjálfsögðu lögum og reglum í þessum efnum sem öðrum.

Það er hluti af góðri og gegnsærri stjórnsýslu að gera verðfyrirspurnir og leita tilboða. Aðrar leiðir eru að sjálfsögðu færar, eins og Arnar bendir raunar á, en þessi leið varð fyrir valinu í þetta skiptið og hér sátu allir við sama borð.

Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri

Rætur Verkmenntaskólans á Akureyri

Bernharð Haraldsson skrifar
24. september 2023 | kl. 22:00

Vanþekking

Eymundur Eymundsson skrifar
22. september 2023 | kl. 09:30

Stofnun kjarahóps eldri borgara á Akureyri

Björn Snæbjörnsson skrifar
21. september 2023 | kl. 13:00

Sveltur til sameiningar?

Hálfdán Örnólfsson skrifar
21. september 2023 | kl. 12:45

Skóli og Samfélag – Stormasamir dagar í danska bænum

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
19. september 2023 | kl. 15:55

Að upphefja raddir sjúklinga

Málfríður Þórðardóttir skrifar
17. september 2023 | kl. 06:00