Fara í efni
Umræðan

Stækkum Skógarlund!

Í Skógarlundi á Akureyri rekur Akureyrarbær vinnustað þar sem veitt er þjónusta til fólks með langvarandi stuðningsþarfir skv. lögum nr. 38/2018. Fullorðnir einstaklingar stunda virkni og vinnu á skilgreindum vinnusvæðum ásamt því að stutt er við ýmsa félagslega þætti, umönnun og afþreyingu. Einnig er framleidd í Skógarlundi listræn gjafavara af ýmsu tagi.

Hópurinn sem kemur í Skógarlund er mjög fjölbreyttur, stuðningsþarfir margvíslegar og því er starfið í sífelldri þróun.

Húsnæði Skógarlundar var tekið í notkun árið 1996. Starfsemin fluttist þá frá Sólborg en þar hafði hún hafist árið 1992.

Skógarlundur er í dag um 550 fm að stærð og hefur staðið óbreytt frá þessum fyrstu árum. Nú er staðan hins vegar sú að bæði er biðlisti eftir þjónustu og sum sem sækja Skógarlund ná ekki fullum þjónustutíma. Viðmið um þjónustutíma eru 4 klst. á dag. Til að geta veitt þá lágmarksþjónustu sem skilgreind er í lögum, ásamt því að mæta mjög ólíkum þörfum, er bráðnauðsynlegt að byggja við húsnæði Skógarlundar. Lóðaplássið er til staðar og hugmyndir að stækkun hafa oft verið viðraðar áður.

Nú er ekki hægt að fresta þeim áformum mikið lengur.

Ýmis jákvæð samlegðaráhrif verða við stækkun. Fækkun verður á biðlista, hægt verður að veita betri þjónustu til fólks sem notar hjólastóla og önnur hjálpartæki, t.d. til vinnu og virkni. Eins verður hægt að nýta plássið fyrir þá sem nú þegar eru í þjónustu í Skógarlundi og þurfa aukna fjölbreytni eða tilbreytingu í virkni eða vinnu. Eins er líklegt að hægt verði að taka inn einstaklinga, á Plastiðjunni Bjargi Iðjulundi, með minnkandi vinnugetu og fækka á biðlistum þar.

Ég óska þess að Akureyrarbær standi sem allra best að þjónustu við fatlað fólk. Faglegt starf og húsnæði við hæfi spilar þar lykilhlutverk.

Hefjum því undirbúning að stækkun Skógarlundar sem allra fyrst.

Elsa María Guðmundsdóttir situr í velferðarráði Akureyrarbæjar fyrir hönd Samfylkingarinnar

Stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi: alvarlegt og vaxandi samfélagsmein

Tryggvi Hallgrímsson skrifar
06. desember 2025 | kl. 11:00

Opið bréf til stjórnvalda

Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og aðrir starfsmenn lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri skrifa
03. desember 2025 | kl. 10:00

Fundur á Akureyri um hættulega úrelta stjórnarskrá Íslands

Hjörtur Hjartarson og Katrín Oddsdóttir skrifa
28. nóvember 2025 | kl. 18:00

Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur

Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar
27. nóvember 2025 | kl. 10:30

Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 17:30

Eflum SAk

Ingvar Þóroddsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 15:10