Fara í efni
Umræðan

Símafriður í grunnskólum – Eigum við að taka skrefið?

Truflun eða tækifæri? Þessi spurning er ekki ný af nálinni. Snjalltækin bjóða sannarlega upp á ýmsar nýjungar í skólastarfi og geta verið gagnleg verkfæri fyrir bæði nemendur og kennara. Það er mikilvægt að skólarnir haldi áfram að finna fjölbreyttar leiðir til að vinna með stafræna miðlun í sínu starfi, enda tæknin hluti af hinu hversdagslega lífi eins og við þekkjum það í dag. En hvort síminn sé heppilegur félagi til að fylgja börnunum okkar í gegnum skóladaginn, það er svo aftur annað mál og kannski ekki eins einfalt? Síðustu mánuði hefur mikið verið rætt hvaða áhrif snjalltækin eru að hafa á börnin, einkum í ljósi nýlegrar menntamálaskýrslu UNESCO þar sem varað er við því að símanotkun barna í skólum geti aukið lærdómserfiðleika, einelti og almenna vanlíðan. Hér þarf að finna skynsamlegt jafnvægi með það fyrir augum að skapa heilbrigt umhverfi fyrir börn og unglinga.

Ákall um samræmdar reglur 

Í nýrri könnun sem fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar stóð fyrir kom fram skýr vilji foreldra, nemenda og starfsmanna til að samræma símareglur í grunnskólum bæjarins. Það eitt sýnir best mikilvægi þess að skapa samstöðu og samhljóm, rétt eins og við sem samfélag höfum gert varðandi útivist barna og unglinga á kvöldin. Samræmdar reglur eru ekki aðeins skýrari og einfaldari, heldur sanngjarnari gagnvart ungmennunum okkar og á endanum auðveldari í eftirfylgni fyrir bæði foreldra og starfsmenn. Hvað þetta varðar er afstaðan skýr en að sjálfsögðu flækjast málin aðeins þegar spurt er hvernig slíkar reglur eiga að vera úr garði gerðar. Meirihluti foreldra og starfsmanna vill sjá símalausa skóla, ekki bara í kennslustundum heldur einnig í frímínútum og matmálstímum. Mjög skiptar skoðar eru meðal nemenda og líklega þarf engan að undra að margir nemendur vilja ekki sjá auknar takmarkanir á notkun síma í skólum. Það er þó áberandi í svörum nemenda að þeir sjá ýmsar neikvæðar hliðar líka á aukinni símanotkun. Hvaða reglur myndu unglingarnir setja yngri deildum, ef þeim væri falið að semja fyrirmyndarreglur með velferð nemenda í huga?

Tökum samtalið

Að störfum er starfshópur sem hefur það hlutverk að rýna niðurstöður úr könnun fræðslu- og lýðheilsusviðs og koma með tillögur um framhaldið. Hópurinn er samsettur af einum fulltrúa úr meirihluta fræðslu- og lýðheilsuráðs, einum úr minnihluta, einum kennara, einum skólastjórnanda, fulltrúa foreldra grunnskólabarna og fulltrúa ungmennaráðs. Þetta er breiður hópur en samtalið um notkun síma í skólum þarf líka að vera vítt og breitt. Sem fulltrúar bæði meiri- og minnihluta í fræðslu- og lýðheilsuráði viljum við hvetja alla nemendur, foreldra og starfsmenn til að taka þátt í umræðunni og láta í sér heyra. Málefni unga fólksins eru enda mikilvægustu mál hvers samfélags.

Heimir Örn Árnason er formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar.

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00

Akureyrarbær gerir vel við barnafólk og tekjulágar fjölskyldur

Heimir Örn Árnason, Hlynur Jóhannsson og Hulda Elma Eysteinsdóttir skrifa
28. ágúst 2024 | kl. 14:38

Viltu úthluta milljarði?

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 12:12

Tugir milljarða evra til Pútíns

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
23. ágúst 2024 | kl. 16:00