Fara í efni
Umræðan

Sex gjaldfrjálsir klukkutímar og tekjutenging

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt nýja gjaldskrá fyrir leikskóla bæjarins sem felur í sér 6 gjaldfrjálsa klukkutíma og tekjutengingu.

Meirihlutinn í bæjarstjórn hefur lagt mikla áherslu á að koma til móts við barnafólk með því að auka stoðþjónustu við þau börn sem á þurfa að halda og að fjölga leikskólaplássum, þannig tókst okkur að koma inn öllum þeim 12 mánaða börnum, þ.e. fæddum frá janúar til lok ágúst 2022, sem sótt var um pláss fyrir nú í haust. En áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru ekki einungis að fjölga plássum, þær eru ekki síður að skapa eftirsóknarvert vinnuumhverfi fyrir starfsfólk og börn. Í því skyni meðal annars var farið í að skoða hvort það að bjóða upp á gjaldfrjálsa 6 tíma í leikskólum gæti orðið til þess að draga úr ásókn í 8 - 8,5 tíma dvöl í leikskólum og þannig auðvelda samfélaginu að koma til móts við ákvæði kjarasamninga s.s vinnustyttingu og undirbúning leikskólakennara ásamt því að skapa rými fyrir þau börn sem þurfa á fullri leikskóladvöl að halda.

Þetta fyrirkomulag kemur þeim sem minnst hafa á milli handanna best, þar sem að það sem eftir stendur af leikskólagjöldum verður tekjutengt. Við vonumst til þess að hlutfall þeirra sem velja 6 tíma vistun fari úr 3% af heildarfjöldanum upp í 10-15% eins og hefur gerst í Kópavogsbæ.

Við vitum að þetta fyrirkomulag mun ekki henta öllum fjölskyldum en við gerum okkur vonir um að þetta komi sér annaðhvort vel fyrir fólk eða í versta falli breyti litlu sem engu. Það er ekki verið að krefjast þess að vistunartíma sé breytt heldur erum við að vonast til að fjölskyldur kanni með opnum huga hvort breyting á kerfinu/gjöldum geti leitt til breyttrar notkunar.

Aðstæður geta verið mismunandi milli mánaða/ára hjá fjölskyldum og geta t.d foreldrar bæði feður og mæður í fæðingarorlofi sparað sér allt að 34.952 kr á mánuði með því að nýta leikskólatímann frá kl. 8-14 meðan á fæðingarorlofi stendur. Sama á við um þá foreldra sem eru atvinnulausir, öryrkjar eða í námi. Gjaldskrárkerfið býður upp á sveigjanleika og geta foreldrar breytt leikskólatíma barna sinna mánaðarlega. Fresturinn til að gera breytingar er til tuttugasta hvers mánaðar fyrir komandi mánuð. Þetta fyrirkomulag getur komið sér vel fyrir foreldra t.d. í vaktavinnu og eða með breytilegan vinnutíma.

Ég hef lengi verið hugsi yfir því hvernig hægt væri að umgangast leikskólakerfið okkar betur og er ég ein af þeim sem hefði getað skráð börnin mín í færri tíma en ég í raun gerði og þannig stytt viðveru barna minna í leikskóla.

Ég geri mér því vonir um að þetta breytta fyrirkomulagi leiði til þess að við náum að sinna þörfinni fyrir leikskólaplássi enn betur en við gerum í dag.

Í dag eru foreldrar að greiða um 9% af leikskólagjöldum þ.e. heildarkostnaðinum við að starfrækja leikskólana og bærinn eða skattgreiðendur eru því að greiða um 91% af rekstrarkostnaði leikskóla. Okkur ber þess vegna að sjá til þess að rekstur leikskólanna sé skilvirkur og að tími starfsfólks sé nýttur skynsamlega.

En eins og sést á töflunni hér þá er um raunlækkun að ræða hjá öllum þeim sem nýta sér styttri vistun en 8 klukkustundir en um 5% hækkun hjá þeim sem nýta sér 8 klukkustundir sem er minna en almennar verðlagshækkanir og 13% hækkun fyrir þá sem nýta sér 8 og ½ klukkustund sem er aðeins meira en almenn verðlagshækkun. Þarna á svo eftir að taka tekjutengingu inn í.

Hér á eftir að taka inn í svokallaða skráningardaga sem settir voru á núna 1. október. Greiða þarf sérstaklega fyrir þá en leikskólagjöld lækkuðu einmitt sem þeim munaði á sama tíma. Þeir dagar eru 20 á ári og eru í tengslum við jólafrí, páskafrí og frídaga í grunnskólum bæjarins en þessir dagar verða einnig tekjutengdir.

Við höfum einsett okkur að vakta innleiðinguna vel og bregðast við ef einhverjir vankantar koma upp svo sem varðandi skólatíma barna eða tekjuviðmið. Þetta er tilraunaverkefni til eins árs og verður fróðlegt að sjá hvert þessi ákvörðun leiðir okkur.

Hulda Elma Eysteinsdóttir er bæjarfulltrúi og oddviti L-listans

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15