Fara í efni
Umræðan

Raunfærnimat er öflugt tæki

Á hverjum einasta degi safnar fólk í sarpinn fjölbreyttri reynslu, hvort sem er í fjölskyldulífi, daglegum störfum, tómstundum eða námi, formlegu og óformlegu. Samanlögð reynsla fólks er raunfærni.

Mat á raunfærni eða raunfærnimat, eins og það er oftast kallað, hefur verið þróað víða um heim á síðustu áratugum. Þetta var fyrst reynt í Bandaríkjunum en síðan var raunfærnimat tekið upp í Evrópulöndum, þar á meðal hér á landi. Að meta raunfærni fólks hefur verið þekkt á Íslandi í hartnær aldarfjórðung og hefur reynsla af því verið mjög góð. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar – SÍMEY hefur lengi raunfærnimetið fólk í ýmsum starfsgreinum, að jafnaði um fimmtíu manns á ári, sem hefur gefist afar vel.

Þess eru mörg dæmi að fólk starfi árum saman innan sömu atvinnugreinar án þess að hafa lokið fagnámi í viðkomandi starfsgrein. Reynslan og þekkingin sem fólk aflar sér í gegnum árin og býr yfir er afar dýrmæt. Fyrir það fólk sem hefur lengi verið á vinnumarkaði en kýs á einhverjum tímapunkti að sækja sér formlega menntun og fá staðfesta þekkingu sína og hæfni í viðkomandi starfi er raunfærnimat afar öflugt tæki. Ekki aðeins styttir það leið fólks að settu marki heldur veitir það því mikið sjálfstraust til þess að takast á við nýjar áskoranir í námi eða varðandi framgang í starfi.

Fræðslusjóður greiðir kostnað við raunfærnimat fyrir þá þátttakendur sem hafa ekki lokið formlegu námi (t.d. stúdentsprófi) en þeir sem hafa lokið formlegu námi geta fengið raunfærnimat niðurgreitt frá stéttarfélögum og/eða starfsmenntunarsjóðum. Til þess að fara í raunfærnimat þarf fólk að vera að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafa að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Við í SÍMEY viljum endilega fá sem flesta í raunfærnimat. Reynsla okkar er sú að það komi fólki á óvart hversu mikið raunfærnimatið gefur því. Þrátt fyrir að raunfærnimat hafi lengi verið í boði hér á landi er fjarri því að allir átti sig á þeim möguleika að fá reynslu og þekkingu sína metna til styttingar í námi.

IÐAN hefur á sinni könnu raunfærnimat í iðngreinum en SÍMEY hefur aðstoðað fólk hér á svæðinu í þessum greinum og vísað því veginn. Í mörgum öðrum atvinnugreinum býður SÍMEY upp á raunfærnimat frá grunni. Sem dæmi má nefna fólk sem hefur lengi starfað á leikskólum en hefur hug á leikskólaliðanámi, fólk í umönnunarstörfum sem vill auka þekkingu sína með því að fara í sjúkraliðanám og fólk sem hefur lengi verið í störfum stuðningsfulltrúa eða félagsliða. Við höfum líka raunfærnimetið fólk sem hefur starfað í mötuneytum en hefur hug á matartækninámi og það sama má t.d. segja um starfsfólk íþróttamannvirkja. Og svo mætti lengi telja.

Reynsla okkar er sú að raunfærnimatið styttir leið fólks mjög að settu marki og styttingin er oft og tíðum miklu meiri en það gerir sér grein fyrir. Það kemur því fólki nær undantekningalaust mjög á óvart hvaða gagn það hefur af því að fara í raunfærnimat og hversu einfalt og skilvirkt tæki það í raun er.

Við beinum því til fólks að gefa þessum möguleika gaum og gildir þá einu í hvaða starfsgrein það starfar. Fyrsta skrefið er einfaldlega að hafa samband við okkur. Við göngum síðan í málin.

Helena Sif Guðmundsdóttir er náms- og starfsráðgjafi/verkefnastjóri í SÍMEY

Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi

Benedikt Sigurðarson skrifar
12. desember 2025 | kl. 08:00

Innflytjendur, samningar og staðreyndir

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 06:00

Húsnæðisbóla

Benedikt Sigurðarson skrifar
11. desember 2025 | kl. 10:00

Eftir Hrun

Benedikt Sigurðarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 13:00

Heimili er ekki „fjárfestingarvara“

Benedikt Sigurðarson skrifar
09. desember 2025 | kl. 13:00

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. desember 2025 | kl. 17:30