Fara í efni
Umræðan

Opið bréf til oddvita Framsóknar

  • Sunna Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar í bæjarstjórn Akureyrar, telur Landsnet hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að ekki sé tæknilega hægt að leggja Blöndulínu 3 í jarðstreng innan bæjarmarka Akureyrar að svo stöddu. Ekki megi tefja málið lengur; viðræðurnar við Landsnet eigi að snúast um að hefja nú þegar undirbúning að lagningu línunnar sem loftlínu. „Þannig að þegar forsendur breytast þá muni þeir færa línuna í streng innan þéttbýlismarka Akureyrarbæjar,“ sagði hún við RÚV í síðustu viku.

     _ _ _

Ágæta Sunna,

Mér þótti miður að frétta af breyttum viðhorfum Framsóknar til jarðstrengs í Blöndulínu 3 norðan Rangárvalla. Tel að mörg svör vanti enn frá Landsneti varðandi áhrif línunnar, sem Akureyrarbær þarf að kalla eftir áður en grænt ljós er gefið á valkost innan bæjarmarka.

Langt er í að töf verði á nauðsynlegri framvindu heildarverkefnisins.

Upplýst umræða reyndist farsæl við framvindu Hólasandslínu 3, þar sem heimamenn tóku virkan þátt í samtali um lausnir, og stóðu þétt saman. Nú virðist höggvið á þann þráð og kallað eftir grófustu lausn, áður en fullnægjandi svör liggja fyrir í þágu öryggis íbúa.

Tel þetta sorglegt og ótímabært frumhlaup sem jafnvel gæti flækt að nauðsynjalausu umræðu um aðalskipulagsbreytingu. Mörgum spurningum er t.d. ósvarað um landnýtingu og skipulagsmál vestan Móahverfis. Breytt lega línunnar innan þéttbýlismarka var kynnt fyrir fáum vikum og hefur enga umfjöllun hlotið.

Aðalskipulag rennur út 2030, en endingartími línunnar nær fram á næstu öld.

Þessi sjónarmið legg ég fram sem bæjarbúi sem vill EKKI tefja framvindu verkefnisins, en jafnframt leita metnaðarfullra leiða fyrir orkuflutninga, sem standast til framtíðar. Þar verður að horfa til ólíkra áhrifa loftlína og jarðstrengs við þéttbýli, ekki síst á svo hárri spennu sem hér um ræðir.

Í því samhengi má deila þrennum skjölum sem snerta málið:

a) Samskipti Hafnarfjarðar við Landsnet um niðurrif háspennulína við Vallahverfi hafa verið þyrnum stráður vegur og reynst samfélaginu dýrkeypt. Vendingar síðustu vikna sýna að rífa eigi 7 ára gamlar línur og leggja þar 220 kV jarðstrengi á nokkurra kílómetra kafla vegna þróunar þéttbýlis.

Er þetta framvinda sem Framsókn telur vænlega fyrir Akureyringa?

b) Bréf forstjóra Landsnets til Garðabæjar vegna kostnaðar við breytingu á loftlínu í jarðstreng. Veltu fyrir þér kostnaðarmun fyrir Akureyri, annars vegar að leggja jarðstreng strax, þar sem stefna stjórnvalda vegna þéttbýlis gildir. Hinsvegar seinna þar sem reglur Landsnets um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga gilda. Þar munar verulegum fjárhæðum sem lenda munu á íbúum Akureyrar.

c) Grein úr breska læknatímaritinu Lancet, með tilvísun í ritrýnda grein í British Medical Journal frá rannsóknarteymi við Oxford háskóla. Þar kemur fram aukin áhætta á hvítblæði í börnum vegna búsetu nálægt háspennulínum.

Landsnet fjallar ágætlega um áhrif rafsegulsviðs í umhverfisskýrslu Blöndulínu 3. Hinsvegar bendir breska greinin á að niðurstöður rannsóknarinnar virðast ekki tengjast rafsegulsviði. Þarna skuldar Landsnet svör í þágu ungra íbúa norðan Rangárvalla, þannig að ljóst sé að besta lausn hafi verið valin.

Taka þarf fram að áhrif frá jarðstreng ná eingöngu til rafsegulsviðs í þröngum púlsi ofan strenglagnar. Áhrif loftlínu ná hinsvegar til fleiri sviða og yfir mun breiðara svæði.

Meðal annars þess vegna eru jarðstrengir fyrsti valkostur og nútímalausn við þéttbýli víðast um lönd sem Ísland miðar sig við.

Slík lausn er auk þess í fullu samræmi við skýrt markaða stefnu Alþingis um raflínur í skilgreindu þéttbýli, sem Landsnet virðist skeyta lítt um og vill helst ekki ræða. Þeir hagsmunir hafa verið sérstakt áherslumál Akureyrarbæjar vegna landþrengsla, allt frá 2015 þegar stefna stjórnvalda um raflínur var fyrst mótuð.

Því var sérlega sárt að fá atlögu að eðlilegri framvindu málsins úr heimabyggð.

Vonandi næst þó samstaða um metnaðarfulla lausn, sem tryggir hagsmuni íbúa, en jafnframt örugga orkuflutninga fyrir samfélagið allt.

Er ekki bara best að leggja jarðstreng?

Með vinsemd og virðingu,

Víðir Gíslason er Akureyringur

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00