Fara í efni
Umræðan

Ómenning í fjallinu

Í ár eru 50 ár síðan ég fór fyrst á skíði í Hlíðarfjalli og síðan hefur fjallið verið einn uppáhaldsstaðurinn minn. Óteljandi eru stundirnar sem ég hef notið þess að renna mér í tæru fjallaloftinu með útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörðinn, hitta fólk og njóta þess að slaka á.

Á dögunum brugðum við hjónin okkur norður yfir helgi og fórum á skíði á laugardeginum við nánast fullkomnar aðstæður, vægt frost, sól og logn. Færið eins og best verður á kosið og loksins fengum við að prófa nýju stólalyftuna sem búið var að bíða eftir árum saman. Sem sé dásamlegur dagur á skíðum.

Nema hvað þegar við, eftir ríflega klukkutíma skíðun, ákváðum að hvíla okkur á pallinum við Strýtuna, brá okkur nokkuð þegar við sáum fjölda fólks sitja að áfengisdrykkju í hádeginu. Ýmist með bjór eða freyðivín í glösum. Þarna sat fólk með börnum sínum og jafnvel barnabörnum og teygaði mjöðinn af miklum móð. Þrír ungir menn virtust ætla að eiga langan laugardag, því þeir voru komnir í gírinn, höfðu hátt, reyktu og drukku hratt. Gutti, 10 til 12 ára, kom út úr skálanum með bjórglas í annarri hendi og vatnsglas í hinni, auðsjáanlega sendur til að sækja bjór fyrir einhvern. Maður hafði á tilfinningunni að maður væri mættur á barinn en ekki í fjallið, að viðbættum börnum.

Nú skal tekið fram að ég er enginn bindindismaður eins og þeir vita sem þekkja mig, en ég er hinsvegar á því að flest eigi sinn stað og sína stund. Það á ekki við um áfengisdrykkju á skíðasvæði snemma dags. Hvað þá innan um börn og unglinga sem eru þarna til að njóta heilnæmrar útiveru. Löngum hefur verið talið að útivera og íþróttir séu lykilatriði í að koma í veg fyrir áfengisneyslu ungmenna. Viljum við senda þeim þau skilaboð að skíði og áfengi eigi samleið?

Ekki tökum við börnin með okkur á barinn, en hver er munurinn á því og að fara með þau í fjallið þegar þessi bragur er á staðnum?

Sú var tíðin að flestir voru með kakó og samlokur í nesti, en nú þykir það líklega ekki nógu fínt. Enga sáum við með slíkar veitingar, í staðinn sat fólk að sumbli. Einhverra vegna ákváðu rekstaraðilar í Hlíðarfjalli að selja áfengi og þar með að normalísera áfengisdrykkju í útivistarparadís. En svona er þetta í Ölpunum segja ölþyrstir, þetta er menning. Er það virkilega? Er það menning að blanda saman íþróttaiðkun og áfengisdrykkju?

Það má reyndar benda á að hið fræga après ski er annars eðlis, því après er franska og þýðir eftir. Sem sé eftir skíðun. En drykkja í fjallinu á að mínu mati ekkert skylt við menningu, heldur er ómenning. Sem betur fer hafa staðarhaldarar í Bláfjöllum ekki elt Akureyringa í þessari vitleysu og þar sitja fjölskyldur enn saman með kakóið sitt og samlokurnar. Ég vona að svo verði áfram.

Adolf Ingi Erlingsson er brottfluttur skíðamaður

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 14:15

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 12:00

Brautin rudd fyrir nýtingu glatvarma

Ottó Elíasson og Ásthildur Sturludóttir skrifa
25. ágúst 2025 | kl. 10:10

Meira fyrir minna

Sigurjón Þórðarson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 14:00

Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Rúnar Sigþórsson skrifar
07. ágúst 2025 | kl. 11:00

Væri ekki hlaupið út aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. ágúst 2025 | kl. 19:00