Fara í efni
Umræðan

Montrassar og gufuskip

Nú eru Akureyringar og aðrir veðurmontnir Norðlendingar búnir að gleyma því hvað júní var einstaklega sólríkur og hlýr af því að júlí er búinn að vera heldur slakur, norðan þræsingur dag eftir dag og hitinn oft undir tveggja stafa tölunni góðu. Svo kemur ágúst, væntanlega funheitur og lokkandi með sínu mjúka myrkri og þá gleymum við samstundis hvað júlí var ömurlegur og tölum fjálglega um besta sumar í manna minnum. En þá er september eftir. Hann jafnast gjarnan á við sumarmánuð en gæti sett strik í reikninginn ef hann verður hryssingslegur og þá fara menn aftur að bölsótast yfir sumrinu sem aldrei kom og gárungarnir syngja „þegar safnast saman var/ sumarkvöldin fjögur“ til að leggja áherslu á fáfengilegheitin.

Annars er margt fleira merkilegt við sumarið sem senn er hálfnað. Svo virðist sem skipafélög úti í hinum stóra heimi hafi dregið upp úr hattinum gamla tækni við að knýja skip og tefli nú aðallega fram gufuskipum til skemmtiferða. Grínast? Nei, öðru nær. Skipin hafa í hundruðatali lagst við bryggju á Akureyri og reykurinn frá þeim myndað þykkan mökk sem breiðst hefur yfir blómlegar sveitir Eyjafjarðar. Þegar bændur og búalið hafa fitjað upp á nefið stendur ekki svörum. „Olíubruni? Mengun? Nei, nei, þér fáfróðu sveitamenn. Þetta er bara gufa, hrein vatnsgufa.“

Auðvitað gleyptum við þetta hrátt og héldum áfram að fjasa um veðrið. Einhverjir gerðu athugasemdir um hvað gufan væri blá en sennilega er það bara í fjarska eins og fjöllin. Sumir voru farnir að spá í hvaða orka væri notuð til að kynda alla þessa gufu en voru of uppteknir af því hvað vatnsgufa er heilnæm til að leiða þessa hugsun lengra. Við vitum líka að „sælir eru einfaldir“ og fáfræði er viss dyggð í dag og hlífir okkur við bévítans upplýsingaflæðinu sem ætlar okkur lifandi að drepa og hefur bara í för með sér niðurbrot og svartsýni.

Þrátt fyrir hrollkaldan júlímánuð hér á Akureyri er maður ákafalega þakklátur og feginn að þurfa ekki að vera á ferð um Suður-Evrópu eða suðvesturhluta Bandaríkjanna, hvað þá í Kína. Öðruvísi mér áður brá. Við sækjum gjarnan í sólina á Spáni og Ítalíu en öllu má nú ofgera og sérstaklega hitanum. Mun erfiðara að kæla sig í 40 stiga hita en að klæða af sér kuldann í 6 stigunum á Raufarhöfn. Sá sem hefur upplifað 42 stig í París og hryglurnar í þeim þúsundum sem dóu í þeirri hitabylgju fer glaður til Bakkafjarðar þegar spáin er hvað verst þar.

Þetta leiðir hugann aftur að þeim óskapnaði sem íslensk ferðaþjónusta er að verða. Við flytjum inn takmarkalaust magn af erlendum ferðamönnum og sömuleiðis erlent vinnuafl til að sinna þessum erlendu gestum okkar sem gista svo jafnvel á erlendum hótelkeðjum. Innlendur hagur verður þá kannski svipaður og í laxeldinu eða álverinu. Úps, nú er ég kominn á hálan ís og spóla til baka. Enga neikvæðni eða leiðindi hér. Hins vegar mætti reyna að stýra straumnum betur og beina fleirum norður og raunar víðar um landið en frá Reykjavík austur að Jökulsárlóni.

Er ekki annars dæmigert að þegar erlendum ferðamönnum fjölgar hér þá bölvum við í sand og ösku og flýjum til útlanda undan þessum „vitleysingum sem kunna ekki að keyra“. Sumir (æ, ég ætti víst að segja sum) ganga jafnvel svo langt að agnúast út í fjölda innflytjenda og segja ekki þverfótað hér fyrir útlendingum sem tali bara hrognamál. Þeir hinir sömu hóta að flytja til Færeyja, Noregs eða Tenerife. Akkúrat. Íslendingar halda að þeir séu alls staðar aufúsugestir en telja sjálfa sig of merkilega til að búa meðal innflytjenda. Svo stofnum við Íslendingabyggðir og Íslendinganýlendur á Spáni og flytjum með okkur súra hrútspunga, hangikjöt og hákarl og tölum okkar tungumál og prísum okkar siði en á sama tíma formælum við innflytjendum á Íslandi sem ekki tala íslensku eftir vikudvöl hér og skirrast við að taka upp íslensku eigingirnina og „þetta reddast“-stefnuna.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá kemst ég nánast alltaf að sömu niðurstöðu í þessum pistlum mínum. Okkur Íslendingum er ætlað eitthvað æðra og meira hlutverk í lífinu en að sýna umburðarlyndi, víðsýni, óeigingirni, háttvísi, aga, reglusemi, jafnrétti, fordómaleysi, æðruleysi og samvinnu. Við erum komin af norrænum höfðingjum, við erum sérstök þjóð og flestum fremri, höfum hér í krafti einstaklingsframtaks og frændsemi sölsað undir okkur eignir í aldanna rás og lagt metnað og dug í það að skara eld að eigin köku. Við höfum andúð á meðalmennsku, afætum og amlóðahætti og viljum helst sitja einir að okkar eignum, landi, tungu og kvenfólki – því vér erum jú íslenskir karlmenn og þér skulið eigi aðra karlmenn hafa og hana nú!

Stefán Þór Sæmundsson er norðlenskur karlmaður og kennari í þokkabót

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03

Við erum sterk og viljum berjast fyrir okkar málstað

Björn Snæbjörnsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 15:45