Fara í efni
Umræðan

Meira um brjóst og rassa

„Hvar er huns-takkinn“ spurði vinur minn sem kom af Fjöllum. Hann hafði búið í helli, hjólhýsi og á ýmsum afskekktum stöðum síðustu fimmtán árin. Eitthvað var hann inni á geðdeild í kringum hrun og raunar alltaf dálítið utangarðs en nú var hann sumsé mættur í heimsókn – með gistingu og morgunmat um óákveðinn tíma. Kornflögur með rúsínum og nýmjólk, danskur Andrés (sem mér tókst að finna niðri í kjallara) á kantinum og Lipton‘s te á eftir með Jacob‘s tekexi og rifsberjahlaupi. Kominn á kaf í tölvuheiminn og upplýsingatæknina strax á öðrum degi.

„Tja, nú veit ég ekki,“ muldraði ég örlítið áttavilltur og skoðaði netmiðlana með honum.

„Jú, sko, það er ekki sanngjarnt að troða þessu heilaskemmandi bulli upp á mann,“ sagði Karl af Fjöllum, dulítið æstur. „Maður getur sett á þetta þumalputta eða einhver andlit og jafnvel sent efnið áfram til vina sinna en ekki hunsað það eða þurrkað út. Hvar er valfrelsið sem mér skilst að sé svo lofað og prísað í dag?“

Aldrei hafði ég leitt hugann að þessu.

Huns?

Þarf virkilega geðveikan utangarðsmann til að benda á þetta misræmi í fjölmiðlum nútímans, að maður geti hvorki verndað sjálfan sig né aðra fyrir mannskemmandi slúðri, smjatti, öfund, naggi, bulli, áróðri, auglýsingum og pípandi drullu?

Nema loka og læsa. Úps, forsjárhyggja, miðstýring, fasismi, höft.

Nei, ég vil fá fréttir og upplýsingar um það sem er að gerast í þjóðfélaginu en eins og Kalli bendir réttilega á mætti maður alveg eiga undankomuleið frá sullumbullinu sem oftast er í forgrunni eins og mygluskán á mjúkum osti. „Frægir fjölga sér.“ „Laglegar á lausu.“ „Flottasta villan.“ „Fáklædd á ströndinni.“ „Sturlaðar ídýfur.“ „Truflað kartöflusalat.“ „Simmi Vill eða Sunneva… segir eitthvað,“ eða hvernig þetta hljómar allt í Smjattlandinu góða þar sem brjóst, rassar, ríkidæmi og stjörnur svífa yfir vötnum.

Akkúrat. Ruglið ríður ekki við einteyming og það er engin undankomuleið. Það er satt sem Kalli segir. Hvers vegna er ekki hægt að hunsa, eyða, blokka, útiloka, sprengja í loft upp með púff-tjákni? Við getum keypt okkur frá auglýsingum á Spotify og YouTube með áskrift og ég væri svo sannarlega til í það að borga mig frá Smjattlöndum allra fjölmiðla og auglýsingafarganinu eins og það leggur sig.

Eða einfaldlega eiga val.

Hver kannast ekki við það að skruna gegnum fréttamiðlana á netinu og hina svokölluðu samskiptamiðla eða horfa á sjónvarpið og bölsótast yfir auglýsingum og drasli sem virðist aðeins framreitt til að gera örfá ríka en restina geðveika? Kommon, brjóst og rass eru bara fituvefir, stór einbýlishús eru dýr í viðhaldi, snyrtivörur eru flestar óþarfar og hverjum kemur það við hvað hinir og þessi eru að bardúsa í lífinu ef það hefur ekki upplýsinga- eða fordæmisgildi? „Frægir fjölga sér,“ – my ass!

Enn og aftur verð ég að spyrja eins og fávís kona (þetta er bókmenntaleg vísun, ekki fordómar í garð kvenna), hvers vegna er sífellt verið að hampa þeim sem eru með húðflúr, djamma mikið, sofa hjá mörgum, búa í dýru húsnæði, nota fylliefni í varir og brjóst, mála sig gríðarlega mikið, blaðra á samskiptamiðlum, troða púðum í rassinn eða eru í einhvers konar ótilgreindum viðskiptum; svokallaðir athafnamenn og áhrifavaldar?

Já, Kalli minn, karlinn minn. Þetta er ótrúlegt kjaftæði og það er rétt hugsað hjá þér að maður ætti að geta notað hunstakka eða „del“ til að losna við ósómann þegar maður er að reyna að afla sér upplýsinga á netinu. Jafnvel ættu netmiðlar að ritstýra sér betur. Sennilega er þetta í raun mannskemmandi, elur á öfund, minnimáttarkennd, brotinni sjálfsmynd og brenglaðri sýn á verðmæti lífsins. Að kaupa hamingjuna með varafyllingu, búbblum og brjáluðu djammi og hlutgera allt og verðmeta í stað þess að lifa og njóta.

Vissulega er ég sammála Kristínu Aðalsteins og fjölmörgum konum og fáeinum körlum að maður eigi að vera jákvæður og líta lífið björtum augum, ekki velta sér upp úr nöldri og neikvæðni. Í grunninn er ég glettinn og hef gaman af því að leika mér með orð og aðstæður en fyrir gamlan blaðamann og íslenskukennara er oft áhlaupaverk að tæma mælinn því hann verður svo oft fullur.

Um daginn flóði út úr. Vinsælasta fréttin á ónefndum vefmiðli var um rúmlega tvítuga stúlkukind sem lét stækka á sér brjóstin og dillaði þeim svo fyrir framan tölvuna og fékk milljón eða meira frá einhverjum dónaköllum, ef marka má fréttina. Afskaplega þarfar upplýsingar. Frábær fyrirmynd. Yfirvegað fréttamat. - Nei, þarna var beinlínis verið að vega að öllu því sem felst í heilbrigðu uppeldi og mannlegri skynsemi, þarna var verið að hvetja unglingsstúlkur til að fá sér stórvarasama sílikonpúða í brjóstin og bera sig svo fyrir framan tölvuna og græða peninga. Hvaða ár er núna, hvað hefur áunnist?

Kalli á Fjöllum segir að nútíminn sé trunta með tóman grautarhaus. Held að hann hafi stolið þessum frasa. Reyndar erum við komnir langt niður í Stolichnaya vodkaflöskuna og hugsum ekki skýrt lengur en mér finnst samt að hann sjái samfélagið skýrar en við sem höfum þó lifað í því undanfarna áratugi og tekið þátt í hasarnum. Kannski er vonlaust að vera vímulaus í þessu samfélagi. Jæja, það er svo annað mál og efni í annan pistil.

Það síðasta sem ég man að Kalli sagði áður en ég lognaðist út af var að hann furðaði sig á því hvers vegna þessi menntaða og vísa þjóð ætti ekki sinn eigin samskiptamiðil og raunverulega fréttamiðla, af hverju bara amerískt auglýsingadrasl og hvers vegna væri ekki hægt að hafa „Séð og heyrt“ áfram á sérstakri rás eins og þegar blaðið var prentað og því dreift á rakarastofur landsins. „Af hverju gerið þið engan greinarmun á fréttum, slúðri og auglýsingum?“ spurði Kalli en þá var mér öllum lokið.

Stefán Þór Sæmundsson er karlmaður, kennari og þokkalega sáttur við eigin rass.

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00