Fara í efni
Umræðan

Mark á 46,7 sekúndna fresti í stóru tapi KA

Fyrir leik FH og KA veittu bæði félögin þeim Ásbirni Friðrikssyni og Ólafi Gústafssyni viðurkenningar. Þeir eiga feril að baki með báðum liðum en hafa nú lagt skóna á hilluna. Frá vinstri: Jón Heiðar Sigurðsson, formaður handknattleiksdeildar KA, Viðar Halldórsson, formaður FH, Ólafur Gústafsson, Ásbjörn Friðriksson og Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður handknattleiksdeildar FH. Mynd: Jóhannes Long.

Varnarleikurinn var ekki í hávegum hafður í gærkvöld þegar KA sótti FH heim í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Alls voru 77 mörk skoruð á mínútunum 60 eða eitt mark á hverjum 46,7 sekúndum. Heimamenn voru talsvert drýgri í markaskoruninni heldur en KA og unnu stóran sigur, 45:32.

Leikurinn var samt nokkuð jafn til að byrja með og þegar fyrri hálfleikur var næstum hálfnaður var FH 9:7 yfir. En þá fóru þeir að raða inn mörkum fyrir alvöru og nokkrum mínútum síðar var staðan orðið 19:9. Staðan var 22:14 í hléi - vissulega mikið skorað í hálfleiknum en þó var ennþá meira skorað í þeim seinni! Hann fór 23:18 fyrir FH og heimamenn lönduðu þar sem öruggum þrettán marka sigri, 45:32.

Fjöldi marka í þessum leik hlýtur að höggva nærri markameti í deildinni. Og ef varin skot eru tekin með í reikninginn þá rötuðu 99 skot á markrammann í leiknum. Það liðu því ekki nema um 36 sekúndur milli skota sem hittu á markið allan leikinn. Og þá eru ekki talin með skot sem fóru yfir eða framhjá. Áhorfendur fengu að minnsta kosti mikið fyrir sinn snúð í þetta sinn!

Ásbjörn og ÓIafur heiðraðir

Fyrir leikinn heiðruðu bæði FH og KA tvo leikmenn sem lögðu skóna á hilluna nýverið en höfðu leikið með báðum liðum á ferlinum. Þetta voru þeir Ásbjörn Friðriksson og Ólafur Gústafsson. Ásbjörn er alinn upp í KA en gekk til liðs við FH árið 2008 og vann titla með báðum liðum. Ólafur ólst hins vegar upp í FH og vann titla með þeim og í atvinnumennsku erlendis. Hann kom heim árið 2020 og lék með KA í fjögur ár áður en hann fór aftur í FH og lék þar síðasta árið áður en skórnir fóru á hilluna.

Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 9 (tvö víti), Giorgi Dikhaminjia 7, Arnór Ísak Haddsson 6, Logi Gautason 4, Magnús Dagur Jónatansson 2, Daníel Matthíasson 1, Einar Birgir Stefánsson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1, Morten Linder 1.

Varin skot: Bruno Bernat 6, Guðmundur Helgi Imsland 1.

Mörk FH: Garðar Ingi Sindrason 13, Símon Michael Guðjónsson 8 (3 víti), Ómar Darri Sigurgeirsson 8, Jón Bjarni Ólafsson 6, Brynjar Narfi Arndal 4, Birkir Benediktsson 2, Birgir Már Birgisson 1, Chaouachi Mohamed Khalil 2, Kristófer Máni Jónasson 1.

Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 11, Daníel Freyr Andrésson 4 (eitt víti).

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz

Fasteignaskattsprósenta lækkar!

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 19:00

Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 18:00

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. nóvember 2025 | kl. 11:30

Græni dagurinn

Hlín Bolladóttir skrifar
07. nóvember 2025 | kl. 22:30

Afsakið – Kemst ekki á fundinn

Jón Hjaltason skrifar
03. nóvember 2025 | kl. 15:30