Fara í efni
Umræðan

Magnaður endasprettur KA dugði ekki til

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var langbesti maður vallarins í kvöld og Haukunum gekk illa að stöðva hann, jafnvel þótt þeir reyndu allir í einu. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

KA lék sinn fyrsta heimaleik í efstu deild karla í handbolta í vetur þegar Haukar komu í heimsókn í kvöld í 2. umferð deildarinnar. Gestirnir fóru með nauman sigur af hólmi 33:32 í kaflaskiptum leik, eftir að KA hafði næstum tekist að vinna upp sex marka forskot Hafnfirðinga á lokakaflanum.

KA sótti sigur á Selfoss í 1. umferðinni en Haukar töpuðu nokkuð óvænt gegn Aftureldingu. Í aðdraganda mótsins spáðu þjálfarar og fyrirliðar liðanna Haukum 2. sæti á Íslandsmótinu en KA hafnaði í 10. sæti í þeirri spá. Fyrir mótið sagði Andri Snær Stefánsson þjálfari KA í viðtali við akureyri.net að heimavöllurinn yrði liðinu dýrmætur og stuðningur áhorfenda skipti miklu máli. Vel var mætt á áhorfendapallana í kvöld og liðið fékk góða hvatningu þaðan. Ef ekki hefði verið fyrir slæman kafla KA-manna í síðari hálfleik hefði uppskeran líklega orðið önnur í kvöld.

KA byrjaði betur en Haukar náðu síðan yfirhöndinni

Fyrsta mark leiksins var glæsilegt sirkusmark KA-manna, sem Magnús Dagur Jónatansson skoraði, og áhorfendur tóku vel við sér. KA leiddi framan af leik en Haukar náðu að komast framúr eftir liðlega tíu mínútna leik og höfðu forystuna það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sitt sjötta mark í blálokin þegar hann minnkaði muninn í 17:14 og þannig stóðu leikar þegar flautað var til hlés. KA-mönnum gekk illa að ljúka sóknum sínum í hálfleiknum, sem var synd því markverðir Hauka vörðu varla skot. 

Bruno Bernat freistar þess að verja vítakast Freys Aronssonar. Glöggir handknattleiksunnendur sjá eflaust talsverðan svip með Frey og föður hans Aroni Kristjánssyni. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

KA-liðið mætti mun ákveðnara til leiks eftir hléið en gestirnir og skoruðu þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik. Staðan orðin 17:17 og heimamenn til alls líklegir. Stemmningin var þeirra megin og KA náði síðan 20:19 forystu, eftir að Bruno Bernat varði glæsilega, þrumaði knettinum yfir endilangan völlinn í lúkurnar á Giorgi Dikhaminjia sem greip hann í erfiðri stöðu og skilaði honum laglega í netið.

Slæmi kaflinn tók við af góða kaflanum

En þegar staðan var 21:21 og 20 mínútur til leiksloka kom slæmur kafli hjá KA og Haukar skoruðu fimm mörk í röð. Gestirnir héldu þægilegri forystu og KA tók leikhlé í stöðunni 30:24 þegar rúmar 8 mínútur voru eftir. Sex mörkum undir virtist staðan hartnær vonlaus, enda gekk lítið hjá liðinu í sókn og vörn. En einhverjir ásar virðast hafa fundist uppi í einhverjum ermum í þessu leikhléi, því KA-strákarnir gerðu fjögur mörk í röð á þremur mínútum og munurinn skyndilega aðeins tvö mörk, 30:28!

Þá var komið að Haukum að taka leikhlé til að stoppa í götin og það tókst að nokkru leyti. Náðu að auka muninn upp í 4 mörk, 33:29. Á þeim þremur mínútum sem eftir voru börðust KA-menn eins og ljón og Bjarni Ófeigur gerði þrjú síðustu mörk leiksins. Það dugði ekki til og Haukar sluppu með skrekkinn. Lokatölur 33:32 í köflóttum leik.

Andri Snær Stefánsson þjálfari og Einar Rafn Eiðsson aðstoðarþjálfari leggja á ráðin í leikhléi. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Bjarni Ófeigur bar sóknarleikinn uppi

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var langbesti maður vallarins og gerði 13 mörk fyrir KA. Morten Linder og Giorgi Dikhaminjia byrjuðu rólega en sýndu í seinni hálfleik að þeir munu styrkja liðið enn meira þegar frá líður. Það var annars haustbragur á sóknarleiknum, hann var stirður á löngum köflum og gestirnir fengu of mikið af hraðaupphlaupum vegna þess. Breiddin í hópnum er heldur ekki mikil og kannski ekki mörg tækifæri til að breyta til og stokka upp, þegar gangurinn er ekki nógu góður inni á vellinum. En miðað við að eiga í fullu tré við lið sem spáð er öðru sæti í deildinni þá mun þetta KA-lið geta halað inn mörg stig í vetur, ekki síst þegar lykilmenn á borð við Einar Rafn Eiðsson og Arnór Ísak Haddsson snúa til baka úr meiðslum.

Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 13 (3 víti), Morten Linder 5 (1 víti), Giorgi Dikhaminjia 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 3, Jóhann Geir Sævarsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 2.

Varin skot: Bruno Bernat 6, Guðmundur Helgi Imsland 1 (1 víti).

Mörk Hauka: Freyr Aronsson 9, Sigurður Snær Sigurjónsson 6, Hergeir Grímsson 5, Andri Fannar Elísson 3, Birkir Snær Steinsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Þráinn Orri Jónsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 1.

Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 7 (2 víti), Aron Rafn Eðvarðsson 0.

Öll tölfræði leiksins

Reynslunni ríkari eftir fjár­hags­leg á­föll síðustu ára

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
09. september 2025 | kl. 08:00

Börnin í Móahverfi sem munu þurfa skutl um allan bæ

Páll Pálsson skrifar
02. september 2025 | kl. 16:30

Er menntakerfið eina vandamálið?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
02. september 2025 | kl. 13:15

… og við hvað á fólkið svo að vinna?

Árni Guðmundsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:00

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 14:15

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 12:00