Mikið breytt KA-lið í handboltanum í vetur

Fyrsti leikur KA-manna á nýhöfnu keppnistímabili í efstu deild karla í handbolta er í dag kl. 16 þegar Selfyssingar verða heimsóttir. KA teflir fram nokkuð breyttu liði frá síðasta vetri, þegar árangur liðsins var undir væntingum. Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í efstu deild eru ekki bjartsýnir á að KA standi sig betur á komandi tímabili en í árlegri spá þeirra hafnaði KA í 10. sæti af 12 liðum.
Á síðasta tímabili var KA allan tímann neðarlega í töflunni og endaði að lokum í 9. sæti. Liðið fékk ekki eitt einasta stig gegn þeim liðum sem höfnuðu í 7 efstu sætunum og má segja að árangur KA gegn liðunum fyrir neðan hafi þó orðið til þess að lokaniðurstaðan varð ekki enn verri.
Norðmaðurinn Morten Boe Linder, til vinstri, Georgíumaðurinn Giorgi Arvelodi Dikhaminjia sömdu við KA í sumar. Aftan við Dikhaminjia er Patrekur Stefánsson í „hjóltúr“ á æfingunni í gær.
Verður jafnara mót en oft áður
Hinn gegnheili KA-maður Andri Snær Stefánsson var ráðinn þjálfari fyrir tímabilið og töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum. Einn besti leikmaður liðsins, Dagur Árni Heimisson, gekk til liðs við Valsmenn og erlendu leikmennirnir eru horfnir á braut. Þar að auki verða Arnór Ísak Haddsson og Einar Rafn Eiðsson ekki klárir í slaginn strax. Einar Rafn gegnir að auki stöðu aðstoðarþjálfara.
Andri Snær er ekki mikið að velta sér upp úr spádómum. „Okkur er spáð 10. sætinu en ég spái ekkert í slíku. Það er alveg ljóst að mörg lið eru jöfn í deildinni og ég tel að þetta verður jafnara mót heldur en oft áður. Við hugsum um að bæta okkar leik viku frá viku og það verður gaman að byrja fjörið,“ segir hann í samtali við akureyri.net.
Línumennirnir Jens Bragi Bergþórsson, til vinstri, og Einar Birgir Stefánsson sem þarna er í vörn. Í markinu stendur Guðmundur Helgi Imsland sem kom til KA í sumar frá Vængjum Júpíters/Fjölni.
Sjö nýir leikmenn
Andri Snær er þrátt fyrir allt bjartsýnn á komandi vetur, þó að hópurinn hafi orðið fyrir skakkaföllum vegna meiðsla. „Ég er nokkuð sáttur með undirbúningstímabilið, við höfum æft vel ásamt því að þjappa hópnum saman. Æfingaleikir hafa verið fínir og við erum á réttri leið með að stilla okkur saman finnst mér. Vissulega höfum við lent í meiðslum sem hafa haft áhrif á undirbúninginn, við þurftum m.a. að hætta við æfingaleik við Gróttu þar sem hópurinn var þunnur hjá okkur,“ sagði Andri Snær.
KA hefur náð að fylla í skörðin með nýjum mönnum. Daníel Matthíasson og Leó Friðriksson eru komnir aftur heim í KA. Þá hafa þeir Svavar Ingi Sigmundsson markvörður og Ingvar Heiðmann Birgisson tekið fram skóna að nýju eftir talsvert hlé en Ingvar varð þó fyrir því óláni að meiðast og verður ekki með í vetur. Guðmundur Helgi Imsland markvörður er kominn norður frá Vængjum Júpíters/Fjölni og þá samdi liðið við tvo erlenda leikmenn. Það eru georgíski landsliðsmaðurinn Giorgi Arvelodi Dikhaminjia og Norðmaðurinn Morten Boe Linder. Báðir eru þeir reynslumiklir leikmenn og báðir örvhentir að auki og koma til með að styrkja leikmannahópinn verulega.
Andri Snær Stefánsson þjálfari KA og aðstoðarþjálfarinn Einar Rafn Eiðsson á æfingu í gær. Einar Rafn hefur verið máttarstólpi KA-liðsins sem leikmaður undanfarin ár en verður ekki í því hlutverki strax; fór í aðgerð í sumar vegna meiðsla og ekki er vitað með vissu hvenær hann verður tilbúinn í slaginn.
Uppaldir leikmenn fá stór hlutverk
Andri Snær segist taka margt jákvætt út úr síðustu vikum og það verði gaman að byrja Íslandsmótið. Hann býst ekki við að fleiri leikmenn bætist í hópinn og traust verði sett á unga og uppalda stráka. „Ég er mjög sáttur við mannskapinn sem við stillum upp með í KA. Uppaldir leikmenn fá stór hlutverk og við viljum það fyrir norðan. Hópurinn er alls ekki breiður en við förum í tímabilið með okkar mannskap og ég býst ekki við frekari styrkingu. Við eigum inni Arnór Ísak og Einar Rafn sem fóru í aðgerð í sumar og byrja ekki tímabilið með okkur en koma inn vonandi sem allra fyrst,“ segir Andri Snær.
Heimavöllurinn hefur oft reynst happadrjúgur fyrir KA, góð stemmning á leikjum og stuðningur áhorfenda geta gert gæfumuninn í jöfnum leikjum. Þjálfarinn segir þetta afar mikilvægt. „Ég vænti þess að við stöndum saman sem lið og mætum með liðsheild inn í mótið auk þess að nýta KA-heimilið vel sem okkar heimavöll. Ég hvet okkar fólk til að mæta á leiki í vetur og vera með okkur í baráttunni,“ sagði Andri Snær Stefánsson að lokum.