Fara í efni
Umræðan

Börnin í Móahverfi sem munu þurfa skutl um allan bæ

Hugleiðing formanns handknattleiksdeildar Þórs við upphaf tímabils í Olísdeildinni.

Glæsilegt hverfi rís nú hratt í Móahverfi á Akureyri og ljóst er að þar munu hundruð barna og unglinga búa innan skamms með fjölskyldum sínum. Geri ég ráð fyrir að flest þessara barna muni koma til með að prófa að stunda einhverjar af þeim fjölmörgu íþróttagreinum sem íþróttafélagið í sama póstnúmeri hefur uppá að bjóða.

Það sem ég og fleiri innan Íþróttafélagsins Þórs höfum mestar áhyggjur af er aðstöðuleysið sem félagið stendur frammi fyrir. Sama aðstöðuleysi og afar og ömmur ófæddu barnanna í nýja Móahverfinu þurftu að búa við. Stöðnunin hefur verið slík.

Að vísu er verið að vinna að uppbyggingu gervigrasvallar á félagssvæðinu sem er vel og má þakka fyrir það en aðstaða félagsins er svo dreifð um allan bæ að það gerir öllum erfitt um vik að gefa börnum færi á að prófa fleiri en eina íþrótt í senn. Nú er glæsileg og þörf uppbygging á félagssvæði Knattspyrnufélags Akureyrar að taka enda eða amk sér fyrir endann á henni, en bæjaryfirvöld verða að tryggja að uppbyggingin haldi áfram og verði næst á Þórssvæðinu því að ekki viljum við að það verði mismunun á milli hverfa eða bæjarhluta. Það vill væntanlega engin sjórnmálaflokkur hafa það á ferilskránni sinni.

  • Fótboltaæfingar fara fram á félagssvæði Þórs
  • Handboltaæfingar fara fram í Síðuskóla og Höllinni
  • Körfuboltaæfingar fara fram í Glerárskóla og Höllinni
  • Píluæfingar fara fram í Laugargötu
  • Rafíþróttum er holað niður í stúku Þórsvallar
  • Taekwondo er í Oddeyrarskóla
  • Keiludeildin er með sína aðstöðu hinum megin á landinu
  • Hnefaleikaæfingar eru í Laugargötu

Það sér það hvert mannsbarn að æfingaaðstaða og dagskrá iðkenda er sundurtætt og bílferðir með tilheyrandi svifryki eru óumflýjanlegar.

Það hafa verið viðræður milli bæjaryfirvalda og Íþróttafélagsins Þórs um byggingu íþróttahúss á félagssvæði Þórs en hjólin snúast á hraða snigils og mun hægar en hjólin í Móahverfi því það sprettur upp á ógnarhraða. Félagið er það eina á landinu af þessari stærðargráðu sem ekki hefur slíkt hús á félagssvæðinu og þolinmæði félagsmanna er með hreinum ólíkindum.

Hagræðing með byggingu slíks húss væri líka gríðarleg fyrir aðrar íþróttagreinar og hefur verið reiknuð út, en fleiri tímum yrði hægt að úthluta fyrir til dæmis ört stækkandi hóp fullorðinna blakara, félag eldri borgara gæti fengið meiri tíma, leikskólabörnum væri auðveldlega hægt að bjóða tíma og svo framvegis, semsagt bæta heilsu á líkama og sál fyrir fjölbreytta hópa íbúa með því að losa um tíma í meirihluta íþróttahúsa bæjarins. Þá er ótalinn sá fjöldi tíma sem önnur íþróttafélög myndu fá.

Svo er það staðreynd að Íþróttahöll Akureyrar er miklu frekar Viðburðarhús Akureyrar þar sem hún er leigð út undir árshátíðir, veislur, tónleika, sýningar og margt annað sem augljóslega tekur tíma af iðkendum íþrótta og hefur það gengið svo langt að meistaraflokkur Þórs í handbolta var tilneyddur að spila deildarleik á Dalvík.

Bæjarstjórnarkosningar eru í vor og mig langar að biðja alla Þórsara að leggja til hliðar ástríðu sína á einhverjum flokki einu sinni og kjósa fyrir íþróttafélagið sitt, íþróttafélagið sem hefur haldið utan um ykkur, foreldra ykkar, ömmur ykkar og afa, börnin ykkar, barnabörnin og börn nágrannans, kjósa þann flokk sem stendur upp og þorir að keyra í þessa framkvæmd, og það strax, þessi framkvæmd mun sameina iðkendur Þórs á einn stað og gera félagið loksins að félagi.

Enda þetta á upphafssetningu í texta eins af sonum Þórs, Dóra K. sem mér finnst eiga vel við núna.

„Ég stend á hæðum og horfi yfir þorpið mitt, bræður og systur þau berjast fyrir félagið.“

Páll Pálsson er formaður handknattleiksdeildar Þórs

Er menntakerfið eina vandamálið?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
02. september 2025 | kl. 13:15

… og við hvað á fólkið svo að vinna?

Árni Guðmundsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:00

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 14:15

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 12:00

Brautin rudd fyrir nýtingu glatvarma

Ottó Elíasson og Ásthildur Sturludóttir skrifa
25. ágúst 2025 | kl. 10:10

Meira fyrir minna

Sigurjón Þórðarson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 14:00