Fara í efni
Umræðan

Kröfur KSÍ og bolmagn sveitarfélaga

Svo virðist sem sveitarstjórnarfólk sé að vakna upp af værum blundi gagnvart þeim ákvörðunum sem teknar eru af aðildarfélögum KSÍ á ársþingum. Þær ákvarðanir hafa bein áhrif á fjárhag sveitarfélaga, því uppbygging mannvirkjana er iðulega á hendi sveitarfélaga sem og rekstur. Þessar ákvarðanir eru teknar án nokkurrar aðkomu sveitarfélaga.

Það er forvitnilegt að lesa reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga og þær kröfur sem eru gerðar um mannvirki svo lið megi spila í efstu deild. Í mörg ár hefur krafa verið um viðeigandi stúkumannvirki, þ.e. yfirbyggðar stúkur sem taka ákveðinn fjölda áhorfenda í sæti. Uppfylli lið ekki viðeigandi stúkumannvirki spila þau á undanþágu. Er eðlilegt að verja milljörðum í uppbyggingu áhorfendaaðstöðu sem er notuð nokkrar klukkustundir á ári?

Á ársþingi KSÍ árið 2022 var breytt mótafyrirkomulag samþykkt sem lengdi keppnistímabilið, byrjað skuli að spila fyrr að vori og lengur inn í haustið. Það segir sig sjálft að grasvellir á Íslandi eru ekki tilbúnir um miðjan apríl og því orðin meiri krafa á uppbyggingu gervigrasvalla.

Nýjustu fréttir af ársþingi KSÍ í ár er flóðlýsingarskylda á heimavöllum liða í Bestu deildum karla og kvenna. Lágmarkskrafa er gerð um 800 lux lýsingu. Í greinargerð með tillögunni sem var samþykkt kemur fram að með breytingu á mótafyrirkomulagi á síðasta ári, lengingu inn í skammdegið, sé mikilvægt að bregðast við svo hægt sé að spila leiki seinni part dags þegar líður á haustið. Í fréttum af þessari ákvörðun er ályktað að fjárfesta þurfi í gervigrasi á alla þá velli sem fyrir eru grasvellir, svo flóðlýsing nýtist í fleiri tilfellum en eingöngu á keppnisleikjum.

Eru þessar kröfur sem aðildarfélög samþykkja á ársþingum KSÍ raunhæfar? Er raunhæft að íþróttafélögin kosti alla uppbyggingu og rekstur á þessum mannvirkjum sjálf? Er raunhæft að sveitarfélög kosti alla uppbyggingu og rekstur á þessum mannvirkjum? Eða eru kröfur ársþings KSÍ um heimavallaaðstöðu allra liða sem spila í efstu deild kannski óraunhæfar fyrir 380.000 manna þjóð?

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir er bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á Akureyri

Viljum við varðveita sögu og minjar?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. mars 2023 | kl. 09:30

Guði sé lof að ég er ekki unglingur í dag

Daðey Albertsdóttir, Silja Björk Egilsdóttir og Skúli Bragi Geirdal skrifa
28. mars 2023 | kl. 12:00

Til Sunnu Hlínar

Hjörleifur Hallgríms skrifar
28. mars 2023 | kl. 06:00

Skipulagsmál á Akureyri, bútasaumur til skamms tíma eða framtíðarsýn?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
25. mars 2023 | kl. 06:00

Mun unga fólkið okkar fjárfesta í húsnæði í Móahverfi?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
24. mars 2023 | kl. 11:11

Tækifæri á Akureyrarvelli

Andri Teitsson skrifar
21. mars 2023 | kl. 18:50