Fara í efni
Umræðan

Kennarar kjósa frekar mannúð en úlfúð

OPIÐ BRÉF TIL VIÐSKIPTARÁÐS
 
Það hefur komið fram áður að ég hef náð nærri 40 árum í skólastarfi og þar með 5 verkföllum til að ná fram lífvænlegum framfærslueyri. Á þessum tíma hefur aldrei verið samið um hækkun launa kennara án þess að þeir gefi eftir einhver réttindi! Ég ætla ekki að fara í gegnum það hér! En til að segja langa sögu stutta þá hef ég verið í þessu starfi vegna þess að ég finn til ábyrgðar, ég finn til þeirrar ábyrgðar að undirbúa yngri kynslóðir til þeirra verka sem eru nauðsynleg til að samfélag virki. Ég hef lagt grunninn að flestum störfum samfélagsins sem þýðir að ég eigi fyrrum nemendur sem halda uppi samfélaginu í dag!
 
Það mikilvægasta er lífsleiknin. Að fólk kunni samskipti. Það tekur oft drjúgan tíma frá kennarastarfinu að vinna í eineltismálum. Þau mál skipta miklu máli og alveg sama hvað sagt er í fjölmiðlum þá mega skólar ekki tjá sig um það vegna þess að starfsmenn skóla eru bundnir þagnarskyldu. Þess vegna verður maður dapur þegar staðan kemur upp opinberlega, meðal fullorðins fólks. Viðskiptaráð hefur í langan tíma lagt sig fram um það draga starf kennara í efa og leyft sér að halda því fram að í skólakerfinu vinni almennt fólk sem hefur leti og ómennsku að leiðarljósi . Ef Viðskiptaráð hefur ekki hugsað hlutina þannig þá hafa fjölmiðlar í versta falli matreitt hugmyndirnar þannig.
 
Í mínum huga er þetta eineltismál. Ítrekuð árás á fólk sem gerir sér fulla grein fyrir ábyrgð sinni og leggur nótt við dag til að koma yngri kynslóðum út í lífið til að taka við samfélaginu. Þúsundir manna sem þurfa raunverulega að hafa áhyggjur af afkomu þrátt fyrir margra ára háskólanám, og stöðuga endurmenntun til að halda í við þróun.
 
Þegar ég hef unnið að eineltismálum sem kennari þá þarf ég að greina hvar hundurinn liggur grafinn. Yfirleitt eru gerendur að glíma við minnimáttarkennd, hroka, vanlíðan og vanþekkingu. Þolendur geta verið af ýmsum toga, þeir sem skera sig úr á einhvern hátt eða jafnvel þeir sem standa sig áberandi vel. Ég hef þurft að að mæla með að slíkir nemendur séu færðir um bekki eða jafnvel skóla vegna ofsókna og vegna þess að fullorðna fólkið getur ekki tekist á við vandann. Verst er þó þegar þetta gerist í heimi fullorðinna vegna þess að þaðan fá börnin hugmyndirnar!
 
Íslenskir kennarar hafa yfirleitt mannúð að leiðarljósi og þurfa ekki á úlfúð eða úreltum hugmyndum Viðskiptaráðs að halda! Íslenskir skólar eru ekki lengur eingöngu menntastofnanir heldur uppeldisstofnanir fyrir foreldra sem vinna myrkrana á milli til að „halda sjó“ í samfélagi sem er orðið stéttaskipt!
 
Íslenskir kennarar kjósa alltaf mannúðina og leggja sig alltaf fram við að bæta samfélagið þó það gerist í þögninni! Þess vegna er óhætt að fjárfesta í kennurum og brýnt að þeir komist af þannig að þeir hafi tækifæri til að styðja við aðra! Versta staðan væri að kennarar sæju sig knúna til að hverfa til annarra starfa eða annarra landa vegna þess að það þrífst enginn lengi þar sem hann er niðurlægður.
 

Hlín Bolladóttir er grunnskólakennari til áratuga, nú í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Fámennt ríki á jaðrinum

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. nóvember 2024 | kl. 16:00

Varðandi virðingu

Hlín Bolladóttir skrifar
09. nóvember 2024 | kl. 19:00

Frelsi til að búa þar sem þú vilt

Sæunn Gísladóttir skrifar
09. nóvember 2024 | kl. 12:00

Besta kjarabótin er lækkun vaxta

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 19:45

Allt mannanna verk – orkuöryggi á Íslandi

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 19:30

Eflum Háskólann á Akureyri

Sigurjón Þórðarson skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 11:00